top of page

Don Kíkóti og baráttan við verðbólguna

  • Writer: Jean-Rémi Chareyre
    Jean-Rémi Chareyre
  • Sep 3
  • 3 min read

Baráttan gegn verðbólgu sem hófst eftir Covid-faraldrinum er farin að minna svolítið á baráttu Don Kíkóta við vindmyllurnar. Núverandi ríkisstjórn sigraði kosningar meðal annars undir því loforði að koma böndum á verðbólgunni. En getur verið að hún hafi með þessu verið að skapa óraunhæfar væntingar? Stjórnmálamenn og hagfræðingar tala gjarnan eins og verðbólga sé eingöngu afleiðing af peninga- og efnahagsstefnu hverju sinni og þar af leiðandi óháð stefnu okkar í öðrum málum. En er það virkilega svo?


Nýlega birti hópur vísindamanna rannsóknargrein í tímaritinu Environmental Research Letters þar sem áhrif veðuröfga á matvælaverð (og þar af leiðandi á verðbólgu) voru reifuð.

Meðal þeirra tilfella sem eru nefnd í greininni eru fordæmalaus hitabylgja í Austur-Asíu í fyrra sem leiddi til þess að verð á japönskum hrísgrjónum hækkaði um 48% miðað við árið á undan, og almennt verð á grænmeti í Kína hækkaði um 30% milli júní og ágúst. Þrálátur þurrkur í Kaliforníu og Arizona árið 2022 leiddi til 80% hækkunar á markaðsverði grænmetis í Bandaríkjunum í nóvember það ár, og sí-endurteknir þurrkar í Suður-Evrópu árin 2022-23 tóku sinn toll á ólívuræktun Spánverja með þeim afleiðingum að ólívuolía hækkaði í verði um 50% á einu ári. Hitabylgja og þurrkur í Ghana og Fílabeinsströnd í byrjun árs 2024 leiddu síðan til 300% hækkunar á heimsmarkaðsverði á kakó.


Höfundarnir benda síðan á að slíkar verðhækkanir hafa ekki eingöngu áhrif á budduna, heldur líka á heilsu og rekstur heilbrigðiskerfisins: þegar verð hækkar eiga neytendur til að snúa sér að ódýrari, næringasnauðari og óhollari vörum, sem leiðir til aukinnar tíðnis lífsstílstengdra sjúkdóma, en slíkir sjúkdómar eru stærsti orsakavaldur dauðsfalla í heiminum (hjartasjúkdómar og sykursýki ásamt ýmsum krabbameinum). Ýmislegt bendir til þess að óheilbrigt mataræði hafi líka neikvæð áhrif á andlega heilsu og þar af leiðandi kallar hækkandi matvælaverð á aukin ríkisútgjöld til að bregðast við álag á heilbrigðiskerfið. En þar sem stjórnvöld sem glíma við verðbólgu vilja gjarnan draga úr útgjöldum ríkisins, þar sem þau eru talin kynda undir verðbólgu, skapast ákveðinn “pólitískur ómöguleiki”...


Til að bæta gráu ofan á svörtu nefna höfundarnir síðan að sögulega séð hafi verðhækkanir á matvæli gjarnan leitt til pólitískrar upplausnar, uppreisnar og jafnvel borgarastríðs. Fræg dæmi um slíkt eru meðal annars franska byltingin sem hófst árið 1789 eftir miklar verðhækkanir á brauði, Arabíska vorið árið 2011 og borgarastríðið í Sýrlandi sem hófst í kjölfar mikils uppskerubrests þar í landi. Snjallir stjórnmálafræðingar hafa síðan fundið sterkar vísbendingar um að verðbólga hafi haft bein áhrif á kosningasigur Trumps í síðustu forsetakosningum í BNA. Verðbólga virðist vera besti vinur lýðskrumara og múgæsingamanna…


Önnur nýleg og merkileg rannsókn sem birtist nýlega var unnin af Autonomy Institute í Bretlandi en hún gerir ráð fyrir því að hitabylgjur og þurrkar muni leiða til 30% hækkunar á matvælaverði í Bretlandi fram til 2050, og allt að 50% hækkunar á suðlægari slóðum. Þá eru áhrifin frá öðrum veðuröfgum ótalin (flóðir og fellibyljir) og sömuleiðis óbein áhrif sem pólitísk upplausn getur haft á framleiðslukeðjur og viðskipti almennt (tollar Trumps og Brexit eru nýleg dæmi um slíkt).



Þessar rannsóknir segja okkur þrennt um þróun verðbólgu á Íslandi á næstu árum og áratugum:

1- Að stjórnmálamenn ættu að sleppa því að lofa einhverju sem er alls óvíst að þau geti staðið við, og skapa þannig óraunhæfar væntingar og svekkelsi sem lýðskrumarar munu snúa sér í hag.

2- Að einn stór liður í því að draga úr líkum á verðbólgu er að efla matvælaöryggi. Það er gert meðal annars með því að byggja upp öflugt og fjölbreytt landbúnaðarkerfi sem reiðir sig sem minnst á innfluttum aðföngum.

3- Að það er ekki hægt að aðskilja efnahagsmál frá umhverfismálum þar sem heilbrigt umhverfi og þar á meðal stöðugt loftslag er forsenda þess að búa við efnahagslegan stöðugleika. Loftslagsmál eru sem sagt efnahagsmál, og það að ætla sér að reyna að leysa eitt málið en sópa hitt undir teppið um leið, er álíka líklegt til árangurs eins og að stíga bensínið í botn með annan fótinn, en snarbremsa með hinn fótinn á sama tíma…

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page