top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

EinræðisherranVið búum í lýðræðisríki. Það þýðir að loftslagsaðgerðir verða ekki að veruleika nema með stuðningi meirihluta kjósenda. En það getur verið skemmtileg hugarleikfimi að ímynda sér hvernig einræðisherra, sem þarf ekki að taka tillit til afstöðu kjósenda, gæti farið að því að þröngva í gegn aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.


Við Íslendingar erum eyjaskeggjar og um eyjaskeggja má kannski segja almennt að þeir séu meðvitaðri um það að náttúruauðlindir eru takmarkaðar. Eyja er mjög afmarkað landsvæði umkringt sjó. Það landsvæði er ekki hægt að stækka með því að fara í landkönnunarleiðangur eða jafnvel stríð við nágranna handan landamærunum. Það verður að láta það nægja sem finnst á eyjunni, og til þess að það dugi sem lengst þarf að fara sparlega með auðlindirnar. Þessi sjálfsögð skynsemi hefur kannski ekki alltaf verið ofan á í gegnum Íslandssöguna, en í tilfelli fiskveiða hefur hún verið til staðar. Lengi vel voru veiðiaðferðir og búnaður þess eðlis að varla gátu menn stundað ofveiði jafnvel þótt þeir vildu, en með tilkomu olíuskipa og afkastameira veiðibúnaðar breytist myndin. Hættan á ofveiði var orðin raunveruleg um miðja tuttugustu öldina. Íslendingar höfðu þá vit á því að setja sér mörk og tileinka sér nægjusemi í fiskveiðum. Nægjusemi snýst um það að setja sér mörk í dag til þess að eiga eitthvað eftir í framtíðinni. Sú nægjusemi birtist þá í formi kvótakerfis: Íslendingar leifðu sér að veiða ákveðið magn af fiski árlega en ekkert umfram það.

Einræðisherra sem vildi láta okkur fara sömu leið í loftslagsmálum gæti fengið innblástur úr þessari sögu og hannað kvótakerfi utan um losun gróðurhúsalofttegunda. Til þess að ná markmiðunum úr Parísarsamkomulaginu þarf losun í heiminum að vera komin niður fyrir 1,5 tonn á mann árið 2050. Hinn mikli leiðtogi gæti þá úthlutað hverjum og einum Íslendingi 1,5 tonna kvóta sem hver og einn gæti þá ráðstafað að vild. Betra enn, hann gæti skipt út hefðbundnum krónum fyrir "íslenskar kolefniskrónur": verðlagning á vöru og þjónustu væri þá í beinu hlutfalli við losunina sem hún veldur. Í staðinn fyrir launaseðil í hefðbundnum krónum fengjum við þá "íslenskar kolefniskrónur" í laun (skammstöfun iskk), segjum til dæmis 400.000 kolefniskrónur á mánuði. Aðferðin til að reikna út verðlagningu vöru og þjóunustu í slíku kolefnishagkerfi er mjög einföld: með því að taka kolefnisspor viðkomandi vöru eða þjónustu og margfalda það með 3200 fæst verðið í kolefniskrónum. Dæmi: vara sem hefur kolefnisspor upp á 125 kg Co2-ígilda (sem er akkúrat mánaðarkvótinn miðað við 1,5 tonn á ári) mundi þá kosta 3200 x 125 = 400.000 kolefniskrónur, sem væru akkúrat mánaðartekjur meðaleinstaklings. Þannig gæti enginn losað meira en kvótinn segir til um (125 kg á mánuði).

En hvað myndu hlutirnir kosta þá, í kolefniskrónum talið? Hvernig lítur innkaupakarfan út í kolefnishagkerfinu? Lesandinn er hvattur til að spenna beltið og halda sér fast áður en áfram er haldið.


