top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Mun bensínverð halda áfram að hækka?





Verð á bensínlítranum er komið yfir 320 krónur þegar þessi grein er skrifuð og hefur aldrei verið hærra. En hvað næst? Eru þetta bara tímabundnar aukaverkanir í kjölfar Covid-faraldursins og Úkraínustríðsins, eða eru önnur öfl að verki sem munu þrýsta upp verðið enn frekar til langs tíma? Og hvernig endar þetta allt saman?


Margar áleitnar spurningar sem vakna. Bara að maður hefði aðgang að góðri kristalskúlu. Það er hættuleg iðja að reyna að spá fyrir um framtíðina, en ef maður ætlar á annað borð að gera það, er gott að þekkja fortíðina. Í þessu tilfelli þarf að rýna í sögu orkuiðnaðarins, og olíuiðnaðarins sérstaklega: gangverk hans og tengsl við hagkerfið í gegnum söguna.



Olían og hagvöxturinn: bestu vinir í heimi?


Um orkuvinnslu og hagkerfi er hægt að segja eitt: stærð heimshagkerfisins er nánast í beinu hlutfalli við orkuframleiðslu í heiminum. Meiri orkuframleiðsla þýðir meiri hagvöxtur og minni orkuframleiðsla þýðir samdráttur. Þetta á sérstaklega við um olíu, sem er æðarkerfi framleiðslunnar: þrátt fyrir allt tal um orkuskipti er hagkerfi heimsins í dag algjörlega háð olíu þegar kemur að námugreftri, vöruflutningi, landbúnaði, samgöngum og framleiðslu ýmissa vara sem eru unnar úr olíu.


Hagvöxtur (GDP per capita) er nánast í beinu hlutfalli við vöxt olíuframleiðslu í heiminum. Heimild: Jancovici.com

Sem sagt, framleiðslumaskínan getur ekki gengið nema í hana sé hellt olíu. Þetta hafa ráðamenn helsta olíuríkis heims, Bandaríkjanna, skilið fyrir löngu. Og af þessu hafa þeir lengi haft áhyggjur, fyrst eftir að Bandaríkin gerðust í fysta sinn nettó-olíuinnflytjendur árið 1950 þegar innanlandsframleiðsla gat ekki lengur annað eftirspurn, og sérstaklega eftir að olíuframleiðsla þeirra fór að dala upp úr 1970.





Harold Ickes, innanríkisráðherra í ríkisstjórn F.D. Roosevelt, var einn af þeim fyrstu til að hringja viðvörunarbjöllur undir lok seinni heimsstyrjaldar. Í ágúst 1943 skrifar hann í bréfi til Roosevelts:

"Fyrir utan sigur í stríðinu er staðan í olíumálum í heiminum helsta áskorun okkar sem þjóð."

Árið eftir birtir Harold Ickes grein í alþýðutímaritinu American Magazine undir fyrirsögninni: "Olían er að klárast!" ("We're running out of oil!"). Þar skrifar hann: "Ef þriðja heimsstyrjöldin yrði að veruleika, þyrftum við að vinna hana með olíu einhvers annars, því Bandaríkin hafa hana ekki. Kóróna Ameríku, tákn æðsta yfirráðs hennar sem olíuheimsveldi, er að renna niður á ennið hennar (...) Við þyrftum helst að eiga aðgang að olíu á hinum ýmsum svæðum heims. (...) Tíminn til að hefjast handa er núna."


Harold Ickes, innanríkisráðherra, F.D. Roosevelt í bakgrunni.


Olían vinnur stríðið


Sigur Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í stríðinu hafði mikið með olíuna að gera: bæði Bandaríkin og Bretland höfðu góðan aðgang að olíu til að knýja stríðsvélina sína, en óvinirnir Þýskaland, Ítalía og Japan áttu hana ekki heima fyrir og voru þar af leiðandi mjög háðir olíuinnflutningi. Í ljósi þess telja sumir sagnfræðingar að eina von Nasista og bandamanna þeirra til að vinna stríðið hafi verið að ná yfirráðum yfir olíulindir í upphafi stríðsins, sem þeir og reyndu en áttu ekki erindi sem erfiði.

