top of page
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Framtíð loftslagsbreytinga í 10 myndum


Fyrsta skrefið í að leysa vandamál er að skilja um hvað vandamálið snýst. Það eru eflaust ýmsar ástæður fyrir lélegan árangur okkar í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, en ein þeirra en einmitt þetta: það er ekki nóg að vita af vandamálinu til að leysa það. Það dugar ekki eitt og sér að "treysta vísindamönnunum" og úthúða afneitunarsinnum. Við almenningur, fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld getum ekki brugðist rétt við vandann nema að hafa skilið hann út í smáatriðum. Eitt af því sem við eigum erfitt með að meðtaka er umfang vandans, og þess vegna lendir hann allt of oft mjög neðarlega á verkefnalistanum, með þeim afleiðingum að lítið sem ekkert gerist.


Sem dæmi væri hægt að bera saman þær upphæðir sem vestræn ríki hafa veitt nýlega í aðgerðir vegna Covid-faraldurins annars vegar og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hins vegar. Aðgerðir gegn Covid, grímunotkun, sóttkví, einangrun, ferðabönn, fjöldatakmarkanir, fjarlægðarmörk, samkomutakmarkanir, bólusetningarvottorð og jafnvel útgöngubönn voru líka margfalt meira íþyngjandi fyrir þorra almenning en aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafa nokkurn tímann verið. En án þess að gera lítið úr Covid-faraldrinum þá er hann ekki nema smáslys í samanburði við það sem framundan er ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessari grein verða reknar fimm af helstu afleiðingum loftlagsbreytinga, með sérstakri áherslu á þeirri fimmtu, sem er jafn vanmetin og hún er óútreiknanleg.1. Hækkun sjávarborðsHækkun sjávarborðs árið 2100 gæti orðið á bilinu 0,5 til 1 meter. Það er nóg til að mörg af fjölmennustu borgum heims fari á kaf. Á myndritinu hér að ofan, tekið úr grein The Guardian, sést hversu margir borgarbúar í nokkrum af stærstum borgum heims búa á svæði sem verða á kafi undir vatni ef hlýnun nær 3°c. Borgir í austri eru í mestri hættu, en Evrópulönd og Bandaríkin sleppa aldeilis ekki. Í Evrópu er Holland líklega í mestri hættu. Það versta við hækkun sjávar er að hún er að hluta til óafturkræf: jafnvel þó okkur tækist að standa við Parísarsamninginn um 1.5°c hlýnun mundi hækkunin halda áfram á næstu öldum, og mörg eyríki Kyrrahafsins eru nú þegar dauðadæmd af þeim sökum. Hækkunin verður hins vegar meiri eftir því sem hlýnun er meiri: lengi getur vont versnað. Á kortinu hér fyrir neðan sést hvaða lönd heims verða fyrir verstu áhrifum af hækkun sjávarborðs, en í heildina er talið að um 300 milljónir manna búi í dag á svæðum sem verða á kafi undir sjó í kringum 2100 miðað við 3°c hlýnun.

Ofgnótt af jarðefnaeldsneyti hefur hingað til gert okkur kleift að bregðast hratt við afleiðingar náttúruhamfara: við getum byggt upp aftur með leifturhraða ef byggingar eyðileggjast (með olíuknúnum vinnuvélum), við getum flutt matvæli á milli heimshorna ef uppskerubrestur verður (með olíuknúnum skipum, flugvélum og flutningabílum) og komið þannig í vegg fyrir hungursneyð, við getum aukið framleiðni landbúnaðarins (með olíuknúnum traktorum og tilbúnum áburði sem er unninn úr jarðefnaeldsneyti), við getum varist kuldanum (með húshitun sem er gjarnan olíu- eða gasknúin) og hitanum (með loftkælingu, knúin rafmagni sem er gjarnan framleitt með olíu, gasi eða kolum), og svo framvegis.

Afleiðingar loftslagsbreytinga eru m.a. háðar því hversu mikið af orku verður til í heiminum þegar þær skella á. Hvernig á að bregðast við náttúruhamfarir í heimi þar sem annað hvort má ekki lengur nota olíu (vegna loftslagsaðgerða) eða er ekki hægt að nota olíu lengur því hún hefur klárast að mestu leiti? Það verður ekki lengur í boði að byggja spítala á 10 dögum eins og Kínverjar gerðu í Covid-faraldrinum.