1- Matur og drykkur


500 ml af vatni: 1 iskk (íslensk kolefniskróna)

500 ml af vatni í plastflösku: 640 iskk

Bjórdós 1600 iskk

Vínflaska frá Frakklandi 4480 iskk


Skál af hafragraut 400 iskk

1 kg af gulrótum (íslenskar) 96 iskk

1 kg af gulrótum (innfluttar) 320 iskk

1 kg af kartöflum (íslenskar) 896 iskk

1 kg baunir 960 iskk

1 kg af bönunum 2144 iskk

250 g jarðarber (íslensk) 1600 iskk

250 g jarðarber (innflutt) 11.680 iskk

Brauð (800 g) 1600 iskk

1 kg þorskur 3200 iskk

1 lítri kúamjólk 6400 iskk 1 lítri haframjólk 3200 iskk

12 egg 5120 iskk

1 kg kjúklingur 9280 iskk

250 g af osti 9600 iskk

Hamborgari 10.240 iskk

Lambalæri 134.000 iskk


Góðar fréttir: vatnið er áfram ódýrt (2 krónur lítrinn), eða að minnsta kosti vatnið úr krananum því 500 ml vatnsflaska úr plasti kostar 640 iskk en það er framleiðslan á plastinu og flutningurinn á flöskunni sem hækka kolefnisspor vatnsins í þessu tilfelli. Bjórdós er nokkuð dýr (1600 iskk) en rauðvín er á svipuðu róli og það var í gamla kerfinu (4000-5000 iskk flaskan), svo að vínunnendur geta andað léttar.


Matur er hins vegar almennt nokkuð dýrari en hann var í gamla krónuhagkerfinu en þó í mismiklu mæli: kornvörur, baunir, fiskur, grænmeti og ávextir hafa flest hækkað aðeins í verði með nokkrum undantekningum. Gulrótin er óskoraður sigurvegari og ein af fáum sem hefur lækkað í verði: aðeins 100 krónur kílóið af íslenskum gulrótum. Mjólkur- og kjötvörur eru hins vegar orðnar algjör lúxusvara. Mjólkurlítrinn kostar 6400 iskk og af öllu kjöti er kjúklingakjöt ódýrast (9000 iskk / kg) en nautakjöt og lambakjöt dýrust. Það verður ekki grillað á hverju kvöldi (nema þá grænmeti) því lambalærið er komið í 134.000 iskk og hamborgarinn í 10.000 iskk. Vörur sem eru fluttar inn með flugi hafa snarhækkað í verði þar sem flugið hefur hundrað sinnum hærra kolefnisspor en skipaflutningar. Lítill bakki af bandarískum jarðarberjum kostar 11.000 iskk.

Þó eru einhverjir ánægðir með nýja kolefnishagkerfið: það eru grænmetis-, ávaxta- og kornbændur: nú er samkeppnisstaða þeirra gagnvart innfluttum vörum annars vegar og kjötvörum hins vegar orðin allt önnur og betri. Að öllum líkindum hefur framboð af fjölbreyttu innlendu grænmeti og kornvörum stóraukist og grænmetisbændur eru orðnir að stórlöxum í íslensku samfélagi. Kjúklinga- og eggjabændum hefur ef til vill tekist að lækka kolefnissporið eitthvað og geta þannig boðið upp á prótínríkar afurðir á viðráðanlegu verði. Fisksalar komast upp með hóflega hækkun og gera áfram gott mót, sérstaklega í útlöndum þar sem íslenskur fiskur er orðinn talsvert ódýrari en flestur annar fiskur.

2- Bíllinn


Lítill bensínbíll (Peugeot 107) 25.000.000 iskk

Stór lúxusjeppi (Range Rover Sport) 64.000.000 iskk

Lítill einfaldur rafbíll (Vw e-Up) 38.000.000 iskk

Stærri rafbíll (Audi E-tron) 70.000.000 iskk


1 lítri af bensíni 8000 iskk

2 Kwst af rafmagni (jafngildi 1 L bensín) 173 iskk

Fylla á'hann (50 lítrar) 400.000 iskk

Rvk-Akureyri-Rvk á stórum jeppa (1 í bíl) 900.000 iskk

Rvk-Akureyri-Rvk á litlum bensínbíl (1 í bíl) 450.000 iskk

Rvk-Akureyri-Rvk á litlum bensínbíl (4 í bíl) 132.500 iskk (á mann)

Rvk-Akureyri-Rvk á litlum rafbíl (1 í bíl) 10.240 iskk


Almennt verð á nýjum bílum hefur um það bil fjórfaldast þar sem þeir innihalda mikið af málmum sem hafa hátt kolefnisspor. En það er ekki það versta: verð á bensíni hefur 26-faldast (lengi getur vont versnað) og er nú komið í 8000 iskk lítrinn.

