Þann 14. maí síðastliðinn vorum við upptekin við tvennt: sveitastjórnarkosningar annars vegar og söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva hins vegar. En það er annað sem gerðist þennan sama dag, og hefur líklega farið fram hjá flestum, en er kannski öllu merkilegri atburður í sögu mannkynsins: Indland greip til þess ráðs að banna útflutning á hveitikorni. En hvers vegna og hverju breytir það?
Eftir innrás Rússa í Úkraínu vöknuðu áhyggjur af slæmri uppskeru í báðum þessum löndum af völdum stríðsins, en Rússland er stærsti útflytjandi hveitikorns í heimi og Úkraína sá fimmti stærsti:
Eins og sést á ritinu hér að ofan er Indland ekki meðal alstærstu útflytjanda hveitikorns (aðeins í 10. sæti með 7 milljónum tonna). Indland er hins vegar næst stærsti hveitikornsframleiðandi heims (á eftir Kína) og býr yfir 10% af hveitibirgðum heimsins. Þess vegna vonuðust menn til þess að Indverjar gætu hlaupið í skarðið og létt á yfirvofandi skorti á heimsmörkuðum. Í apríl höfðu Indverjar kynnt áætlanir um að auka framleiðslu sína úr 7 milljónum tonna upp í 10 milljónir og hleypa þannig smá súrefni í markaðinn.
Þriggja mánaða hitabylgja
Langvarandi hitabylgja á Indlandi hefur hins vegar sett strik í reikninginn. Mars-mánuðurinn var sá heitasti síðan mælingar hófust (upp úr 1900) og apríl var lítið skárri. Í maí bárust fregnir af því að hiti fór yfir 50 gráður á nokkrum stöðum á Indlandi og í Pakistan. Þessi hitabylgja hefur orðið til þess að yfirvöld óttast slæma uppskeru og hafa gripið til þess ráðs að banna útflutning á hveitikorni til að koma í veg fyrir skort innanlands.
þetta hefur orðið til þess að verð á hveitikorni á heimsmarkaði hefur náð nýjum hæðum og hefur nú tvöfaldast á einu ári:
Þessi mikla verðhækkun þýðir tvennt: fyrir okkur sem eigum meira en nóg milli handanna þýðir hún bara aðeins dýrara brauð og aðeins meiri verðbólga. Fyrir efnaminni þjóðir sem eru háðar innflutningi á kornvörum þýðir hún hins vegar versnandi efnahagshorfur, mögulega hungursneyð og uppreisnir eins og þær sem kviknuðu í miðausturlöndum eftir miklar verðhækkanir á kornvörum á árunum 2010-12 og voru þá kallaðar "arabíska vorið". Slíkar uppreisnir geta hæglega endað í borgarastríð eins og gerðist í Sýrlandi. Egyptaland, Túnis, Tyrkland og Yemen eru meðal þeirra þjóða sem eru í mestri hættu:
Er þetta aðeins byrjunin?
Það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem einstakar þjóðir ákveða að skerða eða banna útflutning vegna slæmrar uppskeru eða vöruskorts heima fyrir: hitabylgja, þurrkur og skógareldar í Rússlandi árið 2010 leiddu til þess að einn þriðji af ræktunarlandi eyðilagðist og Rússar neyddust til að banna útflutning á korni það ár. Bann við útflutning á tilbúnum áburði frá Kína í fyrra leiddi af sér mikla verðhækkun á áburði og sömuleiðis tveggja mánaða útflutningsbann Rússlands á áburði í byrjun árs 2022 (Rússland er stærsti útflytjandi áburðar í heimi). Nú hefur útflutningsbann Indlands bæst við en fleiri lönd hafa ákveðið að skrúfa fyrir útflutning á ýmsum matvælum: Rússland, Úkraína, Kazakhstan, Kosovo, Serbía, Argentína og Indónesía meðal annara.
Þessi hökkt í matvælaframleiðslu og alþjóðaviðskiptum er ekki aðeins afleiðing af stríðinu í Úkraínu eða eftirköst af Covid-faraldrinum. Hún mun halda áfram að versna eftir því sem loftlagsbreytingar fara að bíta meira og uppskerur versna. Á Indlandi er útlitið sérstaklega slæmt, en þar er hlýnunin nú aðeins 1°c en gæti orðið allt að 5°c fyrir lok aldarinnar ef ekki tekst að koma böndum á losun:
Matvælaframleiðsla er heldur ekki eina framleiðslan sem getur orðið fyrir barðinu á loftslagsbreytingum: við höfum nú þegar orðið var við skort á flögum í bíla en framleiðsla á flögum er mjög vatnsfrekur iðnaður og er þar af leiðandi viðkvæm fyrir vatnsskorti. Miklar þurrkur í Taívan á árunum 2020-21 urðu til þess að yfirvöld þar í landi gripu til þess ráðs að skammta og forgangsraða vatnsframboð í þágu flöguverksmiðja og á kostnað annara (þar á meðal bænda) til að koma í veg fyrir skerðingu á framleiðslugetu flöguverksmiðja.
