Um höfundinn, eða:
Hvers vegna í ósköpunum er ég að þessu?
Ég er sjálfstætt starfandi blaðamaður með MA-gráðu í frétta- og blaðamennsku frá Háskóla Íslands og sérhæfi mig í umfjöllun um orku- og loftslagsmál. Þegar þessi síða var sett í loftið var ég hins vegar hvorki blaðamaður, né sérfræðingur í loftslagsmálum eða aktívisti. Ég var bara karl sem vaknaði einn daginn og ákvað að kynna sér aðeins betur þessi "loft-slagsmál" sem alltaf var verið að tala um. Ég var svo heppinn að rekast á manneskju sem tókst að útskýra málin með einföldum hætti, en um leið af nákvæmni; að tala af fullri alvöru, en um leið með húmor; að lýsa stöðunni með köldu raunsæi, en um leið með von í hjarta.
Eftir að hafa hlustað og lesið í dágóðan tíma áttaði mig á því hvers vegna ég, og við öll, værum að fljóta sofandi að feigðarósi: að vita af einhverri hættu er ekki það sama og að skilja hana. Viðvörunarorð og dómdagsspár hafa engin áhrif á okkur fyrr en við erum búin að skilja málið af sjálfsdáðum, kryfja það til mergjar og horfa beint í augun á hættunni. Eftir að hafa gert það var ég ekki samur: mér fannst hversdagsleg hugðarefni okkar orðin svo lítilfjörleg og smávægileg í samanburði við þessa ógn. Það varð einhvers konar andlegt skammhlaup sem fékk mig til að líta heiminn allt öðrum augum. Þessi upplifun var um leið frekar einmannaleg: hvert sem ég horfði í kringum mig fannst mér aðrir vera eins og ég hafði verið: sofandi, skeytingarlausir, áhyggjufullir í orði, en ekki á borði.
Fyrir mig var hins vegar ekki aftur snúið: eftir það sem ég hafði séð var ekki hægt að halda lífinu áfram eins og ekkert væri. Ég varð að gera eitthvað. Ég fylltist von um að fyrst einhverjum hafði tekist að vekja mig úr þessum djúpa svefni, hlyti ég sjálfur að geta vakið einhverja til umhugsunar. Nokkrum mánuðum áður en ég upplifði þetta „andlegt skammhlaup“ hafði Svisslendingur, Guillermo Fernandez að nafni, verið í sömu sporum: hvorki vísindamaður, né umhverfisverndarsinni eða aktívisti, sat hann við lestur daginn sem dóttir hans fagnaði 13 ára afmæli sínu. Lestrarefnið var ekki upplífgandi: nýjasta loftslagsskýrsla Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar. Við lestur skýrslunnar upplifði Guillermo samskonar "skammhlaup": hann gat ekki meir. Hann sagði starfi sínu lausu og hóf hungursverkfall á þingtorginu í Bern þar sem hann krafðist að allir þingmenn landsins myndu sækja fræðslunámskeið um loftslagsbreytingar. Eftir 39 daga hungursverkfall og útisetu var Guillermo orðinn 20 kílóum léttari, en að lokum var gengið að kröfu hans. Lítill sigur kannski, en þýðingarmikill.
Sífellt fleiri eru að upplifa þetta skammhlaup, en því miður of fáir enn sem komið er. Því fleiri sem ganga yfir þennan þröskuld, því meiri líkur á að hlutirnir fari að breytast að alvöru. Ég er ekki á leið í hungursverkfall, mitt framlag verður ekki eins dramatískt: það felst í því að hafa umsjón með þessum litla vefmiðli þar sem ég reyni að vekja athygli á þessu máli og miðla ýmsum fróðleik þar að lútandi. Tilgangurinn með þessari síðu er fyrst og fremst að birta efni sem kemur lesendum/áhorfendum að einhverju gagni. Helst vil ég að við lok lestrarins eða áhorfsins hafi notandinn annaðhvort skilið eitthvað sem honum fannst áður illskiljanlegt, eða hafi skemmt sér konunglega (bæði er ennþá betra). Von mín með þessu framtaki er að geta stuðlað að því að sem flestir samborgarar mínir komist yfir þennan þröskuld, og upplifi skammhlaupið sem fyrst.
Aðgangur að síðunni er opinn öllum en ég hvet alla til að styrkja verkefnið í gegnum þartilgerða síðu á Patreon. Hugmyndin með þessu fyrirkomulagi er að ég geti gert loftslagsblaðamennsku að aðalstarfi mínu, og við það gæti vefsíðan orðið, vonandi, enn betri og gagnlegri.