Nú þegar margir eru að huga að jólagjafainnkaupum er ekki úr vegi að velta fyrir sér kolefnisspor mismunandi jólagjafa. Kolefnissporið er nefnilega mjög mismunandi eftir því hvaða gjöf verður fyrir valinu en það vill svo til að ein vinsælasta jólagjöfin ‒ bókin ‒ er um leið ein sú gjöf sem kemst næst því að vera kolefnislaus (engin vara á markaði er „kolefnishlutlaus“ ólíkt því sem er stundum fullyrt).
Framleiðsla á einni bók „kostar“ um það bil 1 kg af CO₂e, sem er frekar lítið í samanburði við heildar kolefnisspor meðal-Íslendings sem er upp á 15-20 tonn af CO₂e á ári. Fáar aðrar jólagjafir eru með eins lágt kolefnisspor en raftæki eru meðal þeirra kolefnisfrekustu:
Franska ráðgjafarfyrirtækið Greenly hefur reyndar rannsakað heildar kolefnisspor jólahátíðarinnar hjá meðal-fjölskyldunni í Frakklandi (400 kg CO₂e) en samkvæmt henni skiptist það í eftirfarandi þætti:
59% tengist framleiðslu jólagjafa (ca. 250 kg)
23% tengist máltíðinni á aðfangadagskvöld (ca. 100 kg)
12% stafar af samgöngum (ca. 50 kg)
6% tengist jólaskrauti og jólatré
Hvort tölurnar séu eitthvað mikið öðruvísi á Íslandi verður ósagt látið þar sem slík úttekt hefur ekki farið fram hér á landi.
Það skiptir hins vegar líka máli hvernig gjöfin er sótt (eða sent, ef um heimsendingu er að ræða). 1 kg af CO₂ samsvarar aðeins 5 km keyrslu á bensínbíl! Það „borgar sig“ þannig varla ‒ kolefnislega séð ‒ að keyra fleiri tugi kílómetra eftir einstaka bók því þá er aksturinn orðinn meiri losunarvaldur heldur en gjöfin sjálf. Í sumum tilfellum getur verið betra að velja heimsendingu en það á þó ekki alltaf við.
Miðað við umræðuna um niðurstöður síðustu Pisa-könnunar virðist sem jólasveinar sem gefa bók í jólagjöf munu þannig slá tvær flugur í einu höggi!
Umhverfisstofnun Frakka heldur úti öfluga upplýsingamiðlun um kolefnisspor ýmissa vöru og þjónustu fyrir franskan almenning. Stofnunin gekk reyndar ennþá lengra þessi jól og tók upp á því að framleiða röð fjögurra stuttra sjónvarpsauglýsinga til að hvetja neytendur til hófs í aðdraganda jólahátíðar.
Í myndböndunum sjást viðskiptavinir í innkaupaham spyrja sölumanninn um ráðgjöf varðandi ákveðna vöru. Þeim til mikillar undrunar ráðleggur sölumaðurinn að sleppa því að kaupa vöruna og fá hana frekar lánaða, leigða, kaupa hana notaða eða fara með eldra eintak í viðgerð. Í ljós kemur að afgreiðslumaðurinn er í raun „dévendeur“ eða „afsölumaður“ í beinni þýðingu, sem er auðvitað nýyrði þar í landi sem og hér á Íslandi. Að lokum er áhorfandanum bent á að þar sem „afsölumenn“ eru ekki til í raunveruleikanum sé nauðsynlegt að við spyrjum okkur réttu spurningar áður en við drögum veskið út.
Auglýsingaherferðin vakti töluverða athygli en kaupmönnum var ekki skemmt. „Við krefjumst þess að Umhverfisstofnun dragi auglýsingarnar tafarlaust til baka. Að öðrum kosti munum við skoða möguleikann á að kæra stofnunina fyrir atvinnuróg,“ sagði í harðorðri tilkynningu frá samtökum verslunarmanna þar í landi. Forsætisráðherrann og meira að segja umhverfisráðherrann sjálfur tóku að sumu leyti undir gagnrýnina og kölluðu herferðina „klaufalega“. Umhverfisráðherrann hefur hins vegar ekki viljað fara svo langt að beita ritskoðun og því munu auglýsingarnar fá að lifa áfram.
Frá þessari skemmtilegu uppákomu segir meðal annars Le Monde í grein um málið (fyrir þá sem lesa frönsku) en annars má lesa um hana á ensku hér:
Commentaires