Hagstofan tilkynnti nýlega að samkvæmt bráðabirgðatölum hefur landsframleiðsla dregist saman tvo ársfjórðunga í röð, en samkvæmt „bókinni“ fellur slíkur atburður undir skilgreiningunni „kreppa“ eins og segir í frétt á RÚV það sem blaðamaður tók viðtal við Gylfa Magnússon prófessor.
Hagfræðingurinn vildi reyndar ekki taka svo djúpt í árinni enda er eingöngu um bráðabirgðatölur að ræða.
Kreppa eða ekki kreppa, staðreyndin er sú að hagvöxtur hefur verið að hægja á sér á Íslandi og á vesturlöndum almennt ef langtímaþróunin er skoðuð. Á árunum 1950-1975 var ekki óalgengt að hagvöxtur á mann mældist um og yfir 4% en eftir 1980 hafa hagkerfi þessara landa verið að hægja á sér (þó í mismiklu mæli). Í sumum löndum Suður-Evrópu svo sem á Ítalíu og í Grikklandi hefur ekki mælst hagvöxtur í tvo áratugi!
Hagfræðingar hafa gripið til mismunandi skýringa til að útskýra þessa kólnun. Ein skýringin er sú að spilling og slæm hagstjórn hefur komið í veg fyrir hagvöxt í löndum Suður-Evrópu. Nema hvað, sú kenning skýrir ekki hvers vegna hagvöxtur var samt svo kröftugur í þessum löndum á árunum 1950-1975 þrátt fyrir spillingu og slæma hagstjórn, sem hlýtur að hafa verið jafn mikil þá og nú. Hún skýrir heldur ekki hvers vegna sama þróunin virðist eiga sér stað alls staðar á Vesturlöndum.
Á Íslandi hefur að jafnaði mælst meiri hagvöxtur en í löndum Suður-Evrópu en þó eru merki um að kólnunin sé að eiga sér stað hér líka. Súluritið hér að neðan sýnir meðalhagvöxt á mann fyrir hvern áratug síðan 1951: hagvöxturinn hefur aldrei mælst minni en á áratugnum 2011-2020 (innan við 1%).
Leitin að sökudólgum virðist endalaus. Ýmist er bent á Seðlabankann, ríkisstjórnina, verðbólguna, efnahagsstjórnina eða annað. En getur verið að minni hagvöxtur og jafnvel samdráttur verði „normið“ á næstu árum og áratugum, óháð því hvað stjórnmálamenn og seðlabankastjórar velja að gera eða gera ekki?
Hefðbundnar kenningar úr hagfræði virðast ekki duga til að útskýra þróunina og spá fyrir um framtíðina, en kenningin sem hér fylgir getur hjálpað okkur til við að ná áttum og búa okkur undir það sem framundan er.
Þegar Hagstofan mælir landsframleiðslu eða hagvöxt (sem er breyting á landsframleiðslu á milli tímabila) mælir hún í raun og veru efnislegar umbreytingar, enda er hlutverk hagkerfisins að umbreyta náttúruauðlindir yfir í vöru eða þjónustu sem við teljum okkur hafa gagn af. Nema hvað, öll umbreyting felur í sér orkunotkun. Í nútímasamfélögum eru það fyrst og fremst vélar og tæki sem sjá um þessar umbreytingar: verksmiðjur, vörubílar, skip, flugvélar, raftæki o.sv.fr.
Hingað til hefur verið lítið mál að stækka hagkerfið með því að fjölga þeim vélum sem vinna vinnuna, t.d. bæta við fleiri flugvélum til þess að fá fleiri ferðamenn til landsins, fleiri steypubílum til að byggja fleiri hótel o.sv.fr. Nema hvað, það er ekki hægt að bæta við fleiri vélum ef orkan sem á að knýja þær er ekki til staðar.
Hingað til hafði verið lítið mál að fjölga vélum þar sem olíuframleiðslu jókst hratt frá ári til árs, en eftir olíukreppurnar árið 1973 og 1979 fór að reynast sífellt erfiðara að finna nýjar olíulindir um leið og þær gömlu fóru að tæmast. Á árunum eftir stríð var vöxtur í olíuframleiðslu um það bil 7,5% á ári, en eftir 1979 fór að draga verulega úr þessum vexti. Á árunum 2000-2022 hefur sá vöxtur aðeins verið um það bil 1% á ári að meðaltali.
Fylgni milli vaxtar í olíuframleiðslu og hagvaxtar virðist vera sterk vísbending um að gangur heimshagkerfisins er mjög háður þróun olíuframleiðslu. En framboð af olíu er nefnilega ekki endalaust, fyrir utan það að Móðir Jörð er að biðja okkur um að vinsamlegast láta hana kyrrt liggja svo við förum okkur ekki að voða…
Ekkert mál, segja sumir, skiptum út olíu fyrir græna orku!
Já, við getum gert það í einhverju mæli, en framboð af grænni orku verður aldrei nægilegt til að fylla í risastóra gatið sem olían mun skilja eftir sér. Sé greiningin hér að ofan rétt, munum við þurfa að endurskoða framtíðaráætlanir. Stjórnmálamenn sem lofa gulli og grænum hagvexti munu óhjákvæmilega valda vonbrigðum, með tilheyrandi pirringi hjá kjósendum og tortryggni gagnvart hefðbundnum stjórnmálum.
Frekar en að lofa góðu veðri gætu hagfræðingar hjálpað til með því að velta fyrir sér hvernig við getum haldið sönsum í heimi án hagvaxtar, í heimi þar sem samdráttur verður normið og hagvöxtur undantekningin…
تعليقات