Nýlega kom út skýrsla starfshóps um "stöðu og áskoranir í orkumálum" á vegum yfirvalda. Í þeirri skýrslu er reynt að svara spurningunni um hversu mikla orku þarf í orkuskipti til þess að komast út úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Slíkt verkefni er alltaf svolítið varasamt, þar sem forsendur fyrir útreikninginn eru alltaf svolítið á reiki: hvernig verður eftirspurn eftir orku í framtíðinni? Hvaða tæki verða í boði í stað þeirra sem nú ganga fyrir jarðefnaeldsneyti? Hversu margir verða Íslendingar og hvernig verður atvinnulífið?
Til þess að komast framhjá þessari óvissu en venjan í slíkum skýrslum að teikna upp mismunandi "sviðsmyndir" sem eiga að svara spurningunni: "hversu mikla orku þarf að framleiða ef samfélagið þróast í þessa átt?"
Þetta er sniðug leið til að glíma við óvissuna, hins vegar stendur alltaf þessi spurning eftir: hvaða sviðsmyndir eru raunhæfar og af hverju voru þessar valdar frekar en aðrar? Á bak það val liggur alltaf huglægt mat, og jafnvel pólítískt.
En byrjum á byrjuninni: hvernig er líklegt að heimurinn þróist fram að 2050? Ef við gefum okkur að þjóðir heims ætli að taka Parísarsamkomulagið alvarlega þá ætti jarðefnaeldsneyti að heyra sögunni til eða næstum því eftir 2050. Rifjum nú upp að jarðefnaeldsneyti samsvarar um 85% af orkunni sem er unnin í heiminum í dag:
Þetta þýðir að ef við ætlum að nota raforku í stað jarðefnaeldsneytis (hvort það er í beinu formi eða í formi vetnis og rafeldsneytis), þá þurfum við að margfalda raforkuframleiðslu með 6,6 (100/15 = 6,6). Líklega er það ennþá meira því við framleiðslu vetnis og rafeldsneytis tapast stór hluti af þeirri raforku sem er notuð í gegnum ferlið (70-80%). Tökum bjartsýnina á þetta og segjum að það dugi að sjöfalda framleiðsluna (aukning um 700% á 30 árum). Þýskaland, eitt öflugasta og ríkasta ríki heims, hefur verið að fjárfesta í vindorku og sólarorku síðustu 30 árin. Á sama tímabili hefur raforkuframleiðsla Þýskalands aukist um... 15-20%:
Jafnvel Ísland, sem er ofdekrað af Móðir Náttúru og situr á fjársjóð endurnýjanlegrar orku, hefur "aðeins" tekist að auka framleiðslu sína um 450% á síðustu 30 árum.
Réttið upp hönd sem trúa því að heimurinn allur muni geta aukið raforkuframleiðslu sína um 700% á næstu 30 árum?
Hvað þýðir þetta þá? Það þýðir að heimur án jarðefnaeldsneytis er heimur þar sem orka er af skornum skammti.
Og hvað með það þó við höfum minni orku? Við höfum alla vega vitið? Við notum orkuna í rauninni ekki sjálf. Alla vega mæli ég ekki með að lesandi fái sér dísilolíu í morgunmat eða stingi puttunum í innstungu til að hressa sig við eftir erfiðan vinnudag. Það eru vélarnar okkar sem nota orkuna, og þær nota hana til að framleiða. Orka er vélafóður, og hagkerfi heimsins byggir á framleiðslu þessara véla. Minni orka þýðir færri vélar í gangi, færri vélar í gangi þýðir minni framleiðsla, og minni framleiðsla þýðir að hagkerfi heimsins mun dragast saman. Þetta á sérstaklega við um olíu, sem er undirstaða allra viðskipta og vöruflutninga í heiminum. Samgöngur eru æðar heimshagkerfisins og olían er blóðið sem rennur í gegnum þessar æðar. Þetta samband orkuframboðs og framleiðslu sést á eftirfarandi riti sem sýnir fylgni orkunotkunar annars vegar og hagvaxtar hins vegar á síðustu 50 árum:
Þetta rit sýnir okkur að á síðustu 50 árum hefur vöxtur landsframleiðslu ("GDP growth") fylgt vexti í orkuvinnslu. Hagvöxtur hefur reyndar verið aðeins meiri en vöxtur í orkunotkun þökk sé betri orkunýtni, en sambandið er samt sem áður augljóst. Þetta samband er ein ástæða þess að okkur gengur svo illa að hætta notkun jarðefnaeldsneytis: þegar stjórnmálamenn standa frammi fyrir ákvarðanir sem varða loftslagið þurfa þeir gjarnan að velja milli minni losunar gróðurhúsalofttegunda eða meiri hagvöxtar, og þar sem hagvöxtur er alltaf fremstur á forgangslistanum er loftslaginu sópað undir teppið.