Bensín- og dísilbílar eru almennt aðeins ódýrari en rafbílar en eldsneytið er orðið svo dýrt að það er orðið vonlaust að reka slík ökutæki, og jafnvel hörðustu bensínhausar á bankastjóralaunum eiga varla efni á meira en Toyota Yaris. Bílferð frá Reykjavík til Akureyrar og til baka kostar að lágmarki 450.000 iskk í eldsneytiskostnaði en aðeins 10.000 iskk í rafbíl.

Bílar eru hins vegar orðnir það dýrir að bílaeign landsmanna hefur minnkað töluvert (og bílarnir sjálfir sömuleiðis). Í borginni kjósa sífellt fleiri að sleppa því að eiga bíl og láta það duga að nota deilibílaþjónustu þegar á þarf að halda. Í sveitinni eru flestir á litlum rafmagnsfarartækjum og leigja sér stærri bíl þegar í lengri ferðir er farið.Citroën 2CV var einn vinsælasti bíll í Frakklandi á eftirstríðsárunum. Hann vó aðeins um 450 kíló og eyddi um 4 lítra á hundraðið. Nýlega hóf franskt fyrirtæki sölu á "retrofit" útgáfu af bílnum þar sem honum er breytt í rafbíl. Hann vegur aðeins 500 kíló og kemst 120 km á hleðslunni.3- Húsnæði


5 herbergja raðhús 96.000.000 iskk

6 herbergja einbýlishús 160.000.000 iskk


Húsnæði hefur hækkað eitthvað í verði en þó minna en margt annað. Hins vegar eru til nokkrar einfaldar leiðir til að lækka húsnæðisverð: nota minna af steypu og meira af timbri, helst íslenskt byggingarefni frekar en innflutt (skógrækt leikur þar stóru hlutverki) og lágkolefnis-sement. Sé þetta gert og hófsemi gætt í stærð íbúða ætti húsnæðikostnaður að vera innan við 100.000 iskk á mánuði. Íslendingar búa við þann lúxus að eiga aðgang að lágkolefnis-orku til að hita upp húsin og skaffa rafmagn þannig að hita- og rafmagnsreikningurinn ættu að vera mjög lágir.4- Raftæki


Snjallsími 320.000 iskk

Fartölva 1.600.000 iskk

55-tommu flatskjár 2.352.000 iskk

Mynd á Netflix 256 iskk

Þvottavél 7 kg 880.000 iskk


Snjallsíma- og tölvuframleiðendur eiga erfitt uppdráttar í kolefnishagkerfinu. Verð á raftækjum hefur um það bil tífaldast. Við því eru aðallega tvö ráð: annars vegar að einfalda tækin (því flóknari búnaður, því hærra kolefnisspor) og hins vegar að láta þau endast lengur. Framleiðendur sem geta boðið upp á vörur sem eru hannaðar til að endast eru sigurvegararnir. En hvað sem því líður eru flatskjáir nú ekki lengur á hverju götuhorni eins og þeir voru einu sinni, þar sem verðmiðinn er frekar fælandi: 2,3 milljónir fyrir 55-tommu flatskjá.

