top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Hvers vegna er jarðefnaeldsneyti eins ánetjandi og raun ber vitni?

Ný hitamet slegin í sífellu, hækkandi tíðni flóða og fellibylja um allan heim, skógareldar og almenn hnignun líffjölbreytni. Allar viðvörunarbjöllur kalla á aðgerðir þegar kemur að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, en samt virðast viðbrögðin okkar fylgja mottóinu: allt of lítið, allt of seint. Hvers vegna?


Staðreyndin er sú að jarðefnaeldsneyti hefur reynst mannkyninu vera gríðarlega ánetjandi efni. Við erum eins og heróín-fíkillinn sem lofar bót og betrun á hverjum degi en fellur svo aftur við fyrsta tækifæri. Og hvers vegna er jarðefnaeldsneyti svona hræðilega ánetjandi? Þrjú megineinkenni okkar sem dýrategund koma við sögu:

  1. Leti

  2. Söfnunarárátta

  3. Framagirni


Skoðum nú þessi þrjú einkenni hvert fyrir sig.


Leti

Eins og öll hin dýrin í skóginum erum við í grunninn óttalegir letingjar. Af menningarlegum ástæðum hefur hugtakið letimjög neikvæða merkingu en við gætum auðveldlega umorðað fullyrðinguna hér að ofan og sagt að mannskepnan sé afar sparsöm á eigin orku“. Náttúran hefur forritað allar dýrategundir til að fara sparlega með eigin líkamlegu orku.

Flest okkar hafa einhvern tímann horft á dýralífsþætti þar sem hópur ofurafslappaðra ljóna sjást liggja í leti á afrísku sléttunni, eða selir liggja í makindum undir sólskinni á einhverri afskekktri strönd. Flest okkar hafa líka þurft að horfa upp á unglinga gerast sófakartöflur meðan skrollað er hugsunarlaust í gegnum snjalltæki (afar villandi heiti á tæki sem er frekar ólíklegt til að stuðla að snilld hjá börnunum okkar) en þar er um sama fyrirbæri að ræða. Það sem við köllum leti er, líffræðilega séð, aðferð til að spara orku og hámarka þannig lífslíkur.


Margt er líkt með mönnum og dýrum. Menn gerast sófakartöflur en selir gerast „fjörukartöflur“

Allar lífverur á jörðinni þurfa á orku að halda til að lifa af. Sú orka er í formi næringar. En til þess að afla slíka orku þurfa dýr að eyða orku. Ljónið þarf að hlaupa eftir bráðinni til þess að fá síðan orku úr máltíðinni. Ef það eyðir meiri orku í veiðinni en það fær út úr því sem máltíðin gefur, þá getur það ekki lifað af til lengdar. Orka er sem sagt ekki eingöngu vara á markaði eða reikningur í heimabankanum: orka er gjaldmiðill lífsins ‒ án orku er ekkert líf.


Þess vegna hefur mannkynssagan alltaf snúist um að finna nýjar leiðir til þess að gera sömu hlutina með því að nota sem minnst af eigin orku og sem mest af orku úr umhverfinu.

Jarðefnaeldsneyti reyndist vera frábær lausn til að fullnægja þessa löngun: í staðinn fyrir að strita í ökrunum gátum við nú látið vélarnar um að vinna vinnuna fyrir okkur: traktorar, sláttuvélar, heyrúlluvélar, lyftarar, vörubílar, skip og flugvélar. Á síðustu 200 árum hefur framleiðni í landbúnaði margfaldast með 200 þökk sé jarðefnaeldsneyti.


Söfnunarárátta

Þeir okkar sem hafa aðgang að bílskúr (eða hafa einhvern tímann haft) kannast margir við það að stundum á þetta rými til að fyllast af allskonar hlutum sem að jafnaði falla ekki undir skilgreiningu orðsins bíll“. Hér er um annað einkenni mannskepnunnar að ræða: söfnunaráráttan.

