Það verður varla sagt að Donald Trump njóti mikilla vinsælda á Íslandi. Það virðist hafa verið ákveðinn léttir hjá mörgum þegar Joe Biden tilkynnti ákvörðun sína um að hætta við framboð sitt og leyfa Kamölu Harris að spreyta sig í staðinn, enda er sú síðarnefnda talin líklegri til sigurs í baráttunni við Trump
Eitt af því sem Trump er þekktur fyrir er andúð hans á loftslagsbreytingum, eða réttara sagt óbeit hans á aðgerðum gegn loftslagsbreytindum. Væri kosningasigur Harris þá góðar fréttir fyrir loftslagið og líklegur til að leiða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum?
Til þess að svara þeirri spurningu er einfaldlega hægt að kanna hvort seta ólíkra forseta í Hvíta húsinu hefur í fortíðinni leitt til ólíkrar þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda.
Því miður bendir línuritið hér að neðan ekki til þess að Demókratar séu „betri fréttir“ fyrir loftslagið heldur en Repúblikanar. Í tíð Bills Clintons jókst losun CO₂ um 12% en lækkaði síðan lítillega í tíð George W. Bush yngra. Hún héld síðan áfram á hægri niðurleið sinni í gegnum forsetatíð bæði Obamas og Trumps, og stóð meira og minna í stað í tíð Bidens.
Sá minniháttar samdráttur í losun sem hefur átt sér stað á síðustu 15 árum hefur í rauninni lítið að gera með ákvarðanir og aðgerðir þessara forseta. Samdrátturinn eftir 2008 var fyrst og fremst afleiðing fjármálakreppunnar sem reið yfir landið þá, og samdráttur eftir 2019 var afleiðing Covid-faraldursins.
Eftir 2012 var það nýjung í olíu- og gasiðnaði sem hafði mest áhrif á þróun losunar: þá hófu Bandaríkjamenn að framleiða olíu og jarðgas með nýrri aðferð, svokallað „vökvabrot“ (e: fracking), en olía og gas sem eru dæld upp með þessari að ferð eru gjarnan kölluð „shale oil“ og „shale gas“. Sú bylting varð til þess að framleiðsla á olíu og gasi jókst mjög hratt og markaðsverð á gasi í landinu hrundi í kjölfarið. Mörg raforkufyrirtæki sem framleiddu raforku með kolabrennslu sáu sér leik á borði og hófu að brenna gas í stað kols þar sem gasið var orðið hagstæðari kostur. Þar sem brennsla á gasi losar töluvert minna af CO₂ heldur en brennsla á kolum ákvað kaldhæðni örlaganna að þetta nýjasta olíuæði skyldi leiða til samdráttar í losun, að minnsta kosti á pappírnum: aukning í olíu- og gasframleiðslu leiddi ekki til aukinnar losunar innanlands þar sem stærsti hluti framleiðslunnar var fluttur út og brenndur annars staðar. Þessi þróun varð til þess að kolabrennsla til raforkuframleiðslu dróst saman um 3% í tíð Trumps, þrátt fyrir loforð hins yfirlýsingaglaða forseta um að endurvekja kolaiðnaðinn. Samhlíða því dróst losun CO₂ saman um tæp 3%.
Það er ekki þar með sagt að forsetakosningar í Bandaríkjunum skipti ekki máli. Þær skipta vissulega máli hvað varðar ýmis önnur mál, svo sem utanríkisstefnu eða mannréttindamál, en þegar kemur að umhverfismálum er ólíklegt að Bandaríkin muni breytast á einni nóttu með nýjum forseta.
Í Bandaríkjunum búa 4% jarðarbúa en sú þjóð tekur til sín 18% af olíuframleiðslu heimsins. Landið varð nýlega að fyrsta olíuframleiðsluríki heims að nýju eftir að nýjasta olíuæðið fór í gang (vökvabrotsbyltingin). Innanlandsflug í BNA samsvarar 25% af öllum flugsamgöngum heimsins og kolefnisspor meðal-Bandaríkjamanns er um og yfir 15 tonn CO₂-igilda á ári, eða sjö sinnum hærra en markmið Parísarsamkomulagsins felur í sér (2 tonn á mann á ári).
Þegar tölfræðin er skoðuð kemur í ljós að það eina sem hefur fengið þessa þjóð til að breyta um neyslumynstur í átt að meiri nægjusemi voru kreppur og önnur áföll, ásamt umhverfislegum takmörkunum (sú hefur líka verið raunin annars staðar að mörgu leyti).
Stóra spurningin er því þessi: er Kamala Harris betri kandídat þegar kemur að því að nýta sér áföll framtíðarinnar til þess að leiðrétta stefnu þjóðarskútunnar? Kappræður í sjónvarpi eru því miður til lítils gagns þegar kemur að því að svara þeirri spurningu…
Comments