Hvað með hnattvæðinguna?
Alþjóðaviðkipti eru byggð á löngum og flóknum framleiðslukeðjum, en keðja er aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar. Því lengri og flóknari sem keðjan er, því meiri hætta á að hún slitni þegar loftslagsbreytingar skerast inn í leikinn. Getur verið að tími hnattvæðingar sé liðinn, og að loftslagsbreytingar leiði til aukins verndarstefnu eins og við sjáum nú (útflutningsbönn og tollar) í heimi þar sem hver þjóð hugsar fyrst og fremst um sjálfa sig? Getur verið að framleiðslutruflanir og vöruskortur séu komin til að vera, ásamt verðbólgunni sem þau ala af sér?
Ef þetta er framtíðin þurfum við að búa okkur undir miklar breytingar: framtíðin snýst ekki aðeins um matvælaöryggi, heldur um innflutningsöryggi almennt: hvernig mun hagkerfi okkar virka ef við fáum ekki þær vörur sem við erum vön að flytja inn: matvæli, áburður, vélar og búnaður, farartæki, byggingarefni? Hvað með jarðefnaeldsneyti? Við höfum ekkert af því heima fyrir og framboð af því er dæmt til að dragast saman af jarðfræðilegum ástæðum svo að við höfum tvær góðar ástæður til að draga úr notkun þess sem allra fyrst.
Ef þetta er framtíðin þurfum við að endurhanna hagkerfið okkar með þessum nýjum veruleika að leiðarljósi: hagkerfi sem byggir á miklum innflutningi frá fjarlægum heimshornum er veikt og viðkvæmt hagkerfi í þessu samhengi. Samgöngukerfi sem byggja á jarðefnaeldneyti og málmfrekum farartækjum eru berskjölduð fyrir truflanir í framleiðslukeðjunni, fyrir utan það að auka á hættunni af loftslagsbreytingum.
Eru Indverjar umhverfissóðar?
Í umræðunni um loftslagsbreytingar er gjarnan bent á stórar of fjölmennar þjóðir eins og Kína og Indland, losun þeirra borin saman við losun "litla Íslands" og niðurstaðan úr því samanburði gjarnan sú að þessar stórþjóðir séu aðalsökudólgurinn og því þýði ekkert fyrir músina að aðhafast á meðan loðfílarnir sitja sem fastast á kolefnisfjallinu sínu.
Vissulega var losun Indlands árið 2016 um 2.500 megatonn Co2-ígilda eða 7% af heildarlosun í heiminum, og raforkuframleiðsla Indlands eftir orkugjafa lítur svona út:
75% kol! Oj bara! Við Íslendingar erum með 99% "græna raforku"! (fliss).
Já, nema hvað, þegar allt kemur til alls er það kolefnissporið á mann sem skiptir máli, það er að segja, ekki eingöngu raforkan, heldur öll orkunotkun okkar ásamt matvælatengda losun, og ekki eingöngu staðbundin losun, heldur öll losun sem við berum einhverja ábyrð á í gegnum kaup okkar á vöru og þjónustu, innanlands sem utan. Og ef kolefnissporið á mann er skoðað lítur myndin dálítið öðruvísi út:
Á þessu riti sést að kolefnisspor meðal Indverjans er aðeins 1,7 tonn á ári sem er vel undir heimsmeðaltali (4,6 tonn) og 10 sinnum minna en kolefnisspor meðal-Bandaríkjamanns. En hvað með Ísland? Við Íslendingar höfum hingað til ekki einu sinni nennt að mæla kolefnisspor okkar (við látum það duga að mæla staðbundna losun), og því eru engar tölur fyrir 2017. Hins vegar hafa fræðimennirnir Heinonen, Ottelin og Clarke unnið rannsókn á kolefnisspor Íslendinga sem byggir á neysluvenjum þeirra árin 2010-2012. Þessi rannsókn gefur til kynna að kolefnisspor meðal-Íslendings hafi verið 10,4 tonn á þessum árum. 5-7 árum seinna hefur kolefnissporið örugglega verið hærri, ekki síst vegna mikillar aukningar í utanlandsferðum Íslendinga, en sem dæmi bætir hver flugferð til Tenerife 1 tonn við kolefnissporið. Á að giska gæti kolefnisspor Íslendinga því verið einhvers staðar á milli kolefnisspor Þjóðverja og Bandaríkjamanna (13-15 tonn Co2-igilda), sem er 8 sinnum hærra en hjá Indverjanum, þrátt fyrir alla "grænu orkuna" og "nýsköpunina".