Mynd á Netflix kostar nú 256 iskk og það skýrist af starfssemi gagnavera sem geyma og senda myndefnið. Kolefnisspor fjarskiptaiðnaðarins er um 2-4% af heildarlosun í heiminum í dag og hefur farið hratt stækkandi á síðustu árum og áratugum. 256 krónur er ekki mikið fyrir þann sem horfir á mynd einu sinni eða tvisvar í viku, en fyrir verstu sófakartöflur sem horfa á 2-3 myndir á dag gæti kostnaðurinn hlaupið á 25.000 krónur á mánuði eða meira.
5- Ferðalög


Hringferð um landið á rafbíl (2 í bíl) 9600 iskk á mann

Hringferð um landið á bensínbíl (2 í bíl) 420.000 iskk á mann

Reykjavík-Akureyri í rútu (dísilrúta) 90.000 iskk

Nótt á hóteli (lægst) 9600 iskk

Nótt á hóteli (hæst) 240.000 iskk

París-Barcelona með lest (báðar leiðir) 48.000 iskk

Seyðisfjörður-Hirtshals með Norrænu (án bíls, b.l.) 1.300.000 iskk

Flug til Kaupmannahafnar (báðar leiðir) 2.300.000 iskk

Flug til Tenerife (báðar leiðir) 3.700.000 iskk


Þorlákshöfn-Rotterdam í sparneytnu farþegaskipi 100.000-300.000 iskk ?


Aouch! Nú fær veskið að kenna á því! Það er ljóst að ferðalög eru orðin miklu dýrari en þeir voru, sérstaklega með flugi. Flug til Tenerife, einn af uppáhaldsáfangastöðum Íslendinga, kostar nú 3,7 milljónir iskk enda fer flugmiðinn langt með að klára losunarkvóta ársins (1,1 tonn af 1,5 tonna-kvóta). Jafnvel styttri flug eins og til Kaupmannahafnar kosta um og yfir 2 milljónir. Norræna er aðeins skárri með 1,3 milljónir en þó ekki beinlínis ódýr. Ferðalög innanlands á rafbíl eru hins vegar hræódýr: innan við 10.000 iskk á mann fyrir hringferð um landið á rafbíl (2 í bíl) eða 5000 iskk ef farþegarnir eru fjórir. Rútuferð til Akureyrar er talsvert ódýrari en ferð í bensínbíl (90.000 iskk) en þó frekar dýr á meðan rútan er dísilknúin.


Verð á hótelherbergi hefur ekki breyst mikið en er áfram mjög breytileg. Það fer eftir ýmsum þáttum svo sem stærð herbergisins, lúxusstigi þess (því meira lúxus, því hærra kolefnisspor), og hvaðan hótelið fær sína orku.


Öll von er ekki úti fyrir áhugamenn um utanlandsferðir: í fyrsta lagi er hægt að fækka ferðunum en hafa þær lengri í staðinn: ein tveggja-vikna ferð er tvöfalt ódýrari en tvær vikuferðir (ef gistingin er ekki talin með) en gefur manni jafn langan tíma í útlöndum. Í öðru lagi gæti endurvakning farþegasiglinga lækkað kostnað við utanlandsferðir verulega (í kolefniskrónum): sigling frá Þorlákshöfn til Rodderdam í vel hönnuðu, vel nýttu og sparneytnu farþegaskipi gæti kostað innan við 100.000 iskk og þjóðhátíðarstemningin um borð í skipinu mundi ef til vill gera siglinguna sjálfa enn eftirminnilegri en dvölin á áfangastað. Ferðalög frá Hollandi til annara Evrópulanda eru síðan ekki dýr ef um lest eða rafbíl er að ræða. Þó getur verðið verið mjög breytilegt eftir kolefnisspori raforkuframleiðslu í hverju landi fyrir sig. Í þeim löndum þar sem raforkan hefur lægsta kolefnissporið eru ferðalögin ódýrust: lestarferð frá París til Barcelona (1100 km) kostar aðeins 24.000 iskk aðra leið og er það vel viðráðanlegt.