Þar sem við höfum vanist stöðugum hagvexti á síðustu 150 árum finnst okkur sjálfsagt að sá hagvöxtur hljóti að halda áfram endalaust svo fremri sem efnahagsráðherrar og seðlabankastjórar heimsins ýta á rétta takka. En sögulega séð er hagvöxtur ekki regla, heldur undantekning:
Eins og sést á myndritinu hér að ofan var hagvöxtur nánast enginn á síðustu 1000 árum þangað til við fundum upp á jarðefnaeldsneytið (fyrst kolin, síðan olíu og gas). Mun sá fordæmalausi hagvöxtur sem byrjaði eftir 1850 halda áfram í heimi án jarðefnaeldsneytis? Ég mundi ekki veðja upp á það...
Þrátt fyrir bjartsýni stjórnmálamanna mun endurnýjanleg orka ekki geta fyllt upp í stóra gatið sem jarðefnaeldsneyti skilur eftir sér. Það þýðir að hagvaxtarlestin er að komast á leiðarenda. Við getum í besta falli látið hana rúlla í nokkur ár í viðbót með því að brenna eins mikið af jarðefnaeldsneyti og við komust yfir (sem hefur verið stefnan hingað til), en jafnvel það mun ekki duga til lengdar því olíubirgðir heimsins eru að klárast og olíuframleiðsla hefur annað hvort náð hámarki nú þegar eða mun ná hamarki á allra næstu árum. Ofan á orkuskortinn geta bæst náttúruhamfarir, matvöruskort og jafnvel stríð af völdum loftslagsbreytinga, sem verða ekki beinlínis til þess fallin að auka hagvöxt í heiminum.
Alveg sama hvað hagfræðingar Alþjóðabankans segja okkur, það verður enginn hagvöxtur á næstu áratugum því orkupartýið er búið, og eins gott að búa sig undir timburmenn!
Hvað segir þetta okkur um framtíð orkumála á Íslandi? Það segir okkur tvennt:
1- Hagkerfi Íslands er samtvinnað hagkerfi heimsins: heimskreppur leiða yfirleitt til kreppu á Íslandi. Þegar illa árar þurfa neytendur að forgangsraða í þágu grunnþarfa og skera niður allt sem getur flokkast undir "lúxus". Flugferðir til fjarlægðra landa má örugglega flokka undir "lúxus" (sérstaklega til Íslands sem er dýr áfangastaður) og það þýðir að jafnvel þótt heimurinn geri ekkert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugiðnaðinum mun ferðaiðnaðurinn dragast saman af efnahagslegum ástæðum.
Flugið er sérstaklega viðkvæmt fyrir þessum samdrætti þar sem engar raunhæfar tæknilausnir liggja fyrir í dag í orkuskiptum á farþegaþotum. Með framsýni getum við kannski dempað höggið með því að bjóða upp á skipaferðir til og frá landinu, en þær geta verið sparneytnari kostur ef rétt er farið að (og líklegri til að geta notað annað eldsneyti en olíu). En þetta þýðir samt að orkuþörf frá ferðamannabransanum mun dragast saman, og því ætti ekki að gera ráð fyrir sífellt meiri orkuþörf frá þeim bransa. Þetta gæti líka átt að einhverju leyti við um orkufrekan iðnað svo sem álframleiðslu.
