top of page
  • Stefán Birnir Sverrisson

Er til nóg af rafmagni á alla þessa rafbíla?


Ísland stefnir nú hraðbyr á rafvæðingu fólksbílaflotans, en árið 2021 voru nánast helmingur nýskráðra bíla annað hvort rafmagns- eða tengiltvinnbílar. Stefna stjórnvalda er að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla árið 2030.

En margir spyrja sig: er til nóg af raforku á alla þessa rafbíla eða munum við þurfa að virkja meira?


Samkvæmt skýrslu rafbílasambands íslands frá 2019 þá þarf 1,5 TWh af raforku til að knýja rafbílaflota Íslendinga árið 2040, meðtalið fólksbíla, sendibíla og flutningabíla, allar samgöngur á landi. Þá er ekki meðtalið flugsamgöngur og skip, þar sem ekki dugir til að nota rafhlöður með núverandi orkuþéttleika, heldur að nota vetni eða lífeldsneyti sem orkugeymslu í staðinn og framleiða það með hreinni orku. Það gæti því í heildina þurft um 2,0 TWh af raforku fyrir orkuskiptin, eitthvað af vetni má framleiða með umframorku gufuaflsvirkjana, sem fer í dag til spillis á nóttunni að stórum hluta. Í dag er raforkuframleiðsla íslands um 20 TWh (19 TWh árið 2016), þannig að það þarf um 10% af núverandi raforkuframleiðslu til að knýja orkuskiptin á íslandi.


Álverið í straumsvík notar um 7 TWh á ári fyrir sína þrjá kerskála sem framleiða ál með rafgreiningu. Ef einum kerskála væri lokað í Straumsvík þá væri hægt að nota raforkuna fyrir orkuskipti íslands til sjós, lands og lofts. Kannski ekki sérlega raunhæft en samt sem áður áhugaverður samanburður.


Ísland verður að fá raforkuna til að knýja íslenska rafbílaflotann einhvers staðar frá og ef engum álverum eða kísilverum verður lokað í náinni framtíð, þá þarf að framleiða meiri raforku. Líklegast er hagkvæmasta raforkuframleiðslan í dag vindorka, þar sem búið er að sækja um að reisa vindmyllur á Íslandi sem hafa heildarafl upp á 3,6 GW af íslenskum og erlendum orkufyrirtækjum, sem er svipað afl og í um 5 Kárahnjúkavirkjunum. Ef allar þær vindmyllur væru settar upp þá myndu þær framleiða allt að 12,5 TWh miðað við 40% nýtni (40% nýtni er reynsla Landsvirkunnar af vindmyllum sem þeir settu upp í Búrfelli árið 2009).


Eins og staðan er í dag er hins vegar næg raforka til að knýja allan fólksbílaflota landsins. Hins vegar munu hleðsluvenjur smátt og smátt þrufa að breytast eftir því sem rafbílum fjölgar.

Rafbílavæðingin hefur verið drifin áfram að mestu leyti af þeim sem hafa haft meira á milli handanna, sem geta keypt sér nýjan bíl, og þeim sem búa í einbílishúsum eða raðhúsum, hafa sem sagt góða hleðslumöguleika. Það hefur ekki verið neinn hvati fyrir þá að velta fyrir sér hvenær þeir hlaða, þar sem það hefur verið nóg rýmd á heimtauginni heima hjá þeim.


Þegar kemur að fjölbýlishúsum, þar sem meirihluti af fólki býr, þá eru settar upp snjallhleðslustöðvar þar sem hleðslunni er skammtað til notenda rafbíla og dreifir hleðslunni til rafbíla yfir nóttina. Þessar snjall-hleðslulausnir hafa verið í þróun og hafa ekki verið á markaðnum nema í nokkur ár. Ef stinga ætti öllum rafbílum í samband á svipuðum tíma í fjölbýlishúsi á Íslandi þá myndu heimtaugar í flestum fjölbýlishúsum slá út. Veitur eru almennt ekki að heimila stækkun heimtauga vegna rafbílahleðslu í fjölbýlishúsum heldur er gerð krafa um innleiðingu á snjall-hleðslustöðvum til að dreifa álaginu vegna rafbílahleðslu yfir nóttina. Almenn krafa í fjölbýlishúsum er að allir rafbílar séu fullhlaðnir að morgni í stað þess að rafbílar hlaði á hámarkshraða um leið og þeim er stungið í samband. Ef þetta væri ekki gert í fjölbýlishúsum þá þyrfti í fyrsta lagi að stækka allar heimtaugar, sem er mjög dýrt, og í öðru lagi þyrfti að stækka spennistöðvar í flestum hverfum í þéttbýli, sem yrði mjög dýrt.


Málið er í hnotskurn að það er mjög mikil rýmd til í rafkerfinu, og rafdreifikerfi í þéttbýli er að langmestum hluta ónotað, tilvalið að hlaða rafbíla á nóttunni. Það er mjög dýrt að breyta og stækka rafdreifikerfið fyrir rafbílana en mikið ódýrara að setja upp hvata fyrir rafbílaeigendur að hlaða frekar á nóttunni en á daginn, með því t.d. að hafa raforku ódýrara á nóttunni. Það eru meðul sem hægt er að grípa til hvenær sem er þegar eða ef álag vegna rafbílahleðslu verður vandamál fyrir rafdreifikerfið.


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page