Í vikunni gaf Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) út samantektarskýrslu um loftslagsbreytingar. Hún er í rauninni aðeins samantekt á áður útgefnum skýrslum (sjötta matshring AR6, sem var hvorki meira né minna en 10.000 blaðsíður!). Af því leyti er ekkert mikið nýtt í henni.
Ein undantekning þó: þetta er í fyrsta skipti sem hugtakið “nægjusemi” (e. “sufficiency”) birtist í samantekt milliríkjanefndarinnar. Nefndin býður meira að segja upp á skilgreiningu á þessu hugtaki (bls. 31):
„Aðgerðir og daglegar venjur sem leiða til minni eftirspurnar eftir orku, auðlindum, landgæðum og vatni.‟
Nægjusemi er ef til vill sú lausn sem minnst hefur verið talað um þrátt fyrir að flestir vísindamenn séu sammála um að hún sé óhjákvæmilegur hluti af jöfnunni. Sem dæmi má nefna að hugtakið „nægjusemi‟ er hvergi að finna í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum.
Nægjusemin hefur þann kost að hún kostar ekkert og skilar strax árangri, ólíkt öðrum lausnum sem geta kostað miklar fjárfestingar (orkuskipti í samgöngum, kolefnisföngun), skila ekki árangri fyrr en eftir langan tíma (orkuskipti, skógrækt) eða eru háðar mikilli óvissu (tækniframfarir). Með þessu er ekki verið að gera lítið úr ofangreindum lausnum, sem hafa vissulega mikilvægu hlutverki að gegna, heldur er einfaldlega verið að benda á að nægjusemi er nauðsynleg (aðrar lausnir munu ekki duga einar síns liðs) en um leið áhrifarík, ódýr og fljótvirk.
Línuritið hér að ofan er tekið úr skýrslu IPCC og sýnir hvaða sviðmyndir samrýmast markmiðunum um 1,5°c eða 2°c hlýnun. Þar sést að í sumum tilfellum, miðað við 1,5°c hlýnun, er gert ráð fyrir neikvæða losun eftir 2060. Þetta þýðir bæði að öll brennsla jarðefnaeldsneytis þyrfti að vera hætt þá (eftir 37 ár), en líka að heimurinn þyrfti að notast við tækniaðferðir sem binda kolefni, svo sem brennslu á lífmassa með kolefnisföngun, eða beina kolefnisföngun úr andrúmsloftinu (Direct Air Capture).
Jafnvel með því að notast við slíkar tæknilausnir sem eru í reynd varla nothæfar, sést að til að markmiðið náist þarf samdrátturinn að nema 5-8% á ári, og það strax á morgun. 5% samdráttur í losun er sambærilegt við þann samdrátt sem Covid-faraldurinn leiddi af sér.
Miðað við núverandi stefnur ríkjanna stefnir í 3,2°c hlýnun sem er vel yfir markmið Parísarsamkomulagsins. Þegar talað er um 3,2°c hlýnun er átt við meðalhlýnun á jörðinni, en þar sem hlýnunin er meiri á landi en á hafi, og meiri á pólunum en við miðbaug, getur 3,2°c hlýnun þýtt allt að 6-7°c hlýnun á sumum landsvæðum (og munum að þetta er hlýnun miðað við árið 2100, en hún á síðan eftir að aukast enn frekar á næstu öld!).
Hvað sem okkur finnst um þessar sviðsmyndir mun losun gróðurhúsalofttegunda dragast saman fyrr eða seinna: ef ekki vegna aðgerða okkar, þá vegna þess að við verðum uppiskroppa með jarðefnaeldsneyti (Evrópubúar eru nú að fá forsmekk af því í boði Pútíns), eða vegna átaka, hungursneyða og sjúkdóma sem loftslagsbreytingar munu leiða af sér (til að rifja upp afleiðingar loftslagbreytinga á mannleg samfélög er ágætt að smella hér).
Spurningin er þá bara hvort við bíðum þangað til stormurinn skellur á og förum í rústabjörgun þá („þetta reddast‟-aðferðin) eða hvort við brettum ermarnar strax og reynum að sigla fram hjá storminum eins og mögulegt er…
Comments