top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Frakkar vilja lækka hámarkshraða á hraðbrautum landsins

Það er ekki alltaf upplífgandi að fylgjast með fréttum tengdum loftslagsbreytingum. Af og til koma þó góðar fréttir eins og þessi:


Samkvæmt könnun á vegum franska dagblaðsins Le Parisien eru 68% Frakka hlynntir því að hámarkshraði á hraðbrautum landsins sé lækkaður úr 130 niður í 110 km á klukkustund. Þetta sætir jú tíðindum því þótt hugmyndin sé ekki ný þá er stuðningur við hana ekki sjálfsagður: fyrir tveimur árum síðan var haldið borgaraþing þar í landi sem hafði það hlutverk að vinna að og leggja fram aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ein af tillögunum úr þessari áætlun var einmitt að lækka hámarkshraðann úr 130 niður í 110. Tillagan vakti hins vegar mikla andstöðu og tortryggni meðal almennings og Macron forseti ákvað að stinga hana ofan í skúffu.


Könnun Le Parisien sýnir hins vegar að algjör viðsnúningur hefur orðið í almenningsálitinu.

Einkabíllinn er bæði stöðutákn og tákn einstaklingsfrelsis í nútíma vestrænum samfélögum. Þess vegna hafa aðgerðir sem snúa að því að takmarka notkun hans gjarnan vakið mikla gremju. Frökkum er ferskt í minni sú mikla mótmælaalda sem

fór af stað þegar Macron greip til þess ráðs að hækka kolefnisskatt með tilheyrandi verðhækkun á eldsneytisverði: gulvestungar höfðu á endanum betur og Macron dró hækkunina til baka.





Fyrir nokkru birtu nokkrar þjóðþekktar persónur í Frakklandi blaðagreinar þar sem þær skoruðu á samlanda sína að halda sig við 110 km hraða á hraðbrautum landsins, en sú aðgerð leiðir til 20% lægri eldsneytisnotkunar (og þar með 20% minni losun koltvísýrings). Vefsíðan les110.org var sett á loft en þar geta ökumenn nálgast límmiða til að líma aftur á bílinn sinn og tilkynna þannig að þeir séu að taka þátt í átakinu. Hver hefði haldið að obreyttir borgarar gætu sjálfviljugir undirgangast eitthvað sem hér á landi mundi líklega kallast „aðför að einkabílnum‟?


En hvað hefur breyst? Í fyrsta lagi eru Frakkar byrjaðir að finna fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga á eigin skinni: í sumar hafa óteljandi hitamet verið slegin víða um landið, og sumarið hefur verið hræðilega þurrt á mörgum svæðum.


Samkvæmt dagblaðinu Le Monde hafa 66.000 hektarar skóga brunnið upp til agna í skógareldum eða um sjö sinnum meira en í meðalárferði. Í júní var nýtt hitamet slegið fyrir landið allt: hitinn mældist 46°c í suður-Frakklandi eða heilar tvær gráður meira en síðasta metið. Jafnvel loftslagsfræðingar bjuggust ekki við svo háum tölum svo snemma á öldinni.


Við þetta bættist stríðsrekstur Pútíns í Úkraínu sem hefur minnt Evrópubúa á það hversu óþægilegt getur reynst að vera háður tuddanum á skólalóðinni um orku.


En það er önnur ástæða sem gæti skýrt stuðning við aðgerðir á borð við lækkun hámarkshraða: hingað til hafa hagfræðingar og stjórnmálamenn fyrst og fremst viljað nota skatta sem stýritæki í viðleitni sinni til að draga úr losun, en kolefnisskattur stríðir gjarnan gegn réttlætiskennd almennings vegna þess að hann leggst þyngst á þeim sem eiga minnst efni á honum: jafnvel hófleg hækkun kolefnisskatts getur valdið þeim miklum erfiðleikum sem eiga engan annan valkost en að keyra langar leiðir í vinnuna og eru á lágum launum, á meðan hún reynist léttvæg fyrir efnaða borgara sem sumir hverjir ferðast jafnvel á einkaþotu án þess að blikka.

En lækkun hámarkshraða er allt annars eðlis: hún er ekki skattlagning heldur almenn regla sem leggst jafn þungt á alla, fátæka sem ríka. Enginn fær að troða sig fram fyrir röðina gegn því að taka upp veskið, og í því felst meira félagslegt réttlæti. Boð og bönn hafa öðlast slæmt orðspor hjá þeim sem segjast aðhyllast frjálslyndi, en þau geta í raun verið bæði réttlátari og áhrifaríkari aðgerð en skattbreytingar.

Þetta minnir okkur á að eigi aðgerðir gegn loftslagsbreytingum að virka þurfa þær að njóta stuðnings hjá meirihluta borgarana, en félagslegt réttlæti er lykillinn að þessum stuðningi. Ef að þessu er gætt geta almennir borgarar verið viljugir til að fórna hluta af því frelsi og þeim þægindum sem þeir búa við, ef ljóst er að sú fórn færir þeim á móti von um öruggari og bjartari framtíð.


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page