Þjóðverjar áttu í svo miklum vandræðum með eldsneyti að þeir gripu til þess ráðs að framleiða eldsneyti úr kolum allt frá árinu 1936 (Þýskaland er rík af kolum). Aðferðin til þess, kölluð Fischer-Tropsch ferlið, var kostnaðarsöm og orkufrek, gæði eldsneytisins voru slöpp og sú framleiðsla skilaði aldrei það magn sem þjóðverjar þurftu á að halda.


Undir lok stríðsins gripu Japanir til þess ráðs að senda flugmenn í sjálfsmorðsárásir þar sem hinir svonefndu Kamikaze-flugmenn flugu vélarnar sínar beint í skip óvinarins í stað þess að sprengja þau úr lofti. Það gleymist stundum að nefna varðandi þann kafla sögunnar að eldsneytisöflun Japana hafði minnkað um helming árið 1944 miðað við árið þar á undan, og þar sem erfitt var að þjálfa nýja flugmenn vegna eldsneytisskorts kunnu margir af þessum nýjum flugmönnum varla að lenda flugvél. Þar að auki voru Kamikaze-árásirnar ágætis leið til að spara eldsneyti: flugmennirnir þurftu þá helmingi minna eldsneyti þar sem þeir myndu hvor sem er aldrei snúa til baka. Árið 1945 gátu japanskar flugvélar aðeins flogið um 2 klukkutímar á mánuði að meðaltali vegna eldsneytisskorts, og þá var messan sögð:

Sá sem átti olíuna vann stríðið.


Kiyoshi Ogawa, 22, einn af tveimur Kamikaze-flugmönnum sem flugu vélina sína í USS Bunker Hill flugmóðurskipið.


Bandaríkin og Sádarnir: líka bestu vinir í heimi?


En á þessum tíma var olíuleit í Bandaríkjunum farin að skila sífellt minna af stórum olíulindum og þess vegna taldi Harold Ickes að sá tími væri kominn til að horfa út fyrir landsteinana. Árið 1943 hafði Ickes þegar sent besta olíujarðfræðing landsins, Everette DeGolyer, í könnunarleiðangur til Sádí-Arabíu til að leggja mat á olíulindir sem þar voru að finna. Tölurnar í skýrslu DeGolyer reyndust svimandi háar, gígantískar og umfram björtustu vonum ráðamanna í Washington: alla vega 25 og kannski allt upp í 100 milljarðar tunna, eða að minnsta kosti fjórum sinnum það magn sem bandarísk olíufyrirtæki höfðu yfir að ráða um allan heim! DeGolyer sendir Washington skeyti:

"Olían á þessu svæði er stærsti fjársjóður mannkynssögunnar"

Tveimum vikum seinna lýsir Roosevelt Bandaríkjaforseti yfir fyrir alþjóð:

"Varnir Sádí-Arabíu eru lífsnauðsynlegar fyrir varnir Bandaríkjanna..."


Þetta var upphafið að löngu ástarsambandi milli ráðamanna Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu sem varir enn í dag, áttatíu árum síðar. Ástin er blind, eins og máltækið segir...


Roosevelt hittir Konung Sádí-Arabíu Abdul Aziz árið 1945 um borð í USS Quincy og fór vel á með þeim. Þetta er í fyrsta skipti sem bandarískur forseti hittir konung Sádí-Arabíu, en alls ekki síðasta.



