![](https://static.wixstatic.com/media/6dc015_ff91002961144c58939b2d4ab06aae1f~mv2.avif/v1/fill/w_980,h_588,al_c,q_85,usm_0.66_1.00_0.01,enc_auto/6dc015_ff91002961144c58939b2d4ab06aae1f~mv2.avif)
Enskar bókmenntir hafa að geyma eina þekktustu jólasögu allra tíma, Jólaævintýri eftir Charles Dickens. Þar segir frá nirflinum Ebeneser Scrooge (Skröggur), ríkum einstæðingi sem þolir ekki jólin, þrælar út skrifara sínum fyrir lúsarlaun og neitar að hjálpa þeim sem til hans leita.
En á jólanótt fær Skröggur þrjár einkennilegar heimsóknir. Hver af öðrum mæta þrír andar inn í svefnherbergi hans og sýna honum hver um sig jól fortíðar, nútíðar og framtíðar. Síðastur þessara anda er ef til vill sá mikilvægasti: Andi hins ókomna. Hlutverk hans er annars vegar að sýna Skröggi hvernig líf hans mun líta út í framtíð ef hann bætir ekki ráð sitt, hvernig hann mun deyja einsamall og hataður af öllum, og hins vegar að minna honum á að framtíðin er opin: enn er möguleiki að breyta þessari óglæsilegu framtíðarsýn.
Sagan segir ekki hvort um raunverulega anda sé að ræða eða hvort Skröggur sé einfaldlega með mjög afkastamikið ímyndunarafl í svefni sínu, en það breytir ekki niðurstöðunni: þessi lífsreynsla fær Skrögg til að líta heiminn öðrum augum og bæta ráð sitt. Það fyrsta sem hann gerir daginn eftir er að kaupa stærsta kalkúninn sem hann finnur í kjötbúðinni og láta senda hann til Bob Cratchit skrifara hans í jólagjöf.
Á yfirborðinu virðist sagan fyrst og fremst snúast um hefðbundinn jólaboðskap: verið góð við hvort annað og hjálpið hvor öðrum. En þegar betur er að gáð er boðskapurinn kannski mun dýpri: saga Skröggs minnir okkur á að það er í eðli mannsins að hugsa fyrst og fremst um nútíðina og láta skammtímahagsmuni ráða för á kosnað langtímahagsmuna. Skröggur er fastur í því að hámarka velsæld sína í nútíð á kostnað framtíðarsjálfs síns: níska og nirfilsháttur hans í nútíð geta orðið til þess að hann verði að athlægi í framtíð, jafnvel hataður af hans nánustu og einmanna fram til síðasta dags.
Ein merkilegasta uppgötvun taugavísinda á síðari árum er að við upplifum framtíðarsjálfið okkar allt öðruvísi en nútíðarsjálfið. Í ítrekuðum tilraunum hafa vísindamenn komist að því að þegar við hugsum um okkur sjálf í nútíð er ákveðinn hluti heilans mjög virkur. Þegar við hugsum hins vegar um okkur sjálf í fjarlægri framtíð, segjum 10-20 ár, verður virknin á sama svæði heilans mjög lítið, eins og við værum í raun að hugsa um ókunnuga manneskju, sem við höfum mjög takmarkaða samúð með.
Þetta útskýrir þá skammtímahugsun sem einkennir margt að því sem við gerum og gerir okkur oft afskaplega erfitt fyrir að samræma hegðun við langtímahagsmuni okkar.
Saga Skröggs er kannski vísbending um eitt sem getur hjálpað okkur við að komast framhjá þessari skammtímahugsun: það að taka sér smá hlé frá nútíðinni og gefa sér tíma til að ímynda sér framtíðina í smáatriðum: hvernig gæti hún litið út og hvað verður hlutverk okkar í þeirri sögu? Þannig byrjum við að finna til með framtíðarsjálfið okkar og upplifa samúð með honum, eins og Skröggur gerir þegar Andi hins ókomna sýnir honum þau örlög sem bíða hans: einmannalegur dauði og skaddað orðspor um ókomna tíð.
Þegar hætturnar sem við stöndum frammi fyrir í framtíð eru þar að auki nýstárlegar, óáþreifalegar, eitthvað sem við höfum aldrei upplifað áður (eins og dauðinn) og eigum erfitt með að ímynda okkur, er enn meiri hætta á að við köstum fyrirhyggjunni fyrir róða.
Hnattræna umhverfiskrísan sem hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratugum er einmitt af þessum toga: hún er framandi og óáþreifanleg (við höfum aldrei upplifað breytingar í loftslagi á þeim skala og hraða sem um ræðir) og virðist aðeins eiga heima í fjarlægri framtíð (jafnvel þó hún sé þegar byrjuð). En fyrirhyggja krefst þess að við látum framtíðina ganga fyrir skammtímahagsmuni, að minnsta kosti að hluta. Það er auðveldara sagt en gert, og hingað hefur það gengið afskaplega illa.
En þar hafa rithöfundar og aðrir listamenn kannski mikilvægu hlutverki að gegna: með því að bregða sér í gervi Andans hins ókomna geta þeir hjálpað okkur við að komast andartak frá nútíðinni, að ímynda okkur framtíðina, lifa okkur í henni og finna til með framtíðarsjálfum okkar. Þannig vöknum kannski allt í einu á jóladag eins og Skröggur og sjáum hlutina í stærra samhengi, tökum eftir því hvernig við erum augljóslega að saga greinina sem við sitjum á og förum að velta fyrir okkur hvernig við getum tryggt bjartari framtíð eftir 10, 20, 30 ár, frekar en, til dæmis, hvernig við getum hámarkað kaupmátt og neyslu á næstu 12 mánuðum…
Þetta snýst reyndar ekki eingöngu um langtímahagsmuni okkar, heldur líka um orðsporið okkar eftir dauðann: hvað ef umhverfisnískan okkar í nútíð (erum að sanka að okkur auðlindir sem afkomendur okkar munu þá ekki geta nýtt sér) verður til þess að afkomendur okkar fyrirlíti okkur um ókomna tíð, eins og lesendur Dickens hefðu líklega fyrirlitið Skrögg hefði hann ekki bætt ráð sitt á síðustu stundu?
Í inngangi stefnuyfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar segjast stjórnmálaleiðtogar okkar vilja „bæta kjör landsmanna“. Það kemur þó ekki fram hvort það verði gert með framtíðarhagmuni í huga eða hvort verður farið leið nirfilsins Skröggs: að hámarka „kjörin“ í nútíð með því að fórna langtímahagsmunum okkar, það er að segja með því að slá enn einu sinni á frest aðgerðir til að bjarga loftslaginu.
Stefnuyfirlýsingin gefur manni því miður góðar ástæður til að óttast að skammsýnin muni áfram fá að stýra skipinu…
![](https://static.wixstatic.com/media/6dc015_5e51c29aaeec45378ce9003283ef12ee~mv2.png/v1/fill/w_581,h_388,al_c,q_85,enc_auto/6dc015_5e51c29aaeec45378ce9003283ef12ee~mv2.png)
Комментарии