top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Þrjú ár án flugferða

Mea culpa, ég játa mig sekan: ég hef ekki stigið í flugvél í þrjú ár. Ég smitaðist að lokum af veirunni sem spekingar kalla flygskam á fræðimáli.

Þegar maður áttar sig á því að flugsamgöngur valda um 6% allrar losunar gróðurhúsategunda í heiminum þrátt fyrir að yfir 80% jarðarbúa noti aldrei flugvél, að í þessum töluðum orðum brennur mannkynið olíu milljón sinnum hraðar en það tók jörðina að búa hana til, og þegar maður hefur kynnt sér þó ekki væri nema brotabrot af þeim vandræðum sem sú brennsla á eftir að baka okkur í framtíðinni, getur maður ekki leyft sér lengur svona duttlungafull stökk á milli heimsálfa. Til þess að jafna út þá losun sem ein flugferð til Bali veldur þyrfti maður að flokka ruslið sitt í fleiri áratugi, ef á annað borð væri hægt að jafna hana út  (5 tonn af CO₂e og 1000 lítrar af eldsneyti brenndir).

Takk, en nei takk!


Auðvitað þýðir fluglaus lífsstíll að ferðalög til útlanda verða að meiriháttar fyrirtæki. Nú þarf að keyra austur alla leið til Seyðisfjarðar og sigla þaðan til Danmerkur með Norrænu, en siglingin tekur tvo heila sólarhringa. Siglingin veldur vissulega einhverja losun en hún er allt að 60% minni en í flugi ef bíllinn er skilinn eftir heima. Þegar til Danmerkur er komið þarf að velja sér annan ferðamáta til að komast á áfangastað (lest eða bíll eru fljótlegust, en reiðhjól kemur líka til greina, enda frábært net af hjólastígum um alla Evrópu sem hægt er að stúdera á vefsíðunni Eurovelo).


Þórshöfn, séð frá Norrænu. Frændur okkar Færeyjingar eru vanir ferjusiglingum, enda eiga þeir eina farþegaskipið sem siglir til og frá Íslandi. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi...


Það sem virðist við fyrstu sýn vera meiriháttar hindrun reynist í raun vera frábært tækifæri til að heimsækja staði og kynnast fólki sem maður hefði annars misst af. Suðurland og austfirðir (ef sú leið er farin), Seyðisfjörður, Færeyjar (Norræna stoppar örstutt þar á leiðinni til Danmerkur), og síðan auðvitað Danmörk og allir hinir staðirnir sem liggja meðfram leiðinni, hvert sem áfangastaðurinn er.


Í síðustu utanlandsferð okkar hjóna var keyrt í gegnum Danmörk á rafbíl, áleiðis til Frakklands. Við tókum okkur þó tíma til að heimsækja nokkra staði á leiðinni. Á eyjunni Fanø við Esbjerg blasti við okkur óvenjuleg sjón: þúsundir flugdrekaáhugamanna höfðu safnast á eyjunni til að stunda sína iðju á árlegri flugdrekahátíð...

Svona ferðalag verður auðvitað mun tímafrekara. Samt lít ég ekki svo á að um öfgafulla samviskusemi sé að ræða, heldur frekar um sjálfsagða, almenna skynsemi. Raunar finnst mér forgangsröðun okkar í umhverfismálum vera afar brengluð: við hneykslumst að átroðningi ferðamanna en okkur finnst um leið sjálfsagt að runta þvert og kruss um hálendi landsins í olíuknúnum tryllitækjum, bara upp á gamanið. Við froðufellum yfir sóðaskap þeirra sem gera þarfir sínar í íslenskri náttúru en gleðjumst um leið yfir velgengni íslenskra flugfélaga og viðleitni þeirra til dæla stórhættulegum úrgangi í andrúmsloftið svo milljónum tonna skiptir (í formi CO₂). Við fussum og sveium yfir neysluhyggju nágrannans en heimtum um leið ýmist hærri laun eða lægri skatta við fyrsta tækifæri (til hvers er aukinn kaupmáttur ef ekki til að auka neyslu?). Við skattleggjum innlenda, endurnýjanlega raforku og rífumst um virkjanir og vindmyllur en leyfum um leið flugfélög að kaupa innflutta olíu skattfrjálst (sem skýrir fáránlega lágt verð á flugmiðum), fáum stéttarfélög til að niðurgreiða ósómann og biðjum um undanþágu frá kolefnissköttum ESB fyrir hönd flugfélaga.

Má bjóða þér skattfrjálsa, niðurgreidda, verksmiðjuvædda og mannfjandsamlega flugferð til Tenerife?

Takk, en nei takk!


Sumir finna vindmyllum allt til foráttu, og gera þá ekki síst athugasemd við útlit þeirra. Það verður þó varla sagt að gamaldags vindmylla eins og þessi skemmi útsýnið (þetta eintak blasti við okkur á leið okkar í gegnum Holland og var enn í notkun)

Það hefur lengi verið vinsæl iðja þegar mætt er aftur í vinnuna eftir sumarfríi, að reyna að laða fram aðdáun vinnufélaganna á kaffistofunni með því að segja frá nýafstöðnu ferðalagi til fjarlægðra landa, en slíkar ferðir eru að jafnaði farnar í flugvél með tilheyrandi brennslu jarðefnaeldsneytis.