1945-1970: Gullöld olíunnar


Næstu 25 árin eftir stríð eru gullöld olíunnar. Stórar olíulindir hafa fundist víðast hvar um heiminn og vinnsla þeirra er ódýr. Á bestu olíusvæðum í miðausturlöndum kostar olíuvinnsla jafn lítið og að bora eftir vatni. Þetta tímabil einkennist af miklum hagvexti á Vesturlöndum, enda eykst olíuframleiðsla um u.þ.b 10% á ári hverju. Ríkisfjármál sem og fjármál borgaranna njóta góðs af því, kaupmáttur eykst um leið og velferðarríkið eflist til muna. En á áttunda áratugnum verða blikur á lofti: eftir1970 byrjar olíuframleiðslan í Bandaríkjunum að dala í fyrsta skipti í sögu svarta gullsins og tvær olíukreppur fylgja í kjölfarið árið 1973 og 1979. Þetta markar nýtt tímabil í sögu olíunnar: olíuverð, sem hafði hingað til verið nokkuð lágt og stöðugt, verður hærra og sveiflukenndara, verðbólga fer af stað ásamt atvinnuleysi og skuldsetning ríkja.




Eftir að gullöld olíunnar lýkur verður hagvöxturinn aldrei eins kröftugur en hann hafði verið. Ráðamenn koma og fara, sumir hægrisinnaðir og þykjast geta örvað hagkerfið með skattalækkunum og afregluvæðingu, en uppskera lítið annað en skuldsetningu og fjármálakrísur. Aðrir eru til vinstri og þykjast örva hagkerfið í gegnum velferðarkerfið en uppskera lítið betur. Enn aðrir og samviskulausari stjórnmálamenn boða útlendingaandúð og einangrunarstefnu, en hún virkar ekkert frekar.

Framleiðslukerfi heimsins samanstendur af vélum og tækjum sem ganga fyrir orku. Hvorki skattalækkanir, velferðarkerfi, né landamæri geta komið í stað orku. Það sem skýrir lítinn hagvöxt á árunum eftir 1970 miðað við tímabilið þar á undan er fyrst og fremst takmarkað aðgengi að olíu, en það hægir verulega á vexti í olíuframleiðslu á því tímabili:


Þróun olíuframleiðslu í heiminum. Frá 1945 til 1970 tífaldast framleiðslan. Frá 1970 til 2005 eykst hún aðeins um ca. 30%
Vöxtur í heildarorkuframboði á mann. Árin 1970-80 marka þáttaskil. Heimild: Jancovici.com


Þreifað í átt að orkuskiptum, en framleiðsluvélin hikar


Til þess að bregðast við minni vöxt í olíuframleiðslu á áttunda áratugnum grípa fyrirtæki og stjórnvöld til ýmissa ráða: í fyrsta lagi verða einhver framför í orkunýtni og í öðru lagi er fjárfest í aðra orkugjafa sem geta á einhverjum sviðum komið í stað olíu: húshitun með gasi frekar en olíu verður til dæmis algengari, og mörg tækifæri liggja í raforkuvinnslunni, en það reynist tiltölulega auðvelt að skipta út olíuver fyrir gasver, kolaver, vatnsaflsvirkjanir eða kjarnorkuver (sólar- og vindorka koma einnig við sögu en í minna mæli). Þannig tekst að minnka hlut olíunnar í heildarorkuöflun úr 47% árið 1970 niður í 37% árið 2010:



Hlutfall mismunandi orkugjafa í heildarorkuöflun í heiminum. Olían minnkar hlutfallslega en framleiðsla hennar heldur þó áfram að aukast í tunnum talið.


En þar sem hagkerfi heims heldur áfram að stækka og kallar þannig eftir sífellt meiri orku þarf samt sem áður að finna og dæla upp meiri olíu með hverju árinu sem líður. Olían er allsráðandi í vöru- og fólksflutningum en þar er erfiðara að skipta hana út fyrir aðra orkugjafa.



