top of page

Morgunblaðið hvetur til ofurneyslu jarðefnaeldsneytis

Writer's picture: Jean-Rémi ChareyreJean-Rémi Chareyre

Á vefsíðu mbl.is er að finna ýmsar fréttir um ferðalög, en forsvarsmenn og blaðamenn fjölmiðilsins virðast hafa einsett sér að þegja þunnu hljóði um skaðleg áhrif á umhverfið sem ákveðnir ferðamátar eða áfangastaðir geta haft, og láta sér nægja að lofsyngja óábyrga ferðahegðun sem byggir á ofurneyslu jarðefnaeldsneytis.


Í einni grein er sagt frá því að íslensk kona sem er titluð áhrifavald hafi nýlega flúið gulu viðvörunina til Tenerife.“ Ef nýjasta tískan kallar á að við fljúgum til Tenerife í hvert skipti sem lægð gengur yfir landið er framtíð loftslagsbreytinga ekki björt. Hver ferð til Tenerife kallar á brennslu 240 lítra af eldsneyti og losar gróðurhúsalofttegundir sem samsvara 1750 kg CO₂-ígilda. Til samanburðar er losunarkvóti hvers einstaklings á jörðinni um 1500 kg á ári ef Parísarmarkmiðið um að takmarka losun við 1.5°c á að nást.

Ímyndum okkur nú að íbúar þeirra heitu landa sem munu þurfa að glíma við sífellt fleiri og hættulegri hitabylgjur tækju upp á því að fljúga til Íslands í hvert skipti sem hitabylgja skellir á heima hjá þeim, þá mætti alveg eins sturta Parísarsamkomulagið niður undir eins.

Morgunblaðið telur framtíð mannkyns greinilega vera aukaatriði í samanburði við þægindin“ sem felast í því að geta skotist til Tene þegar veðurspáin er ekki alveg eins og við vildum hafa hana.



Ekki nóg með það. Greinin tekur sérstaklega fram að Teneri­fe ferðin er önn­ur ut­an­lands­ferð drengs­ins eft­ir að hann kom í heim­inn 8. fe­brú­ar síðastliðinn“ og að ungi dreng­ur­inn fór líka í sitt fyrsta þyrluflug til að fagna þriggja mánaða af­mæl­inu sínu“ (síðan hvenær eru afmæli haldin mánaðarlega?). Með öðrum orðum hefur nýfædda barninu tekist að brenna eitthvað í kringum 500 lítra af jarðefnaeldsneyti á fyrstu fjórum mánuðum lífs síns, sem telst víst vera mikið afrek samkvæmt blaðamanni.

Þetta er þó aðeins byrjunin því ungi ver­ald­ar­vani dreng­ur­inn verður án efa heims­borg­ari eins og móðir sín,“ segir að lokum.

„You ain’t seen nothing yet,“ eins og maðurinn sagði.


Í annarri frétt er okkur sagt frá því að Birgitta Haukdal sé að „næra sálina á Balí“. Það gleymist hins vegar að nefna að með þessu er Birgitta líka að „næra“ loftslagsbreytingar allhressilega því flugferð til Balí brennur 500 lítrar af jarðefnaeldsneyti og losar jafngildi 3.500 kg af CO₂.



Lengi má vont versna því í annarri grein sem ber titilinn „Hvert er best að ferðast í júlí?“ mælir Morgunblaðið sérstaklega með Seychelles-eyjum, einn sá fjarlægasti áfangastaður sem Íslendingum stendur til boða, með eldsneytisbrennslu upp á 730 lítrar og losun upp á 5500 kg CO₂-ígilda. Geri aðrir betur!


Í frétt sem er merkt sem „kynning“ en er í raun auglýsing í dulargervi er síðan sagt frá manni sem lýsir þeirri  „dásamlegri“ reynslu að  „vakna í nýrri höfn á hverjum degi.“ Sú lífsreynsla stendur öllum lesendum Morgunblaðsins til boða með því einu að stíga um borð í risavaxið skemmtiferðaskip sem brennur um það bil 70 lítrar af eldsneyti á dag á hvern farþega. Við þetta bætist flugið þar sem upphafspunktur flestra skemmtisiglinga er höfn í útlöndum og þangað er oftast flogið fram og til baka. Tveggja-vikna skemmtisigling frá Róm kallar þannig á losun upp á rúmlega 6000 kg CO₂-ígilda, en okkur munar ekkert um það lengur þegar hingað er komið.



Að lokum er rúsínan í pylsuendanum: við fréttum af því að Bogi Nils forstjóri Icelandair sé nú að kynna „stærstu flugáætlun í sögu Icelandair“ og að framboð á sætiskílómetrum (ASK) hafi fjölgað um „að minnsta kosti 10% frá fyrra ári.“ Góðar fréttir fyrir Icelandair sem er nú þegar komið langt fram úr Alcoa sem stærsti einstaki losunaraðili á Íslandi, með um og yfir milljón tonn CO₂-ígilda á ári.


Brennuvargar allra landa sameinist!



P.S. Kæra starfsfólk Morgunblaðsins, mætti biðja um vandaðri umfjöllun þar sem lesendur eru upplýstir um mismunandi umhverfisáhrif hinna ýmsu ferðamáta og áfangastaða sem Íslendingum stendur til boða, og þar sem óábyrgri ofurneyslu svokallaðra “áhrifavalda” er ekki slillt upp sem einhvers konar meiriháttar hetjuskapur?


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page