Má vera að mögulegt sé að snúa þessari hefð við, og að hægt sé að framkalla aðdáun kollega með því að segja frá sumarfríi sem fól EKKI í sér að fljúga yfir hálfan hnöttinn í kolefnisspúandi áldós með eins og hálfs fermetra snyrtiaðstöðu?


Nýbreytni og framandleiki í ferðalögum eru ekki endilega í hlutfalli við þá vegalengd sem farið er hverju sinni. Sögulega séð hefur fjarlægðin vissulega verið afgerandi þáttur í því að komast í ólíkt umhverfi. Hún fól í sér ólíkar jarðfræðilegar aðstæður, ólíkt loftslag og lífríki, og fyrir íbúa hvers svæðis, ólík menning, tungumál og jafnvel litarháttur.


En hnattvæðingin hefur að hluta til þurrkað út þessar línur. Í dag rekumst við á sömu verslanir í Reykjavík og í Frankfurt, fólk klæðist í svipuðum fötum hvort sem það býr í Tokyo eða Helsinki, keyrir sömu bílana hvort sem það er í Madrid eða Winnipeg. Sömu vörubílarnir flytja sömu vörurnar á alveg eins mislægum gatnamótum í Shanghai og Orlando, og svipaðar blokkir eru í byggingu í Edinborg og Búdapest.


Það er ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið, segir máltækið. Þetta getur hljómað klisjukennt, en margir hafa upplifað að máltækið hittir oft naglann á höfuðið. Eitt merkilegasta verk enskrar bókmenntasögu eru Kantarborgarsögur eftir miðaldarrithöfundinum Geoffrey Chaucer, en bókin segir frá hópi ferðalanga sem eru á leiðinni í pílagrímsferð og hittast í enskri krá við upphaf ferðarinnar. Til að stytta sér stundir ákveða þeir að halda keppni um hver getur sagt bestu söguna á meðan á ferðalaginu stendur. Ferðalangarnir koma úr gerólíkum áttum, eru á ólíkum aldri og úr ólíkum stéttum. Meðal þeirra er riddari, munkur, lögfræðingur, sjómaður, hjúkrunarkona, læknir og malari. Úr þessu verður einkennilegur hrærigrautur ólíkra furðusagna, en lesandinn áttir sig fljótlega á því að áfangastaður pílagrímanna (Kantaraborg) er algjört aukaatriði í söguþræðinum, enda snýst frásögnin fyrst og fremst um þær sögur sem eru sagðar á meðan á ferðalaginu stendur.


Hefðu flugvélar verið til á 14. öld hefði varla orðið mikið um þetta meistaraverk Chaucers, enda höfðu sögurnar varla getað fyllt eina blaðsíðu… Flugferðir hafa minnkað ferðatímann svo mikið að varla er um ferðalög að ræða. Við ferðumst ekki lengur, heldur þjótumst


Sem betur fer eru enn til ferðamátar sem gera manni kleift að njóta en ekki þjóta“: farþegaskip, lestir, hjólreiðar, ganga eða jafnvel hestaferðir. Hægfara ferðamátar gefa manni færi á að undirbúa sig betur undir þær upplifanir sem eru framundan, að hafa fyrir hlutunum, að kynnast fólki á leiðinni, eiga gæðastundir með félögum, maka eða fjölskyldu, og sjá og upplifa ýmislegt á leiðinni sem maður hefði annars misst af.


Siglingin um borð í Norrænu er tækifæri til að kynnast nýju fólki. Þessi ung kona frá Danmörku, starfsmaður um borð, reyndist vera fegin að sjá okkur aftur og skiptast á nokkrum sögum (jafnvel gjöfum) á meðan á siglingunni stóð.

Hvað varðar framandleika þeirra manneskja sem við hittum á ferðalaginu getum við líka lært ýmislegt af Kantaraborgarsögum Chaucers: það að kynnast fólki sem hefur allt annan bakgrunn og kemur úr allt annarri stétt en maður sjálfur getur verið afskaplega framandi lífsreynsla, jafnvel þótt sú manneskja búi ekki lengra en í næsta bæ. Á lúxushóteli á Spáni erum við hins vegar mjög líkleg til að hitta fólk sem er… nákvæmlega eins og við.


Það er vissulega fátt leiðinlegra en ósveigjanleg siðferðisregla. Ég lofa því ekki að stíga aldrei aftur í flugvél, en get sannarlega mælt með því að sem flestir láti reyna á fluglausa kúrinn á næstunni. Bestu minningarnar úr ferðalaginu eru yfirleitt hvorki áfangastaðurinn né tíminn sem sparaðist með því að velja hraðasta samgöngumátann, heldur tilfinningarnar sem við upplifum á meðan á ferðalaginu stendur. Og það sem skiptir mestu máli þegar kemur að því að framkalla aðdáun við kaffivélina eru ekki áfangastaðurinn eða ferðamátinn, heldur gamansögurnar og skrýtlurnar sem maður tekur með sér heim.


Hjólaleigur eru fjölmargar í Evrópu, og sumar þeirra bjóða meira að segja upp á tvíhjól. Þessi glæsilegur reiðfákur gerði okkur hjónum kleift að runta um litlu eyjuna Île de Ré við vesturströnd Frakklands







コメント


Post: Blog2_Post
bottom of page