2- Þetta segir okkur líka að millilandaviðskipti munu dragast saman. Hnattvæðing verslunarinnar hefði aldrei orðið möguleg nema með tilkomu olíunnar, og ef olían er á útleið þá er hnattvædd verslun líka á útleið. Það þýðir að þjóðir heims munu í sífellt meira mæli reyna að framleiða vörur heima fyrir frekar en að flytja þær inn, eða að minnsta kosti leita að styttri flutningaleiðum til að spara orku. Í því samhengi er ekki mikið vit í því fyrir okkur Íslendinga að vera með stórkosteg áform um aukinn útflutning á hvers kyns vörum, hvort sem það er málmum, matvæli, eða "grænu eldsneyti".
Orkuframleiðsla framtíðarinnar ætti því að beinast fyrst og fremst að innanlandsmarkaðnum og þá sérstaklega að því að ná fullum orkuskiptum í samgöngum og tryggja þannig orkuöryggi, því það verður annaðhvort barist um olíuna, eða notkun hennar verður bönnuð af loftslagsástæðum.
3- Þótt framleiðslugeta heimsins verði minni á heildina litið þýðir það ekki að allar framleiðslugreinar muni dragast saman. Eins manns dauði er annars manns brauð. Í sumum greinum verður þvert á móti aukin eftirspurn og þar liggja tækifærin okkar: allar lausnir sem snúa að betri orkunýtni, orkusparnaði og óhefðbundna orkugjafa hafa framtíðina fyrir sér, og þar erum við ekki bara að tala um tæknilegar lausnir, heldur líka samfélagslegar lausnir: þau samfélög sem verða fyrst til að losa sig við jarðefnaeldsneyti með nýju skipulagi munu hafa mikilvægt forskot og geta skapað bráðnauðsynlegt fordæmi. Öll innlend framleiðsla sem getur orðið til þess að minnka þörf á innflutningi hefur líka framtíðina fyrir sér: matvælaframleiðsla leikur þar mikilvægu hlutverki.
Sumar af þessum lausnum munu kalla á meiri orku og það er líklegast að við munum þurfa að virkja meira til að framkvæma full orkuskipti, en að gera ráð fyrir stóraukinn útflutning og hagvöxt er ekki raunhæf forsenda.
Berum nú saman þessar niðurstöður við skýrlu starfshópsins sem áður var getið um. Þar eru um að ræða 6 sviðsmyndir eins og áður kom fram, og 5 þeirra gera ráð fyrir áframhaldandi hagvöxt! Sú eina sem ekki gerir ráð fyrir hagvöxt var greinilega ekki í uppáhaldi hjá skýrsluhöfundum því þeir hafa ekki nennt að reikna út hvaða orkuþörf hún hefur í för með sér (sjá neðst: "ekki gert ráð fyrir neinum hagvexti í neðstu sviðsmynd" og orkuþörf: "ekki tilgreint").
Ein glæran í kynningunni gerir hins vegar ráð fyrir stóraukinn útflutning á næstu áratugum (nánast tvöföldun á næstu 18 árum):
Samkvæmt frétt Rúv virðist sem skýrsluhöfundar telji fimmtu sviðsmyndina raunhæfust, en hún gerir ráð fyrir bæði hagvöxt og aukinn útflutning, ásamt því að flugiðnaðurinn verði orðinn vetnisknúinn árið 2040 (26.000 þotur miðað við flotann í dag) sem er afar bjartsýn spá svo ekki sé meira sagt. Niðurstaða skýrsluhöfunda samkvæmt fréttinni er að auka þurfi raforkuframleiðslu um 125% á næstu 18 árum. Hvað þýðir það?
Framleiðslan árið 2020 var 19.000 Gwh (Gígawöttstundir). Hún þyrfti þá að vera orðin 42.750 Gwh árið 2040 (aukning um 23.750 Gwh). Kárahnjúkavirkjun getur framleitt 4600 Gwh á ári. Það þýðir að við þyrftum að byggja 5 Kárahnjúkavirkjanir á næstu 18 árum. Kannski er það hægt ef við byrjum öll á vinnuvélanámskeiði strax á morgun, en ég myndi ekki veðja upp á það.
Það er alltaf vandasamt verk að spá fyrir um framtíðina. Það hlýtur þó að vera hægt að vanda sig aðeins betur en þetta...
Comments