Skopparaboltaáhrifin: Alaska og Norðursjór


En olíukreppurnar og hátt olíuverð á áttunda áratugnum hafa líka aðra afleiðingu: olíuiðnaðurinn hefur þann sérstakan eiginleika að á meðan hagkerfið og flestar greinar innan þess þjást og kveinka sér undan hátt eldsneytisverð, gengur honum prýðilega vel (þökk sé þessu sama háa eldsneytisverði og himinháum hagnaðartölum sem það skilar). Olíukreppa er einhvers konar í hvalreki fyrir olíufélög, og virkar sem öflugur hvati fyrir þau til að fjárfesta í olíuleit á nýjum svæðum. Það er nákvæmlega það sem gerist á áttunda áratugnum, en hagnaðurinn af háu olíuverði nota olíufélögin til að fjárfesta í leit og vinnslu á nýjum olíusvæðum: fyrst og fremst í Alalska og Norðursjó. Bandaríkjamenn höfðu lengi vitað að mikil olía væri að finna í Alaska en vinnsla hennar þótti ekki hagvæm á meðan olíuverð var lágt, þar sem fjarlægð og erfið veðurskilyrði gerðu vinnsluna kostnaðarsama. Sama má segja um olíuvinnslu í Norðursjó.

En þetta breyttist með hækkun olíuverðs eftir 1970. Tunnan sem hafði kostað um og í kringum 20 dollarar (miðað við núvirði dollarsins) síðustu 100 árin hækkaði allt í einu upp í 50 dollarar í fyrri olíukreppu og aftur upp í 100 dollarar í seinni orkukreppu! Tími ódýrrar olíu var liðinn. Böl fyrir neytandann en blessun fyrir olíufélögin. Bygging Alaska-olíuleiðslunnar á árunum 1974-77 var ein stærsta áskorun fyrir olíuiðnaðinn á þessum tíma: hún var 1300 km að lengd (frá Prudhoe Bay olíusvæðinu við norðurströnd Alaska til Valdez hafnarinnar við suðurströnd fylkisins). Ólíkt öðrum olíuleiðslum var hún ekki niðurgrafin heldur látin hvíla á tugi þúsunda sjálfkælandi undirstaðna til að koma í veg fyrir að olían í leiðslunum myndi bræða jarðveginn undir sér og síga þannig með honum.



Alaska olíuleiðslan sem flytur olíu þvert í gegnum Alaska-fylki.


Olíuleit í Norðursjó hófst á sjöunda áratugnum en olía fannst þar fyrst árið 1969 á Ekofisk olíusvæðinu í landhelgi Norðmanna. Það er þó ekki fyrr en 1975 sem Norpipe olíuleiðslan er lögð á hafsbotninum á milli Ekofisk olíusvæðisins og Teesside hreinsunarstöðvarinnar á austurströnd Englands. Bretar uppgötva hins vegar Forties olíusvæðið meðal annara og láta leggja olíuleiðslu til Cruden-bay rétt við Aberdeen í Norður-Skotlandi árið 1975. Vinnsla olíu úr Norðursjó, kölluð Brent olía, mun reynast tíu sinnum dýrari en vinnsla Arabian light olíu frá Sádí-Arabíu.




1980-2000: stund milli stríða


Alaska og Norðursjór eru helsti jókerinn gegn yfirvofandi olíuþurrð í lok tuttugustu aldar. Þau munu þó reynast skammgóður vermir: framleiðsla Alaska nær hámarki árið 1988, aðeins 10 árum eftir að hún hófst, og byrjar að dala hratt eftir það. Í dag er hún aðeins 25% af því sem hún var þegar best lét. Framleiðsla Norðmanna og Breta í Norðursjó nær hámarki um 1998 og er í dag aðeins 50% af því sem hún var á árunum 1990-2000.

Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 opnast hins vegar ný tækifæri fyrir olíuiðnaðinn: framleiðsla Sovétríkjanna hafði dalað mikið á síðustu árum en Boris Yeltsín lætur einkavæða olíuframleiðsluna (eða afhenda henni einkavinum réttara sagt) og eftir það tekur framleiðslan hressilega við sér og vegur að einhverju leyti upp á móti rýrnun í Alaska og Norðursjó.

Eftir erfið ár og mikla verðbólgu á áttunda áratugnum fer olíuverð loksins lækkandi aftur á níunda áratugnum, þökk sé Alaska, Norðursjór, Rússlandi og Sádí-Arabíu, og verður nokkuð stöðugt í kringum 30 dollarar tunnan.



Dagar ódýrrar olíu liðnir: hráolíuverð hækkar aftur


En við aldamót virðist staðan aftur orðin erfið: til þess að hagræða grípa olíurisarnir til þess ráðs að sameinast. Tvö af stærstu olíufélögum heims, Exxon og Mobil, mynda samruna árið 1998. Við kynningu samrunans lýsir forstjóri Mobil yfir nýjum veruleika:

"Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann. Heimurinn hefur breyst. Auðveldu dagarnir eru liðnir. Auðveld olía, auðveldur sparnaður, það er búið!"

Baráttan heldur áfram. Úti á sjó heldur leitin áfram, alltaf lengra, alltaf dýpra. Vinnsla í Norðursjó hafði reynst tæknilega erfið og hættuleg: olíupallurinn Piper Alfa, sem stóð á risastórum stálsúlum festar við steypta undirstöðu á hundrað metra dýpi, springur í loft upp árið 1988: 167 verkamenn látast í slysinu. Og nú þarf að fara enn dýpra: nýjir og enn kostnaðarsamari olíupallar af fljótandi gerðinni eru rígbundnir við hafsbotninn við vesturstrendur Afríku og langt út frá ströndum Texas-fylkis. Árið 2000 hefst vinnsla við Hoover-Diana olíusvæðið, sem liggur 1500 metrar undir yfirborði sjávar, og við lok áratugarins fer mesta dýpt yfir 2500 metrar fyrir utan dýpt borholunnar sjálfrar. Stundum verður hæðarmunur frá olíusvæðinu og upp að olíupallinum meiri en sem nemur hæð Everest fjallsins.



Alltaf lengra, alltaf dýpra. En sjófimmleikar olíuiðnaðarins duga ekki til að vega upp á móti rýrnun í hefðbundinni olíuvinnslu. Árið 2004 er olíuverð aftur komið yfir 50 dollarar og fer sífellt hækkandi næstu árin þar á eftir. Verðbólga fer aftur af stað og seðlabankar hækka vexti. Vítahringurinn endar í skuldakreppuna sem við munum vel eftir árið 2008 og þar á eftir. Olíuverð fer alla leið upp í 150 dollarar rétt fyrir hrun fjármálakerfisins, en hrynur aftur niður í 40 dollarar á verstu dögum kreppunnar, þar sem kreppan dregur úr eftirspurn.


Skopparaboltaáhrifin endurtekin: móðurbergsolían í Texas og Dakóta


Og þá heldur hringrásin áfram: alveg eins og hátt olíuverð á áttunda áratugnum hafði hvatt olíuiðnaðinn til dáða og fædd af sér olíuvinnsla í Alaska og Norðursjó, virkar hátt olíuverð á árunum 2004-2008 og aftur eftir 2010 sem dópamín fyrir iðnaðinn: olíufyrirtækin finna sinn næsta jóker: móðurbergsolíu í Bandaríkjunum og olíusandar í Kanada. Aðferðir við vinnslu móðurbergsolíu (e. "shale oil" eða "tight oil") voru þekktar fyrir en sú vinnsla hafði ekki þótt hagkvæm hingað til enda kostnaðarsöm, plássfrek og vatnsfrek.


