top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Eldvirkni og hækkun sjávar: Grindavík siglir milli skers og báru

Í október hófst tímabil mikillar jarðskjálftavirkni á Reykjanesi. Í byrjun nóvember stóð jarðskjálftavirknin sem hæst og eldfjallafræðingar töldu miklar líkur á gosi í nágrenni Grindavíkur eða jafnvel í byggðinni sjálfri. Þegar þessi grein er skrifuð bólar ekkert enn á gosinu en tjón af völdum jarðskjálfta er þegar orðið töluvert. Vegir og vatnslagnir hafa víða farið í sundur og sprungur eru í veggjum og gólfplötum margra bygginga. Þá hafa allir íbúar Grindavíkur, rétt rúmlega 4000 manns, þurft að yfirgefa heimili sín.


Öflugir jarðskjálftar í Grindavík. Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn

Flóð árið 2022: sjór flæðir yfir hafnarbakkann


Flóð á hafnarsvæði Grindavíkur í janúar 2022. Mynd: Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Fjölmiðlar hafa gert þessum atburðum góð skil en það hefur ef til vill gleymst að eldvirkni er ekki eina hættan sem byggðin í Grindavík stendur frammi fyrir þegar til lengri tíma er litið. Í janúar 2022 varð sjávarflóð í Grindavík eftir að óveður skall á og olli töluverðu tjóni. Höfnin fylltist af sjó sem tók að flæða yfir hafnarbakkann og fljótlega var stór hluti hafnarsvæðisins kominn á flot. Rafmagnskassi fór á kaf og við það sló rafmagninu út á hafnarsvæðinu og í björgunarsveitarhúsinu sem var fært yfir á varaafl. Hús fylltust af sjó og 40 feta gámur flaut af stað. Þónokkuð tjón varð á frystihúsinu, starfsfólk þurfti að leita skjóls á efri hæð því vatnshæðin náði hátt í einn metra. Björgunarsveitarfólk og slökkvilið var fram eftir degi að dæla sjó úr byggingunum og aðstoða starfsfólk við verðmætabjörgun á afurðum og hráefni.



Landsig og hækkun sjávarborðs bætast ofan á hvert annað


Atburðir eins og þessi eiga því miður líklega eftir að endurtakast í framtíðinni vegna hækkunar sjávarborðs á heimsvísu, sem er afleiðing loftslagsbreytinga, en Grindavík er sérstaklega berskjölduð fyrir þessu þar sem landið í og í kringum bæinn hefur verið að síga, ólíkt því sem gerist á mörgum öðrum stöðum á landinu þar sem mælist landris

Í fjórðu samantektarskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar kemur fram að ef landsig í Grindavík heldur áfram með sama hraða og hefur verið undanfarin ár þá gæti það orðið allt að 105 sentimetrar fram til ársins 2150.

Hraði á lóðréttum tilfærslum (landris/landsig í mm/ári) á mælistöðvum Landmælinga Íslands á tímabilinu 2004 til 2022. Heimild: 4. samantektarskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar

Um leið gæti hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga náð allt að 4,5 metrum samkvæmt verstu sviðsmynd (bjartasta sviðsmyndin gerir hins vegar ráð fyrir „aðeins‟ 50 sentimetra hækkun). Þar sem landsig bætist við hækkun sjávarborðs gæti afstæð hækkun sjávar við Grindavík orðið allt að 5,5 metrar. Afleiðingarnar yrðu meiriháttar þar sem elsti hluti bæjarins stendur aðeins 3 til 5 metrum yfir sjávarmáli.


Hæð yfir sjávarmáli á nokkrum af helstu götum Grindavíkur. Heimild: freemaptools.com


Hrun á vesturhveli Suðurskautslandsins gæti hraðað hækkun sjávar

Nákvæmlega hversu mikil hækkunin verður er hins vegar háð mikilli óvissu. Umfangið ræðst annars vegar af því hvernig tekst til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar af því hvaða áhrif hlýnunin hefur á vesturhvel Suðurskautslandsins. Vísindamenn hafa haft töluverðar áhyggjur af óstöðugleika vesturhvelsins en sumir þeirra telja að hnattræn hlýnun gæti leitt til hruns vesturhvelsins sem myndi eitt og sér leiða til hækkunar sjávar um 3,3 metra til viðbótar við þá hækkun sem hlýst af bráðnun jökla og ísbreiða ásamt varmaþenslu. Mikil óvissa ríkir hins vegar um hvort og hvenær slík sviðsmynd gæti raungerst og IPCC hefur talið að þekking á þessu ferli sé ekki næg til að leggja mat á líkur þess að slíkt gerist.

Það er hins vegar ljóst að framtíð byggðar í Grindavík er háð mikilli óvissu: bærinn siglir milli skers og báru.


Breyting á meðalhita Suðurskautslandsins (°C á áratug) frá árinu 1957 til 2006. Vinstra megin á myndinni er vesturhvel Suðurskautlandsins sem vísindamenn hafa sérstaklega áhyggjur af. Heimild: Veðurstofa Íslands.


Talsvert landris á Suðausturlandi en lítið sem ekkert á höfuðborgarsvæðinu


Þá munu byggðir við suðausturströnd landsins aftur á móti njóta góðs af landrisinu sem verður þar og gæti að einhverju leyti vegið upp á móti hækkun sjávarborðs. Við Höfn í Hornafirði gæti landris numið allt að tveimur metrum fram til ársins 2150 ef núverandi landris helst óbreytt, sem er töluverð hækkun, en mun ekki duga til að vega upp á móti hækkun sjávar ef versta sviðsmyndin raungerist. Landris er svæðisbundin afleiðing hnattrænnar hlýnunar sem á sér stað í nágrenni stórra jökla. Hún orsakast af massatapi þeirra en land sem er næst jöklunum hækkar mest.


Höfuðborgin nýtur ekki slíks „skjóls‟ af jöklunum nema að litlu leyti og því verður landris þar lítið sem ekkert. Vísindanefndin telur þannig að landris við Reykjavík gæti orðið um 6 sentimetrar fram til ársins 2150 á meðan hækkun sjávar gæti orðið allt frá 40 sentímetrum upp í 4,5 metra á sama tímabili. Miðborg Reykjavíkur stendur hins vegar aðeins 1 til 6 metrum yfir sjávarmáli (Hafnarstræti 2,5 m, Austurstræti 3 m, Alþingi 5 m yfir sjávarmáli). Framtíð miðborgar Reykjavíkur er þannig ekki mikið bjartari en framtíð Grindavíkur þótt hún sleppi hugsanlega við jarðskjálfta og eldvirkni.


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page