6- Hitt og þetta


Rúlla af klósettpappíri (endurunnið) 1400 iskk

Bók (endurunnið pappír) 1600 iskk

15 stk afskorin blóm (íslensk) 500 iskk

15 stk afskorin blóm (innflutt) 5000 iskk

Skópar 32.000 iskk

Gallabuxur (úr gerviefnum) 32.000 iskk

Gallabuxur (bómull) 61.000 iskk

Poki af sementi 54.000 iskk

Hálsmenn úr gulli 736.000 iskk

Köttur 992.000 iskk (á ári)

Meðalstór hundur 2.500.000 iskk (á ári)


Rúlla af klósettpappíri kostar nú 1.400 krónur og eru það ekki sérstaklega góðar fréttir. Það skýrist meðal annars af því að pappírsframleiðsla er mjög orkufrekur iðnaður (það þarf jafn mikil orka til að framleiða 1 tonn af pappíri og 1 tonn af stáli). Án þess að fara nánar út í smáatriði klósetttækninnar er þó örugglega hægt að finna leiðir til að fara sparlega með klósettpappírið...

Það er tvennt sem lifir þó góðu lífi í kolefnishagkerfinu: bókmenntir og rómantík. Bók kostar ekki nema 1600 iskk og blómvönd fyrir lífsförunautinn kostar ekki nema 500 iskk (ef um íslenska ræktun er að ræða).

Pallasmíðina þarf að stunda í hófi því sementspokinn kostar yfir 50.000 iskk.

Skartgripir skulu helst vera úr einhverju öðru en gulli því vinnsla á gulli er óhemju-orkufrek, sem skýrir hátt verð á hálsmenn úr gulli: 736.000 iskk.

Gæludýr í kolefnishagkerfinu eru helst grænmetisætur svo sem kanínur, fiskar og fuglar, því kjötætur á borð við ketti og hunda eru fokdýrar í rekstri og skýrist það af fóðrinu: kattamaturinn kostar milljón á ári og 2,5 milljón iskk fyrir fóður í meðalstóran hund.

7- Að lokum


Auðvitað er kolefnishagkerfið ekki til og verður aldrei meira en hugarleikfimi misgáfaðra greinarhöfunda eins og þess sem hér skrifar. Hins vegar getur þessi hugarleikfimi gefið okkur betri tilfinningu fyrir því hvar við stöndum og hvað þarf helst að breytast ef markmið um samdrátt í losun eiga að nást.

Í fyrsta lagi sjáum hversu langt við erum frá markmiðinu: alveg sama hvernig við snúum okkur úr þessu getur neyslustigið sem við höfum vanist, með alla olíubrennsluna, kjötátið, raftækjaofurneysluna og endalausum flugferðum, aldrei gengið upp til lengdar. Ef þetta eru slæmu fréttirnar, þá eru líka góðar fréttir:

Í fyrsta lagi þurfum við ekki að ná þessum kvóta um 1,5 tonn á mann á einni nóttu, heldur getum við nálgast honum í skrefum fram til 2050. En til þess þarf að koma sér saman um raunhæfa og vel ígrundaða aðgerðaráætlun, sem gerir ekki ráð fyrir að hlutirnir gerist af sjálfum sér eins og venjan hefur verið hingað til.

Í öðru lagi er samdráttur í neyslu ekki eina lausnin, þó hún sé óhjákvæmilega hluti af jöfnunni. Við höfum mörg tæki til að draga úr kolefnisspori þeirra vöru og þjónustu sem við neytum, og í sumum tilfellum er ávinningurinn af því mikill: verðlagið í kolefniskrónum getur lækkað töluvert. Hins vegar eru tækifærin mismikil hverju sinni, og í þeim tilfellum þar sem verðið í kolefniskrónum er tífalt eða hundraðfalt það sem það er í raunheimum þýðir ekkert að láta sig dreyma um að lækka það í samræmi við óskir okkar: þar þurfum við að breyta mest, og sem fyrst. Heimildir: How bad are bananas: the carbon footprint of everything, Mike Berners-Lee.Fyrir tölur um kolefnisspor vara og þjónustu og umreikning í kolefniskrónum:

Kolefnishagkerfið
.pdf
Download PDF • 481KB


Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page