top of page
Search
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Prófessor segir Íslendinga stunda sjálfsblekkingu

Updated: Nov 30, 2022Prófessor við Háskóla Íslands og einn fremsti loftslagsvísindamaður heims segist ekki hafa trú á því að næsta loftslagsráðstefna skili miklum árangri. Cop 27 (tuttugasta og sjöunda loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna) verður haldin í Egyptalandi í nóvember næstkomandi. Síðan fyrsta ráðstefnan var haldin í Berlin árið 1995 hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist um 50% á heimsvísu. Styrkur Co2 í andrúmsloftinu hefur aukist hraðar en nokkru sinni fyrr:


Styrkur Co2 (ppm) í andrúmsloftinu síðan 1960. Heimild: Nationalobserver.com

1- Skammtímahugsun, afvegaleiðing og hagvaxtarhyggjan helstu sökudólgar


Í kjölfar Covid-19 faraldursins dró aðeins úr losuninni en hún er nú aftur á uppleið. Jukka segir þrennt skýra þessa lélegu frammistöðu:

“Í fyrsta lagi hefur samningsaðilum reynst mjög erfitt að taka á vanda sem virðist fjarlægður í tíma,” segir Jukka í viðtali við Kolefni og Menn. Hér er prófessorinn að vísa til þess sem er stundum kallað “Titanic-áhrifin”: á meðan ísjakinn er ekki sýnilegur er lítill hvati til að grípa til aðgerða, þrátt fyrir endurteknar viðvaranir, en þegar ísjakinn sést loksins berum augum er orðið of seint til að bregðast við.


“Stjórnmálamenn leitast eftir aðgerðum sem skila árangri strax, þar sem kosningar snúast fyrst og fremst um að leysa skammtímavandamál með skammtímalausnum. Það er aðallega hugsað um næsta kjörtímabil, en loftslagsbreytingar eru í eðli sínu langtímavandamál. Þær krefjast róttækra aðgerða sem eru ekki líklegar til vinsælda til skamms tíma og munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir langan tíma.”


“Í öðru lagi er ákveðin tilhneiging hjá samningsaðilum til að skella skuldinni á hvorn annan. Vestrænar þjóðir benda á sífellt hækkandi losunartölur hjá þróunarríkjum eins og Kína, en þróunarríkin benda aftur á móti á hærri uppsafnaða losun vestrænna iðnríkja.”

“Í þriðja lagi er draumur manna um endalausan hagvöxt að þvælast fyrir. Stjórnvöld í flestum ríkjum heims leggja fyrst og fremst áherslu á áframhaldandi hagvöxt, sem þýðir aukna framleiðslu og aukna neyslu. Þar sem aukin framleiðsla kallar á aukna losun er í raun um tvö andstæð markmið að ræða, en markmiðið um hagvöxt trompar yfirleitt markmiðið um samdrátt í losun. Sumir vonast til að geta kallað fram “grænan hagvöxt”, það er að segja hagvöxt sem verður til samhliða samdrætti í losun, en slíkan hagvöxt sjáum við ekki raungerast.”

Þegar talið berst að grænum hagvexti leynist hæðnin ekki hjá vísindamanninum. Hjá fræðimönnum er grænn hagvöxtur svolítið eins og Lagarfljótsormurinn: allir tala um hann en enginn hefur séð hann.

