Koltvísyringur hefur þann leiðinlega sið að vera fyrir. Um leið og hann er kominn í andrúmsloftið kemur hann sér fyrir eins og hann ætti heima þar og eina útgönguleiðin fyrir hann er að komast aftur niður til jarðar þar sem kolefnissvelgir geta tekið við hann, en kolefnissvelgirnir eru aðeins tveir: hafið annars vegar og ljóstillifun hins vegar.
Lausnin við loftslagsvandann er þannig ómerkilegt baðkarsvandamál: til þess að styrkur Co2 í andrúmsloftinu hætti að aukast má losunin ekki vera meiri en það sem kolefnissvelgirnir ráða við að gleypa í sig. Þetta jafnvægisástand kallast "kolefnishlutleysi". Á skala jarðarinnar er einfalt að skilgreina fyrirbærið, og IPCC (Milliríkjanefndin) er með skýra skilgreiningu á því.
Og þar sem markmiðið er einfalt segja fyrirtækin: "Gerum eins!"
Og fyrr en maður veit af eru "kolefnishlutlaus" fyrirtæki farin að spetta upp eins og gorkúlur. Kolefnishlutlaus raforka, stoðtæki, gosdrykkir, flugferðir, flugvöllur, bankaþjónusta, steinsteypa, lambakjöt, og já, það besta af öllu: kolefnishlutlaust bensín! Einkageirinn er reyndar ekki einn í þessu gullæði því stofnanir á borð við Reykjavíkurborg eru líka að lofa kolefnishlutleysi í náinni framtíð, og áhugamenn um íþróttir munu geta fylgst með (eða tekið þátt í) kolefnishlutlausa ólympíuleika!
Má ég ekki vera kolefnishlutlaus í friði?
Vandinn er að fyrirtæki er ekki pláneta. Hvað á að færa í bókhaldið til að fyrirtæki geti talist "kolefnishlutlaust"? Venjan hefur verið þessi: í dálknum "plús" telur fyrirtækið sú losun sem hefur átt sér stað á því svæði sem það telur skipta máli og telur sig vera "ábyrgt" fyrir (olíufélag mun til dæmis ekki telja fram losun frá bensíninu sem það selur því það lítur svo á að losunin sé á ábyrgð þeirra sem brenna olíuna). Í dálknum "mínus" telur fyrirtækið þær kolefniseiningar sem það hefur keypt fyrir slikk af þriðja aðila, og gera fyrirtækið að "löglegum eiganda" kolefnisbindingar sem á sér stað einhvers staðar annars staðar, einhvern tímann seinna, kannski, allt þetta án þess að fyrirtækið hafi breytt neinu sem máli skiptir í sínu daglega rekstri, framleiðsluferlum eða virðiskeðju. Svo er bara að "jafna" þetta út og: "hipp og hæ! Við erum orðin kolefnishlutlaus!"
Nema hvað... Enginn er eyland. Fyrirtæki sem lýsir sig "hlutlaust" er þar með ekki búið að einangra sig úr vistkerfinu sem það hrærist í. Öll fyrirtæki eru háð virðiskeðju: birgir, flutningsaðilar, viðskiptavinir: ef allir aðrir hlekkir í keðjunni eru háðir jarðefnaeldsneyti þá er fyrirtækið áfram háð jarðefnaeldsneyti. Spurningin er þannig ekki hvort fyrirtækið "eigi" losunina á pappírnum, heldur hversu háð fyrirtækið er þessari losun. Ef bílaeigandinn hættir að brenna bensín, þá hættir hann líka að kaupa bensín: bensínstöðin er þannig háð losun hans þó hún "eigi" hana ekki samkvæmt bókhaldinu. Hættir fyrirtækið að vera háð jarðefnaeldsneyti við það að gerast "kolefnishlutlaust"? Nei, það er aðeins búið að deyfa samstarfsaðila sína með því að lýsa sig "bólusett" á meðan faraldurinn geysir enn á fullu. Það að styrkja kolefnisbindingu með skógrækt er nauðsynlegt og lofsvert, en á að vera viðbót við, og ekki staðgengill þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðjunni allri.
Má bjóða þér líter af kolefnishlutlausu bensíni?
Í raun hefur hugtakið "kolefnishlutleysi" aðeins ótvíræða merkingu á skala jarðarinnar í heild sinni. Það er engin viðurkennd skilgreining á kolefnishlutleysi á skala fyrirtækis, og enn síður á skala vörunnar. Því minni er einingin sem er skoðuð, því minni merking hefur hugtakið. Í besta falli er hægt að tala um kolefnishlutleysi á skala þjóðríkisins (jafnvel það er þó vafasamt því það er tiltölulega auðvelt fyrir ríki að útvista losun til annara landa án þess að hætta að vera háð þessari losun), en þegar einingin er orðið fyrirtæki eða stofnun er hugtakið orðið nánast merkingarlaust eins og dæmin sanna.
