top of page
Search
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Hversu mörg stríð þangað til við bregðumst við?

Updated: May 25, 2022


Stríðið hans Pútíns minnir Evrópu óþægilega á því hvernig skortur á framsýni, skipulagningu og hugrekki varðandi orkustefnu og orkuöryggi hefur gert hana berskjaldaða og máttlausa á alþjóðasviðinu. Þetta stríð minnir okkur líka á því að orkuskiptin eru tvíhliða verkefni: við erum annars vegar að glíma við orkuöryggi og -sjálfstæði gagnvart yfirvöldum sem eru að haga sér á mjög vafasaman hátt gagnvart eigin þjóð og öðrum þjóðum, og hins vegar við þær afleiðingar sem brennsla jarðefnaeldsneytis hefur á loftslagið.



Erum sterklega háð öðrum þjóðum um orku.


Í Vestur-Evrópu eru aðeins þrjár þjóðir sem framleiða jarðefnaeldsneyti í einhverju magni: Holland, Bretland og Noregur, en sú framleiðsla nær aðeins að seðja um 30% af eftirspurn Evrópuþjóða, og hún er þar að auki í rérun af jarðfræðilegum ástæðum (lesist: er að klárast). Hin 70% eru flutt inn frá Afríku, Miðausturlöndum, Ameríku og síðast en ekki síst frá Rússlandi sem skaffar 27% af hráolíunni og 41% af gasinu sem Evrópa notar (2019).






Stærsta þjóð Evrópu, Þýskaland, flytur inn 66% af gasinu sínu frá Rússlandi og 34% af olíunni sinni.



Frelsum sjálfum okkur til að hafa betri stjórn á utanríkisstefnu okkar og skapa störf heima fyrir


Hvað kemur í veg fyrir að við losum okkur við jarðefnaeldsneyti? Við Íslendingar erum nú að flytja inn eldsneyti fyrir yfir 1 milljarð króna á ári hverju, eða 1,5 milljón tonna á ári (meira en helmingurinn af því er þotueldsneyti). Þar með er jarðefnaeldsneyti sú vara sem mest er flutt af til landsins, hvort talið er í krónum eða tonnum, og sá innflutningur hefur um það bil tvöfaldast á síðustu 10 árum (ef Covid-árin eru undanskilin). Allt eru þetta peningar sem fara í vasa annara, í staðinn fyrir að búa til störf hér á landi. Það er bara val um tvennt fyrir okkur Evrópubúa: annað hvort búum við til metnaðarfullt plan eða við sættum okkur við að aðrir stjórni framtíðina okkar. En því lengur sem við bíðum, því erfiðara verður að fara í þessi umskipti.


Þegar þessi orð eru skrifuð hefur olíuverð tvöfaldast á síðustu 12 mánuðum og hefur aldrei verið hærra síðan 2008. Verð á gasi í Evrópu hefur sexfaldast á síðustu 6 mánuðum. Í framtíðinni mun framboð á olíu og gasi dragast enn frekar saman og verðin að öllum líkindum hækka enn frekar, og krísurnar sem því fylgja verða enn alvarlegri. Til þess að verja viðkvæmustu heimilin hafa stjórnvöld í mörgum löndum Evrópu nú þegar gripið til þess ráðs að niðurgreiða hluta af orkukaupum heimila. Slíkar aðgerðir geta hjálpað heimili til skamms tíma en jafngilda því fyrir ríkin að niðurgreiða stríð Pútíns í Úkraínu. Hvers vegna ekki að láta utanríkisstefnu og orkustefnu fara hönd í hönd, og slá þannig tvær flugur í einu höggi? Því þar liggur stóri vinningurinn fyrir þær þjóðir sem munu ná fyrst af öllum að losa sig við jarðefnaeldsneyti: að standa við Parísarsamkomulagið, og þannig minnka líkur á bæði loftlagshamförum og stríðsátökum í framtíðinni.


Hvers vegna ekki að vera virkilega metnaðarfull? Við höfum þrjú tæki til að minnka olíunotkun okkar: orkuskipti, aukin skilvirkni í orkunotkun (minni sóun) og nægjusemi (minni orkuneysla). Við munum þurfa á öllum þremur að halda, og við verðum að vera tilbúin til að gefa eitthvað eftir af okkar þægindum, því stór hluti af þessum þægindum er byggður á ofgnótt af ódýrri, kolefnislosandi orku.


Það er að minnsta kosti tvennt sem við getum gert strax til að draga úr olíunotkun: 1- Flýta banni á nýskráningu dísel- og bensínbíla og hækka skilagjald á olíuknúnum ökutækjum til að hvetja eigendur eldri bíla til að endurnýja ökutækin sín og skipta um leið um orkugjafa.

2- Takmarka flugumferð á Keflavíkurflugvelli og fara strax í heildarendurskipulagningu á ferðaþjónustunni: ferðaþjónustan eins og við þekkjum hana í dag er byggð á jarðefnaeldsneyti þar sem langstærsti hluti ferðamanna kemur hingað með flugvél. Þar eru ýmsar leiðir til að bæta úr: að þróa skipaferðir í stað flugferða (ef rétt er farið að geta skipaferðir verið miklu sparneytnari á eldsneyti heldur en flug), að leggja áherslu á fáar, en lengri ferðir frekar en tíðar og stuttar ferðir fyrir Íslendinga jafnt og erlenda ferðamenn, að hvetja Íslendinga til að ferðast sjaldnar utanlands og oftar innanlands ("ferðumst innanlands"-átakið í Covid-faraldrinum er sönnun þess að við getum þetta ef viljinn er til staðar).


En fyrst og fremst þurfum við þaulhugsað langtímaplan um endurskipulagningu hagkerfisins samkvæmt tveimur markmiðum: frelsi frá jarðefnaeldsneyti annars vegar og orkuöryggi og -sjálfstæði hins vegar. Sú áskorun er líklega sú stærsta sem við Íslendingar og Evrópubúar höfum nokkurn tímann staðið frammi fyrir og umskiptin munu ekki gerast á einni nóttu, og þess vegna þurfum við langtímaplan. Í dag er þetta plan ekki til. Vonum að þetta stríð verði til þess að við opnum augun og bregðumst loksins við.


39 views0 comments
Post: Blog2_Post
bottom of page