“En stjórnmálamenn þora ekki að véfengja drauminn um endalausan hagvöxt, af ótta við að missa fylgi.”
2- Græn orkuframleiðsla ekki trygging fyrir lágu kolefnisspori


Á Íslandi er staðan lítt skárri en annars staðar. Losun Íslands er í dag 20% hærri en hún var þegar fyrsta loftslagsráðstefnan var haldin, og fátt bendir til þess að hún sé á niðurleið, ef Covid-tímabilið er undanskilið. Jukka segir Íslendinga stunda sjálfsblekkingu með því að einblína á græna orkuframleiðslu og notast við gallað kolefnisbókhald:

“Ef við horfum eingöngu á raforkuframleiðsluna, þá lítur út sem Ísland sé að standa sig ágætlega, því sú framleiðsla er að mestu leyti kolefnislaus. En raforkan er aðeins lítill hluti af heildarmyndinni…”


Það eru tvær aðferðir við að reikna út losun: fyrsta aðferðin felst í því að mæla aðeins þá losun sem á sér stað innan landamæra hvers lands fyrir sig. Það er sú mæling sem er notuð sem undirstöðu í alþjóðasamningum (landsskýrsla sem Umhverfisstofnun heldur utan um). Hin aðferðin felst í því að mæla þá losun sem verður til við að framleiða og flytja allar þær vörur og þjónustu sem íbuar viðkomandi lands kaupa sér eða hafa aðgang að, óháð því hvar í heiminum sú losun á sér stað. Sú mæling kallast kolefnissporið, og tekur mið af þeirri losun sem tengist innfluttum vörum, alþjóðaflugi og alþjóðaflutningum, á meðan mælingar á staðbundinni losun gera það ekki. “Ef aðeins staðbundin losun er skoðuð þá gefur hún í raun mjög bjagaða mynd af stöðunni,” segir Jukka.


Hann vísar í breska rannsókn sem hafi jafnvel leitt í ljós að staðbundnar mælingar geti sýnt fram á samdrátt í losun á sama tíma og kolefnissporið hefur hækkað vegna aukins innflutnings og aukinna flugsamgangna. “Þróunin sem við höfum séð síðustu ár og áratugi er að ríkari þjóðir eru að útvista losun til fátækari landa með því að færa framleiðsluna þangað. Þannig lækkar staðbundin losun þeirra samkvæmt bókhaldinu, á sama tíma og hnattræn losun eykst þrátt fyrir allt.”3- Kolefnissporið þarf að mæla og vakta betur


Þessa bókhaldsbrellu kallar Jukka “lágkolefnissjónhverfingu”. Til að koma í veg fyrir slíka skekkju þurfi að mæla kolefnissporið samhliða staðbundinni losun en á Íslandi hefur kolefnissporið aðeins verið mælt einu sinni: það er Jukka sjálfur, ásamt samstarfsmönnum sínum Jack Clarke og Juudit Ottelin, sem framkvæmdu þessa mælingu, en niðurstöðurnar eru að finna í rannsókn sem birtist árið 2017. Sú rannsókn leiddi í ljós að kolefnisspor Íslendinga er eitt það hæsta í heimi þegar allar innfluttar vörur eru teknar með í reikninginn, þrátt fyrir hlutfallslega lága kolefnislosun innanlands.


Á meðan ekki er fylgst með kolefnissporinu (eða “neysludrifinni losun” eins og vísindamenn kalla hana) eru stjórnvöld í raun að renna blint í sjóinn með aðgerðum sínum, og viðhalda þannig sjálfsblekkingunni. Svíþjóð varð nýlega fyrsta ríki heims til að innleiða markmið um lækkun kolefnisspors samhliða samdrætti í innlendri losun, einmitt til að koma í veg fyrir útvistun á losun. “Þetta er mjög jákvætt skref, sem fleiri ættu að taka til fyrirmyndar” segir Jukka Heinonen.


Samkvæmt rannsókn Jukka er kolefnisspor Íslendinga tvöfalt hærra en kolefnisspor Svía, eða um 22 tonn Co2-ígilda á mann á móti 11 tonnum hjá Svíum, en til að ná að takmarka hlýnun við 2°c þarf að ná þessari losun niður í 2 tonn á mann fyrir 2050, sem samsvarar ríflega 90% samdrætti í losun á innan við 30 árum.


Heimild: Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. J. Clarke, J. Heinonen og J. Ottelin


762 views0 comments

Comentários


Post: Blog2_Post
bottom of page