Og þar sem skilgreiningin er ekki til komast fyrirtækin upp með að skilgreina hugtakið eftir eigin hentugleika. Þannig verður hugtakið ekki bara merkingarlaust, heldur beinlínis hættulegt, því sjálfsumgleðin við það að gerast "kolefnishlutlaus" drepur hvatann hjá viðkomandi fyrirtækjum til að fara í erfiðar og kostnaðarsamar, en nauðsynlegar breytingar. Í staðinn er látið duga að ná "kolefnishlutleysi". Það drepur líka hvatann hjá neytendum til að endurskoða neysluvenjur sínar (til hvers að breyta einhverju fyrst allt er orðið, eða verður, kolefnishlutlaust), og sömuleiðis hvatann hjá stjórnvöldum til að fara í metnaðarfullar laga- og reglugerðarbreytingar.
Og hvað, getum við þá ekkert gert?
Það ætti frekar að horfa á kolefnishlutleysi sem fótboltaleik: það getur enginn einn leikmaður unnið leikinn, annað hvort vinna allir eða allir tapa, og það er ekki nóg fyrir hvern og einn að hugsa bara um að standa sig sjálfur heldur verður hann að láta sig varða hvað hinir gera líka. Hjá fyrirtækjum væri miklu gagnlegra að tala um "framlag til kolefnishlutleysis", því þó fyrirtæki geti ekki orðið kolefnishlutlaus getur það hins vegar tekið þátt í það sameiginlega verkefni samfélagsins að verða kolefnishlutlaust. Þessi þátttaka getur tekið á sig ýmsar myndir:
1- Í fyrsta lagi getur fyrirtækið mælt kolefnissporið sitt og tekið skref í þá átt að minnka það stöðugt. Sú mæling ætti ekki að snúast eingöngu um hver "á" losunina eða hvar hún á sér stað, heldur hversu háð fyrirtækið er þessari losun. Með því að horfa á kolefnissporið með þessum gleraugum sést að samdráttur er í raun sameiginlegt verkefni sem öll virðiskeðja fyrirtækisins verður að koma að, en ekki eitthvað prívat-vandamál sem fyrirtækið getur leyst eitt síns liðs. Í kolefnisbókhaldi er talað um 3 umfang losunar (e. "scope 1-3") sem er annað hvort bein og óbein losun, en öll 3 umföng skipta öll jafn miklu máli í kolefnisbókhaldi fyrirtækisins:
Tökum dæmi: hótelrekstur á Íslandi getur litið út fyrir að vera næstum "kolefnishlutlaust": hótelið brennur ekki jarðefnaeldsneyti og það notar lágkolefna-raforku í hversdagslegan reksturinn sinn (bein losun og losun tengd orkunotkun, scope 1 og 2). Ef hótelið skilgreinir kolefnissporið sitt eingöngu sem umfang 1 eða umfang 1 og 2 þá er lítið mál að ná kolefnishlutleysi, og í reynd er það oft aðferðin sem er notuð því þannig lítur bókhaldið best út. En ef umfang 3 er tekið með breytist myndin heilmikið: ferðamennirnir sem gista á hótelinu koma gjarnan til landsins í flugvél og fara gjarnan á milli staða á bensínbílum, en sú losun sem varð til á ferðalagi ferðamannsins til hótelsins þarf líka að færa í bókhaldið og við það snarhækkar kolefnisspor þess. Þetta endurspeglar þeirri staðreynd að hótelið er háð ferðalögum ferðamannsins (og losuninni sem þeim fylgir). Samkvæmt viðurkenndum kolefnisbókhaldsaðferðum svo sem Greenhouse Gas Protocol (GHG) á umfang 3 alltaf að vera talið með, en það er því miður ekki alltaf raunin.
2- Þegar kolefnissporið hefur verið mælt getur fyrirtækið byrjað að setja sér markmið, en þau markmið þurfa að byggja á vísindum. Þar sem það er engin vísindaleg skilgeining á hugtakinu "kolefnishlutleysi" á skala fyrirtækisins, væri stefna byggð á slíku markmiði í raun byggð á sandi. Í staðinn verður fyrirtækið að setja sér markmið um samdrátt í losun sem samræmast Parísarsamkomulaginu. Til þess er hægt að notast við viðurkennda aðferð svo sem Science-Based Targets (SBT). Markmiðið verður að vera dagsett og skipt niður í áfanga.
