top of page
Search
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Hvað þýðir 1,5°c á mannamáli?

Updated: May 25, 2022


Tölulega séð er markmiðið skýrt: til að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°c þarf heimurinn að ná kolefnishlutleysi um eða fljótlega eftir 2050. Kolefnishlutleysi þýðir að við losum ekki meira af koltvíoxíð en Móðir Jörð ræður við að binda, þökk sé kolefnissvelgum sínum. Kolefnissvelgir jarðarinnar eru fyrst og fremst gróður og haf, og þau ráða við losun koltvíoxíðs upp á sirka 12 Gígatonn á ári. Öll losun umfram 12 Gt safnast í andrúmsloftinu og verður því til þess að styrkur Co2 eykst, með tilheyrandi gróðurhúsaáhrifum.

Kolefnishlutleysi þýðir sem sagt að heildarkolefniskvóti mannkyns er 12 milljarðar tonna á ári (Gíga = milljarður). Nú er bara að deila með mannfjöldanum á jörðinni (2022):


12.000.000.000 / 8.000.000.000 = 1,5 tonn á mann


Þetta er reyndar smá einföldun, því um leið og við drögum úr losun þá lækkar magnið sem kolefnissvelgirnir taka við, þannig að til langs tíma þurfum við líklega að fara enn neðar, kannski alla leið niður í eitt tonn á mann. En við værum alla vega mjög langt komin, og í miklu betri stöðu en í dag, ef við næðum þessi 1,5 tonn á mann til að byrja með. Hvar erum við nú? Meðallosun á mann í heiminum í dag er 4,5 tonn (3x meira en kvótinn segir til um).


Hvað er meðallosun Íslendinga? Það fer svolítið mikið eftir því hvaða bókhaldsaðferð er notuð. Ef eingöngu er horft á þá losun sem á sér stað innanlands (og á Íslandsmiðum) þá er meðallosun Íslendinga 13 tonn á mann (fyrir utan landnotkun), en ef horft er á neysludrifna losun, það er að segja alla þá losun sem verður til við að framleiða þær vörur og þjónustu sem við neytum (sama hvort framleiðslan á sér stað innanlands eða utan), þá er losunin 22 tonn á mann.

Ég ætla ekki að fara í flókna umræðu um hvort bókhaldsaðferðin sé betri eða réttari, heldur ætla ég einfaldlega að gera málamiðlun og reikna út meðaltal þessara tveggja talna:

13+22 = 35

35/2 = 17,5 tonn á mann


17,5 tonn, það er um það bil 12 sinnum meira en kvótinn segir til um, og það þýðir að við þurfum að draga úr losun um 92%.


Miðað við lífsstílinn sem við búum við í dag, þá erum við ansi fljót að sprengja þennan kvóta um 1,5 tonn á ári, en hann er hægt að klára til dæmis með því að:


- Fara í eina flugferð til Seattle

eða

- Fara 4 hringferðir um landið á Toyotu Land Cruiser (1 í bíl)

eða

- Borða 50 kg af lambakjöti (140 g á dag)

eða

- Kaupa 3 borðtölvur eða 4 fartölvur

eða

- Kaupa 60 sementspoka

eða

- Kaupa 1 stk 50-gramma gullstöng frá Costco (550.000 kr.)


Af þessu er ljós að við eigum langt í land ef við ætlum að halda okkur við 1,5 tonna kvótann. “Hvernig er þetta hægt?” Kann einhver að spyrja. “Eigum við að fara aftur á steinöld?” Það er alla vega kominn tími á að horfast í augu við hið augljósa: að sá lífsstíll sem við höfum vanist er ekki í samræmi við þau markmið sem við höfum sett okkur í París, og að það mun ekkert duga annað en róttækar breytingar á okkar samfélagi og hagkerfi ef þessi markmið eiga að nást.

