top of page
Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Von í bland við örvæntingu á landsfundi Ungra Umhverfissinna


Lífsgleði, bjartsýni og von er eitt af því sem einkennir æskuna. Félagar hjá Ungum Umhverfissinnum þurftu hins vegar að halda sig alla við til að halda í vonina á landsfundi félagsins um síðustu helgi, enda staðan í umhverfismálum ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Landsfundurinn var tileinkaður loftslagsbreytingum og var haldinn á Hótel Örk í Hveragerði, en hann sóttu um það bil 50 manns þegar mest var, þrátt fyrir erfiða færð á þessum kalda og snjóþunga vetri. Ýmsir gestir voru fengnir til að halda erindi áhorfendum til fróðleiks og skemmtunar, en það var sjálfur Guðlaugur Þór umhverfisráðherra sem setti landsfundinn.



Stríðsástand en máttlaus viðbrögð


Guðlaugur líkti loftslagsmálin við stríðsástand en var greinilega ekki tilbúinn að grípa til þeirra róttækra aðgerða sem vanalegt er að þjóðir grípi til í stríðsástandi. Eftir stutta ræðu fékk ráðherran nokkuð beittar spurningar úr sal. Aðspurður hvort ekki væri nauðsynlegt að setja fyrirtækjum meiri skorður þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda eða hvort ekki ætti að refsa fyrirtækjum sem gerðu sig sek um grænþvott svaraði ráðherra á þá leið að viðkomandi spurning væri ýmis „mjög góð‟ eða jafnvel „milljón dollara spurning‟. Svörin voru hins vegar svo móðukennd að þau voru varla tveggja aura virði.


Guðlaugur Þór vísaði í orð John Kerry: „Við verðum að undirbúa okkur eins og við séum að fara í stríð.‟


Landsfundurinn var þrískiptur en fyrsti dagurinn var tileinkaður loftslagsvísindunum, annar dagurinn ábyrgð og réttlæti og á þriðja degi var fjallað um lausnir. Til viðbótar við ráðherrann voru ýmsir góðir gestir fengnir til að halda erindi, svo sem Andri Snær Magnason rithöfundur, Gísli Sigurgeirsson kennari við Tækniskólann, Rafn Helgason starfsmaður hjá Umhverfisstofnun og Sævar Helgi Bragason vísindamiðlari.




Prófessor í heimspeki fjallar um dauðsföll vegna loftslagsbreytinga


Erindi Hlyns Orra Stefánssonar prófessor í heimspeki vakti töluverða athygli en hann kynnti reiknilíkan sem gerir mönnum kleift að áætla fjölda dauðsfalla af völdum losunar Íslands. Hlynur árétti því þó að reiknilíkanið tæki aðeins mið af beinum áhrifum loftslagsbreytinga (umframdauðsföll vegna hita), en ekki af óbeinum áhrifum svo sem flóðir, hungursneyðir, stríð og sjúkdómar. Því mætti búast við að tölurnar yrðu talsvert hærri.


Hlynur Orri kynnir líkan sem spáir um fjölda dauðsfalla af völdum loftslagsbreytinga


Ungir Umhverfissinnar ósáttir við framlag stjórnvalda


Finnur Ricart Andrason loftslagsfulltrúi Ungra Umhverfissinna fór yfir loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda en taldi þau bæði óljós og ófullnægandi. Samkvæmt útreikningum hans mun núverandi aðgerðaráætlun stjórnvalda skila í besta falli 9% samdrátt í losun fram til ársins 2030, en ef markmiðin úr Parísarsamkomulaginu eiga að nást þarf losun Íslands að dragast saman um 92% samtals eða um 7% á hverju einasta ári fram til ársins 2050.


Finnur Ricart loftslagsfulltrúi UU hefur ekki mikla trú á áætlunum stjórnvalda

Margar lausnir stranda á andstöðu almennings


En það sem brann mest á gestum samkomunnar voru lausnir, og sér í lagi lausnir til að fá almenning með í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Gestir gerðu sér grein fyrir því að í lýðræðissamfélagi eru lausnir einskis virði ef þeim er ekki hægt að hrinda í framkvæmd vegna andstöðu almennings, og því eru mikilvægustu lausnirnar ef til vill þær sem gera umbótasinnum kleift að vekja áhuga almennings á málefninu og virkja hann þegar kemur að ákvarðanatöku.


Einn félagi úr hópnum rifjaði upp að mikil bjartsýni hafi ríkt innan hópsins á fyrstu árunum eftir stofnun hans. Fyrir síðustu þingkosningar tók félagið að sér að kanna afstöðu mismunandi stjórnmálaflokka til loftslagsmála og meta niðurstöðuna með einkunnagjöf. Eftir kosningar kom þó í ljós að flokkarnir sem fengu mesta fylgið voru gjarnan þeir sem fengu verstu einkunn í könnun Ungra Umhverfissinna, og því varð ljóst að loftslagsmálin voru frekar aftarlega á listanum þegar kom að forgangsröðun hjá kjósendum. Eftir það lagðist ákveðinn dofi yfir meðlimi hópsins.



Samvera besta móteitrið gegn loftslagskvíða


Landsfundurinn var hins vegar kjörinn vettvangur til að eflast, endurheimta von og bjartsýni og leitast eftir betri lausnum. Það var samdóma álit manna að samvinna og samvera umbótasinna var besta lækningin gegn loftslagskvíða, hvort sem hún ætti sér stað innan félagsstarfs Ungra Umhverfissinna eða utan.

Upptaka af landsfundinum verður aðgengileg á YouTube-rás Ungra Umhverfissinna á næstunni.


Tinna Hallgrímsdóttir forseti Ungra Umhverfissinna hafði lokaorðin og kvað samvinnu umbótasinna vera bestu lækningu gegn loftslagskvíða




Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page