Móðurbergsolía er einhvers konar óþroskuð hráolía sem hefur enn ekki náð að yfirgefa móðurbergið til að setjast að í gljúpari jarðlög þar sem hana er auðveldara að sækja. Til þess að vinna hana þarf að bora láréttar borholur og inn í þær þarf fyrst að dæla efnablandað háþrýstivatn með sandi til þess að losa um olíuna sem liggur í þunnum lögum klemmd inni í móðurberginu. Þá er hægt að dæla olíunni upp á yfirborðið, en sú olía er léttari og orkuinnihald hennar lægra en af hefðbundinni olíu. Slíkar borholur gefa mest af sér strax eftir upphafi vinnslunnar en framleiðslan fer síðan að dala mjög fljótlega. Til þess að viðhalda framleiðslunni þurfa verktakarnir þess vegna að bora sífellt fleiri holur, en til að fá sama magn af olíu og úr hefðbundinni borholu þarf að bora 100 til 200 láréttar borholur. Þrátt fyrir það hefur vinnsla móðurbergsolíu farið fram úr björtustu vonum sérfræðinga í olíuiðnaðinum. Með henni ná Bandaríkjamenn að snúa stöðunni við eftir 2010: framleiðslan fer að aukast á ný eftir 40 ára samdrætti og verður jafnvel meiri en hún var þegar hámark hefðbundinnar olíuvinnslu náðist árið 1970:




Olíusandar í Kanada eru hin vonarstjarna olíuiðnaðarins í Norður-Ameríku. Sú vinnsla er þó afar orkufrek og kostnaðarsöm og líkist meira námuvinnslu heldur en hefðbundinni olíuvinnslu. Árið 2011 tilkynnir forsætisráðherra Kanada Ben Harper að þjóð hans er hætt við að standa við skuldbindingar sínar úr Kyoto-samkomulaginu, sem Kanada hafði þó verið aðili að síðan 1997 og hafði það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Himinhátt olíuverð árin á undan höfðu reynst of freistandi: olíusandarnir í Alberta eru fjársjóður sem Kanada vill ekki láta framhjá sér fara. Á meðan fjallafuruglyttan drepur milljónir hektara af furuskógum sökum hlýnandi loftslags við fullkomið afskiptaleysi stjórnvalda, eru skógar við Athabasca-ána felldir til þess að ryðja veginn fyrir risaskurðgröfur og 400-tonna trukka Exxon, Shell, BP og annara olíurisa.





Pappakassinn utan um Kornflakes-ið


Móðurbergsolían og olíusandarnir eru síðasta von olíuiðnaðarins í norður-Ameríku. Í Rússlandi er kapphlaupið að beinast í áttinni að Norður-Íshafinu. Fullkomin kaldhæðni örlaganna: bráðnun íssins á norðurskautssvæðinu, af völdum loftslagsbreytinga, gæti gert manninum kleift að sækja þangað nýjar olíulindir. Sú vinnsla er þó talin tæknilega mjög erfið og ef af henni verður telur Alþjóða Orkumálastofnun (AIE) að vinnsla mun ekki hefjast að fullu fyrr en eftir 2040.

Árið 2008 náði hefðbundin olíuvinnsla hámarki á heimsvísu samkvæmt Alþjóða Orkumálastofnun og mun héðan í frá dragast sífellt saman. Móðurbergsolían virðist hafa bjargað málunum hingað til og komið í veg fyrir meiriháttar olíukreppu, en hversu lengi dugar hún?

Richard Miller, fyrrverandi stjórnandi í olíuleitardeild BP (British Petroleum), lætur kímnigáfuna vaða í viðtali við The Guardian: "Við erum eins og rottur í búri á rannsóknarstofu, sem hafa klárað allt Kornflakes-ið en eru að uppgötva að það er líka hægt að éta pappakassan utan um það."