Við höfum hins vegar ýmsar leiðir til þess að dempa höggið: við getum reynt að draga úr sóun (hvort sem hún er á einstaklingsstiginu eða samfélagsstiginu) og við getum reynt að draga úr kolefnisspori þeirra vara og þjónustu sem við neytum. Ef við tökum innflutninginn sem dæmi, þá væri hægt að draga úr kolefnisspori Íslands með því að flytja frekar inn vörur frá löndum þar sem orkuframleiðsla er kolefnislítil, eða enn betra, að framleiða vörurnar frekar hér á landi með lágkolefnisorku, í þeim tilfellum þar sem raunhæft er (sem er að auki atvinnuskapandi).

En alveg sama hvað við gerum þá verður minni neysla alltaf óhjákvæmilegur hluti af lausninni, þar sem kolefnisspor framleiðslu er aldrei hægt að ná niður í núll, sérstaklega ekki á þessum stuttum tíma sem við höfum.


Við þurfum sem sagt að forgangsraða, svolítið eins og að taka til í bílskúrnum: það er ekki hægt að eiga allt. Hvort skiptir meira máli: að fljúga til útlanda þrisvar á ári eða hafa aðgang að sæmilegu heilbrigðiskerfi? Að borða kjöt í hverri máltíð eða að hafa þak yfir höfuðið? Að fá sem hæstar tekjur til að geta keypt hvað sem er, hvenær sem er og hvernig sem er, eða að vera í öruggu og sanngjörnu vinnuumhverfi sem gefur manni tilgang?

Þegar kemur að forgangsröðun er ekki til eitt rétt svar. Þó að spurningarnar að ofan séu augljóslega svolítið gildishlaðnar þá þarf ekki að vera þannig að allir tileinki sér nákvæmlega sama lífsstílinn: það verður áfram pláss fyrir einhverjar flugvélar (en miklu færri en nú), það verður alltaf hægt að fá sér kjöt á grillið (en miklu sjaldnar en nú), og einhverjir munu vera á hærri launum en aðrir (en munu samt þurfa að virða ákveðin mörk).


Það verður erfitt, ekki spurning, en það er ekkert val: annað hvort förum við sjálf í að endurskipuleggja okkur og þá verða breytingarnar á okkar forsendum, eða við bíðum þangað til við verðum þvinguð til þess af Móðir Náttúru, því lífsstíllinn okkar í dag er að stóru leyti byggður á orkugjafa sem mun ekki endast að eilífu: jarðolíunni. Sá orkugjafi hefur gefið okkur nánast allt sem við höfum öðlast á síðustu 150 árum: ódýran mat (olíuknúnir traktorar og kemískur áburður framleiddur með jarðgasi), ódýran innflutning (olíuknúin skip og vörubílar), ódýr ferðalög (fólksbílar og flugvélar), ódýr föt (gerviefni unnin úr olíu), ódýrar umbúðir og allskonar annað ódýrt plastdót, of svo framvegis.

En nú er komið að leiðarlokum: olíuframleiðsla í heiminum mun fara minnkandi á næstu áratugum af jarðfræðilegum ástæðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og aðrir orkugjafar munu ekki geta komið í staðinn fyrir hana nema að takmörkuðu leyti, og þá er valið bara um tvennt: að endurskapa sem fyrst olíulaus samfélög og sleppa um leið við verstu afleiðingar olíuskorts og loftslagsbreytinga, eða að bíða eftir að olían klárist og fara þá í þvingaðar og óundirbúnar breytingar (öðru nafni orkukrísur og efnahagskreppur) og þurfa á sama tíma að glíma við verstu afleiðingar loftslagsbreytinga: náttúruhamfarir, jafnvel hungursneyðar og stríð.

Þetta er sama val og reykingamaðurinn stendur frammi fyrir: annað hvort að hætta að reykja sjálfviljugur og á eigin forsendum strax, eða að bíða þangað til náttúran þvingar hann til þess, í formi alvarlegra veikinda, sem eru yfirleitt sársaukafullt og dapurlegt endalok á ósjálfbærum lífsstíl. Sem sagt, það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær og hvernig. Er þá ekki best að láta hendur standa fram úr ermum?53 views0 comments
Post: Blog2_Post
bottom of page