Sögulega séð hefur aðgangur að næringu verið ótryggt. Yfir stærstan hluta af mannkynssögunni vorum við veiðimenn-safnarar, sem lifðum á því að veiða villt dýr og safna ætum jurtum. En árangurinn af veiðinni og söfnuninni var afar misjafn og hver máltíð gat verið sú síðasta. Við slíkar aðstæður var eðlilegt að láta sem mest í sig á meðan veiðin gaf vel af sér, til þess að búa í haginn fyrir mögur ár (hamra járnið á meðan það er heitt, segir orðatiltækið). Þess vegna erum við ekki forrituð til þess að gæta hófsemi þegar kemur að næringu og þessi eiginleiki hefur færst yfir á neysluhegðun okkar almennt: meira er alltaf betra.


Slegist um raftæki á „svörtum föstudegi“. Kaupmenn hafa fyrir löngu lært að „virkja“ söfnunaráráttu neytandans

Söfnunaráráttan er, sögulega séð, önnur aðferð til að hámarka lífslíkur. Þetta á sérstaklega við á norðlægum slóðum þar samfélög hafa þurft að aðlagast veðurskilyrðum með því að safna nóg af matvælum yfir sumarmánuðina til þess að vera viss um að lifa veturinn af. Þess vegna eigum við það til að borða meira en við þurfum, vega þyngra en við ættum og kaupa meira en við þurfum, og þess vegna eru stéttarfélögin okkar alltaf að heimta hærri laun jafnvel þótt við séum flest nú þegar hluti af ríkasta 1 prósenti jarðarbúa.


Framagirni

Síðast en ekki síst erum við félagslegar verur og höfum innbyggða löngun til að komast upp í goggunarröðinni, alveg eins og úlfar og simpansar, en félagsleg staða okkar er háð ákveðnum stöðutáknum. Þess vegna förum við í háskólanám og eignumst háskólagráður, þess vegna biðjum við um launahækkanir (sem snúast ekki eingöngu um kaupmátt heldur líka um stöðutákn) og þess vegna viljum við eiga stærri sólpall og flottari heitan pott en nágranninn. Hjá simpönsum hefur forystukarldýrið aðgang að ákveðnum forréttindum: réttinum til að maka sig með kvendýrum hópsins, en hjá homo sapiens veitir forysta aðgengi að fjörlbreyttari forréttindum...


Staða forystukarldýrs hjá simpönsum er afar eftirsótt enda veitir hún aðgang að ákveðnum forréttindum...

Þessir þrír eiginleikar homo sapiens, sem við deilum með aðrar dýrategundir, gera okkur gríðarlega erfitt fyrir þegar kemur að því að segja skilið við jarðefnaeldsneyti, en sá þriðji er ef til vill sá eini sem við getum notfært okkur til að snúa vörn í sókn. Gildismat og stöðutákn breytast í sífellu og eru mjög ólík eftir samfélögum, jafnvel milli ólíkra hópa innan sama samfélags. Sem dæmi um það eru vísbendingar um að meðal íbúa í miðbæ Reykjavíkur (svokallaðir „latte-lepjandi borgarbúar“) sé einkabíllinn ekki lengur það mikilvæga stöðutákn sem það var einu sinni. Þvert á móti örlar á ákveðnu stolti hjá mörgum þeirra, sem hafa meira og minna sagt skilið við einkabílinn og eru jafnvel orðnir meðlimir í hinum fjölmenna Facebook-hópi „Samtök um bíllausan lífsstíl“ (yfir 5300 meðlimir þegar þessi grein er skrifuð).


Við höfum mörg dæmi um samfélög í nútíð og fortíð þar sem gildismat og stöðutákn snerust meira um andleg persónueinkenni, svo sem visku, þekkingu eða umhyggju, og minna um veraldlegar eignir eða orkufreka hegðun. Munkaklaustrar voru dæmi um slíka, meðvitaða höfnun á efnishyggju, en því miður eru slík samfélög yfirleitt ekki þau samfélög sem við horfum upp til og viljum taka sem fyrirmynd.


Milljón-dollara spurningin er því þessi: getum við breytt eigið gildismati og stöðutáknum af sjálfsdáðum eða þurfum við að bíða eftir því að meiriháttar áfall neyði okkur til að breyta um stefnu?


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page