3- Þegar mæling liggur fyrir og markmið hafa verið sett þarf að fylgja þeim eftir og birta niðurstöður með gagnsæjum hætti, og þar skiptir öllu máli að markmiðið sé tvískipt: markmið í samdrætti losunar annars vegar og markmið í bindingu hins vegar. Þessi tvö markmið eiga að vera algjörlega sjálfstæð og óvíxlanlegir: annað kemur ekki í staðinn fyrir hitt. Þetta ætti að endurspeglast í því að kolefnibókhaldið er líka tvískipt: framlag til bindingarverkefna á að reiknast sér en ekki að koma til frádráttar í losunarbókhaldinu.
Ef framlag til kolefnisbindingar er færður inn sem frádráttur á móti losun verður óljóst hvað fyrirtækið gerir í raun og veru til að draga úr losun sinni: ómögulegt er að gera greinarmun á fyrirtæki sem hefur dregið um sína losun um 50% og "kolefnisjafnað" afganginn, og fyrirtæki sem hefur ekkert gert til að draga úr losun heldur eingöngu notað 100% "kolefnisjöfnun". Bæði fyrirtækin eru "kolefnishlutlaus" samkvæmt bókhaldi, nema annað hefur gert heilmikið hjá sér en hitt ekki neitt, nema kaupa ódýrar kolefniseiningar. "Kolefnishlutleysið" er bara bókhaldsbrella.
En hvað með hótelið?
Tökum nú aftur dæmið um hótelrekstur: eitt af því sem hótelið getur þá gert til að lækka kolefnissporið sitt í umfangi 3 er að styðja og styrkja samgöngumáta sem gera ferðamönnum kleift að komast til og ferðast um landið með minni losun gróðurhúsalofttegunda. Ef hótelinu tekst að þrýsta á og styrkja nýjar lausnir í samgöngum, svo sem kolefnislágar ferjusiglingar og rafbílaleigur, þá getur kolefnispor hótelsins lækkað heilmikið og það hefur lagt mikið til sameiginlegs kolefnishlutleysis án þess þó að bein losun þess hafi lækkað neitt (þar sem það var nú þegar í lágmarki). Síðan getur hótelið líka styrkt verkefni hjá aðilum sem eru ekki hluti af virðiskeðjunni en hafa það að markmiði að draga úr losun eða auka kolefnisbindingu annars staðar, svo sem skógrækt eða endurheimt votlendis, með það skilyrði að slíkt framlag sé talið sér og komi ekki fram sem frádráttur á móti losun í kolefnisbókhaldinu.
Sanngjarnara og skilvirkara
Tvískipt kolefnisbókald af þessu tagi er bæði skilvirkara, gegnsærra og sanngjarnara: nú er það ekki lengur einkaverkefni þeirra greina sem "eiga" mestu losunina að finna lausnirnar (fyrst og fremst flutningafyrirtækin) heldur er það hlutverk allra sem eru háð flutningum og samgöngum í virðiskeðjunni. Bankar, tryggingafyrirtæki, lögmannastofur og fleiri aðilar sem valda litla sem enga beina losun (umfang 1 og 2) þurfa þá líka að leggja sig fram bæði til að hjálpa öðrum geirum að draga úr losun hjá sér og styrkja bindingarverkefni svo sem skógrækt og endurheimt votlendis. Frekar en að telja slíkar fjárfestingar í kolefniseiningum væri hægt að nota aðra mælieiningu sem tryggir gagnsemi fjárfestingarinnar án þess að villa fyrir um tilgang hennar, en samtökin Carbon Market Watch, sem fylgjast með viðkipti með kolefniseinginum, hafa einmitt lagt til ýmsar lausnir á því sviði.
Hugveiturnar Net Zero Initiative og newclimate.org hafa líka hannað drög að aðgerðaráætlun fyrir fyrirtæki og stofnanir, sem byggja á þessum sama aðskilnaði milli samdráttar í losun og fjárfestinga í bindingarverkefni, en nálgun New Climate byggir á því að fyrirtækið setur verðmiða á hverja losunareiningu og fjármunirnir sem safnast síðan í einhvers konar "loftslagssjóð" innan fyrirtækisins eru notaðir til að styrkja bindingarverkefni:
Það er hægt að vanda sig ef viljinn er til staðar. Fyrsta skrefið í því hjá fyrirtækjum sem vilja láta taka sig alvarlega er að segja skilið við markmiðið um "kolefnishlutleysi" á skala fyrirtækisins, hugsa frekar um "framlag til sameiginlegs kolefnishlutleysis", og taka svo upp tvískipt markmið og bókhald (samdráttur í losun annars vegar og stuðningur við loftslagsverkefni hins vegar). Þá fyrst getum við farið að tala saman...
Comments