En hvernig fara Indverjar að þessu?
Förum nú aftur yfir í landbúnaðarkerfi Indverja. Indverjar eru næstfjölmennasta þjóð í heimi með1,4 milljarðar íbúa og eitt af þéttbyggðustu landsvæðum í heimi með 460 íbúa á ferkílómetra (á Íslandi eru það 3 íbúar á km2). Þegar þéttleiki er svona mikill er ræktunarland af skornum skammti enda þurfa Indverjar að sætta sig við 0,14 hektara af ræktunarlandi á mann (minna en 40x40 metrar) sem er fjórum sinnum minna en heimsmeðaltalið (0,6). Þar að auki er kornframleiðsla á mann aðeins 220 kg sem er vel undir heimsmeðaltalið (400 kg) og 7 sinnum minna en í Bandaríkjunum (1,4 tonn). Hvernig getur þjóð sem er svo fjölmenn, hefur svo lítið ræktunarland á mann og lága framleiðlsu á mann, haft efni á því að flytja út korn (í venjulegu árferði)?
Það er nefnilega ekki sama hvað er gert við kornið: matur eða dýrafóður? Indverjar framleiða minna af nautakjöti en Bandaríkin þrátt fyrir að vera fjórum sinnum fjölmennari (sem sagt, fjórum sinnum minna af nautakjöti á mann). Svínakjötframleiðsla er 30 sinnum minni en í Bandaríkjunum (120x minna á mann) og kjúklingakjötsframleiðsla 12 sinnum minni (48x minna á mann).
Vannæring er vissulega vandamál hjá sumum þjóðfélagshópum á Indlandi en almennt frekar undantekning, enda eru líflíkur þar í landi 70 ár (gegn 79 ár í Bandaríkjunum og 82,5 á Íslandi). Það sem skýrir útflutningsgetu Indverja er því miklu frekar hvernig korninu er forgangsraðað: kornið er fyrst og fremst ætlað til manneldis því þannig nýtist það best, en kjötframleiðslu er aftur á móti haldið í lágmarki enda er hún í senn plássfrek, kornfrek og orkufrek (fyrir utan að hún hefur hærra losunargildi, sérstaklega framleiðsla á rauðu kjöti). Til samanburðar er meira en helmingur af hveitikornsframleiðslu Bandaríkjanna ætluð til dýraeldis og aðeins 24% af maís-framleiðslu sama lands ætluð til manneldis (40% til framleiðslu lífeldsneytis og 36% til dýraeldis).
Og svo er allt hitt...
Af þessum sökum er losun frá Indverskum landbúnaði frekar lítil í alþjóðasamanburði. Og svo er allt hitt. Bílarnir til að byrja með: Indverjar eru kannski ekki langt komnir í rafbílavæðingunni (1,7% af flotanum) en þeir eiga líka miklu færri og minni bíla (aðeins 55% Indverja eiga bíl) og brenna að meðaltali aðeins 0,5 lítrar af eldsneyti á dag (Íslendingar brenna 9 þegar allt er talið, þrátt fyrir allar Teslurnar). Indverjar fljúga líka lítið og því er losun frá flugi á mann innan við 10 kg Co2-ígilda þar í landi:
Eru Indverjar þá kaþólskari en páfinn?
Svo alls sanngirni sé gætt eru neysluvenjur Indverja auðvitað fyrst og fremst afleiðing af lægri ráðstöfunartekjum frekar en merki um vammlausa loftslagssamviskusemi. Og það er staðreynd að borgarar í efnaminni þjóðum fygjast náið með lífsvenjum fólks í hinu efnaða vestri og að þá dreymir marga lítið annað en að tileinka sér þessum sama, kolefnisþunga lífsstíl, með kjöt í hverri máltíð, einn bíl á mann, flatskjá í öllum herbergjum og þrjár flugferðir á ári. Það er því fyrirsjáanlegt að á meðan við gerum ekkert í okkar málum mun neyslan og losunin sem henni fylgir halda áfram að aukast hjá þjóðum eins og Indverjum. Fordæmisgildið er grundvallaratriði í þessu samhengi.
Til þess að takmarka hlýnun við 1,5°c eins og Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir þyrfti meðalkolefnisspor á mann í heimi að vera komið niður í 1,5 tonn á mann árið 2050. Indverjar eru í raun hársbreidd frá þessari tölu með 1,7 tonn á mann. Ef allir jarðarbúar myndu losa eins og Indverjar væri björninn í raun nánast unninn. Eigum við þá virkilega efni á því að hneykslast á kolabrennslu Indverja, með okkar 13-15 tonn Co2-ígilda á mann? Ég er ekki alveg viss um það...
Comments