Tveir mikilvægir þröskuldar eru þegar að baki í sögu olíuvinnslunnar. Hámarkið í hefðbundinni framleiðslu náðist árið 1970 í Bandaríkjunum og 2008 á heimsvísu. Næsti og síðasti þröskuldurinn er hámarkið í heildarframleiðslu á heimsvísu (e. "Peak Oil"): hvenær stígum við yfir þann þröskuld, og hvernig lítur heimurinn út hinum megin við spegilinn?


Bandaríski eðlisfræðingurinn Robert Hirsch, fyrrverandi stjórnandi hjá Exxon, var fenginn af Orkumálastofnun Bandaríkjanna í ríkisstjórn Busch yngra til að reyna að svara þessari spurningu. Árið 2005 skilar Hirsch af sér skýrslu. Samkvæmt honum og samhöfundum hans mun olíuframleiðsla á heimsvísu ná hámarki um 2025 og kannski fyrr. "Til að búa okkur undir þessu þurfum við að minnsta kosti tíu ár, með þeim skilyrði að við setjum okkur þegar í stað stranga neyðaráætlun. Eftir því sem við nálgumst toppnum ("Peak Oil") mun eldsneytisverð hækka og verða sveiflukenndara, og ef ekki er farið í undirbúningsaðgerðir nógu snemma og á réttum skala mun efnahagslegur, félagslegur og pólítískur kostnaður vera fordæmislaus."

Skýrslan endar svo á þessum varnaðarorðum:

"Hnignun olíunnar verður brattur og byltingarkenndur atburður."


En þessi skýrsla Hirsch var yfirmönnum hans ekki að skapi. Skýrslan er geymd í skúffu og Hirsch beðinn um að vinsamlegast snúa sér að einhverju öðru. Nokkrum árum síðar gefur Hirsch út bók undir titlinum: "The impending world energy mess: what it is and what it means to you."




Homo petroleum: endalok jarðolíualdarinnar?


Til skamms tíma er móðurbergsolían síðasta von Homo Petroleum. Hún er pappakassinn utan um Kornflakes-ið. En þar eru líka blikur á lofti: sú vinnsla hefur hingað til verið rekin með tapi og hefur safnað skuldum. Eina leiðin fyrir iðnaðinn til að skila arði virðist vera að hægja á framleiðslunni, svo mótsagnarkennt sem það kann að hljóma: til þess að viðhalda framleiðslunni þarf að fjárfesta í sífellt fleiri borholur og hagnaðurinn hverfur við það. Eftir Covid-faraldrinum hafa fyrirtækin í þessum iðnaði verið treg til að ræsa framleiðsluna að fullu og kosið frekar að viðhalda arðsemi, sem gæti skýrt að hluta hækkandi olíuverð. Sumir spekingar eru afar svartsýnir á framtíð móðurbergolíunnar, eins og þessi grein úr Wall Street Journal ber með sér:


Með öðrum orðum, það er eitthvað eftir af pappanum, en kannski ekki nóg fyrir alla...




Lokaorðin: og hvað með bensínverðið þá?


Með þessa sögu í huga getum við spurt okkur aftur þessa sömu spurningu: mun bensínverð halda áfram að hækka?

Af öllu ofantöldu ætti að sjást að nýleg hækkun eldsneytisverðs er alls ekki óvenjuleg í ljósi sögunnar. Hún er heldur ekki eingöngu skammtímaafleiðing af Úrkaínustríðinu eins og margir blaðamenn virðast halda (olíuverð hafði nú þegar hækkar um 30% á þremur mánuðum áður en innrásin hófst).

Til að gera langa sögu stutta er alls ekki ólíklegt að hækkanirnar haldi áfram, en ekki endalaust. Hátt olíuverð leiðir til verðbólgu, verðbólga leiðir til vaxtahækkunar, en heimili, fyrirtæki og ríki þola ekki endalaust hækkandi kostnað. Á endanum mun eitthvað bresta, eins og gerðist 1973, 1979 og 2008.

Spurningin er bara hvenær.











Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page