top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Eru ódýr matvæli liðin tíð?

Síðustu vikurnar höfum við fengið ýmsar fréttir um verðbólgu, meðal annars vegna innfluttrar matvöru sem hefur hækkað um 5 til 12% hjá sumum birgjum samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins.

Það er gott tækifæri til að minnast á að þrátt fyrir slíkar fréttir hafa matvæli, sögulega séð, aldrei kostað jafn lítið og nú.

Fyrir 200 árum síðan voru um það bil 80% evrópubúa bændur. Þá var fæði líka stærsti útgjaldaliður heimilanna.


Matvara sem hlutfall af heildarútgjöldum heimilanna í Bandaríkjunum frá 1929. Mynd: Jancovici.

Bandaríkin voru fyrsta þjóðin til að vélvæða og örva landbúnaðarkerfið með kemískum áburði og eitri, en þrátt fyrir það samsvöruðu matarinnkaup ennþá 25% af útgjöldum heimilanna þar í landi árið 1930. Þar að auki snérust matarinnkaup á þessum tíma fyrst og fremst um óunnar vörur (kartöflur, egg, laukur) eða lítið unnar vörur (hveiti, brauð) sem voru matreiddar heima fyrir.

Í dag eru matarinnkaup komin niður í 10% af heildarútgjöldum okkar, en aðeins lítill hluti af þessum 10% er í raun matvæli: með þessum 10% erum við fyrst og fremst að borga laun kassastarfsmanna og annara starfsmanna, vörubílaflutning, matvælavinnslu í verksmiðjum, umbúðir, auglýsingar, byggingaframkvæmdir (byggingar utan um verslanir) og fjármagnstekjur (leiga og arður fyrirtækja).


Framleiðslukostnaður þeirrar matvöru sem við kaupum er ekki nema um 20% af verðinu sem við borgum á kassanum, en þegar við förum út að borða er þetta hlutfall enn minna. Þegar allt kemur til alls kostar maturinn sjálfur aðeins um 2% af heidartekjum okkar.

En hvað er það sem hefur orsakað þessa gríðarlegu lækkun á matvöruverði? Það er einfaldlega orkan, það er að segja vélrænu þrælarnir sem vinna fyrir okkur og hafa þrýst niður framleiðslukostnaðinn.


Framleiðsla mjólkurafurða. Mynd: World Without End, Jancovici & Blain.

Á næstu áratugum munu tveir þættir því miður koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram, og munu jafnvel snúa henni við:


- Hlýnunin af völdum loftslagsbreytinga mun skemma fyrir landbúnaðarframleiðslu (og jafnvel þó hún hafi ekki bein áhrif á landbúnað hér á landi hefur hún óbein áhrif þar sem stór hluti af skepnufóðri og áburði er innfluttur ásamt stórum hluta af þeim matvælum sem við neytum).


- Framboð af orku mun dragast saman (Pútín hefur aðeins flýtt fyrir þessari þróun), og með því mun hæfni orkuþrælanna okkar til að framleiða ódýra matvöru í miklu magni fara versnandi: það á ekki aðeins við um traktorar og aðrar landbúnaðarvélar, en líka um kemískan áburð (sem hefur nú þegar hækkað mikið í verði), vörubílar og skip sem eru allsráðandi tæki í framleiðslukeðjunni eins og hún virkar í dag.


Óhjákvæmileg afleiðing af þessu er að framleiðni landbúnaðarins (í raun framleiðni vélanna) mun dragast saman, bæði hvað varðar framleiðslu en líka hvað varðar flutning og vinnslu. Efnahagslega séð ætti þetta að þýða að hlutfallið af tekjum sem heimilin verja til matarinnkaupa mun aukast aftur: við munum þurfa að vinna lengur til að borga eitt kíló af kartöflum. Við þetta bætist að við munum þurfa fleiri hendur í landbúnaðarkerfið, þar sem þróunin í átt að fleiri vélum og færri bændum mun snúast við.


Sem borgarar erum við alltaf að biðja landbúnaðinn um að framleiða „hreinar‟ vörur. En nýjar aðferðir kalla á aukinn kostnað. Við þurfum að sætta okkur við að matvælaframleiðsla þarf, og mun óhjákvæmilega, kosta meira. Við þurfum hins vegar líka að koma okkur saman um hvernig sé best að dreifa byrðinni af þessum aukakostnaði.



Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page