2. Hlýnun loftslagsinsÞegar Parísarsamkomulagið var undirritaður árið 2015 var markmiðið að halda hlýnun jarðar undir 1.5°c árið 2100 (miðað við 1850). Um sumarið 2021 birti IPCC (Milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar) skýrslu þar sem fram kom að nú væri nánast útilokað að ná markmiðinu um 1.5°c. Það tók sem sagt ekki nema 6 ár að slátra hin fögru fyrirheit frá Parísarstefnumótinu. Sífellt fleiri sérfræðingar og skýrendur eru nú að gefast upp á 1.5°c markmiðinu og telja raunhæfara að stefna að 1.7°c eða jafnvel 2°c. Vísindamenn hjá IPCC eru hins vegar að vara við að miðað við núverandi aðgerðir séum við að stefna að um það bil 3°c hlýnun. Það er líka niðurstaða vefsíðunnar Climate Action Tracker, sem hefur einsett sér að meta áhrif aðgerða mismunandi þjóða heims og sýnir á mjög myndrænan hátt hvert við erum að stefna (sjá mynd hér að ofan): eitthvað á bilinu 2 til 3,6°c.


3°c er heitara en 1,5°c, það skilja allir. Hins vegar er munurinn á 1,5°c og 3°c ekki hlutfallslegur í þessu tilfelli. 3 gráður er ekki "bara" tvöfald verra en 1,5 gráða. Ef ég smitast af flensunni þá gæti líkamshitinn minn hækkað upp í 40°c. Það eru um það bil 3 gráður meira en venjulega, og ég gæti þurft að taka 5 daga veikindafrí úr vinnu. En ef líkamshitinn minn hækkar tvöfalt meira, sem sagt í 43°c, mun ég þá bara missa af tvöfalt fleiri vinnudögum? Nei, ég mun missa af miklu fleiri dögum, því ég verð dauður, þar sem líkaminn þolir ekki svo háan hita.

Þó að talan sé aðeins tvöfalt hærri, þá eru afleiðingarnar óendanlega mikið alvarlegri. Það sama á við loftslagið, 3°c gæti verið hundraðfalt eða þúsundfalt grimmari sviðsmynd en 1,5°c. Ein ástæðan fyrir því er að hlýnunin verður ekki sú sama alls staðar á jörðinni: hún verður meiri á landi en yfir sjó, og hún verður meiri á sumum landsvæðum en á öðrum, allt upp í 6-7°c þar sem mest verður, eins og sést á þessu korti úr skýrslu IPCC:
Afleiðingar hærra hitastigs verða ýmsar og sjálfsagt mjög mismunandi eftir stöðum. Á Íslandi yrði meðalhlýnun um 4 gráður. Ein augljós afleiðingin af því verður bráðnun jökla, en samkvæmt Loftslagsskýrslu vísindanefndar síðan 2018 munu stærstu jöklar landsins hafa tapað 60-85% af rúmmáli sínu við lok aldarinnar. “Líklegast er að jöklar á Íslandi hverfi að mestu á næstu fáum öldum gangi sviðsmyndir um loftslagsbreytingar eftir," segir síðan í skýrslunni. Eitt af fyrstum fórnarlömbum loftslagsbreytinga var reyndar jökullinn Ok sem hvarf árið 2019 en hér má sjá myndir (í boði NASA) af jöklinum þar sem hann dregur síðasta andann. Áhrif á lífríki Íslands eru enn lítið þekkt og lítið rannsökuð enda erum við að feta ótroðnar slóðir. Þó er vitað að súrnun sjávar sem nú þegar er hafin mun valda kórölum og öðrum kalkmyndandi lífverum stórskaða. Í Atlantshafi er súrnun sjávar miklu örari en að jafnaði í heimshöfunum, og því er líklegt að neikvæð áhrif súrnunar á lífríki sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en annars staðar.
3. Hitabylgjur, þurrkur og votur hitiVið mennirnir getum þolað talsverðan hita svo lengi sem við höfum nóg af vatni. En hvar eru mörkin? Það fer mikið eftir rakastigi loftsins. Líkaminn okkar kælir sig með því að svitna, en ef loftið verður of rakt getur svitinn ekki gufað upp og líkaminn okkar getur þar með ekki kælt sig lengur. Það er svipað og að vera í mjög heitum potti í of langan tíma. Þetta fyrirbæri er kallað "votur hiti" (e. "wet-bulb temperature"), en hægt er að mæla hann með því að vefja blautan klút utan um hitamælir. Þegar lofthiti er til dæmis 46°c en rakainnihald loftsins 30%, þá er votur hiti 30,5°c, en ef lofthiti er 39°c og raki 77% þá fer votur hiti upp í 35°c. Votur hiti um og yfir 35°c er banvænn eftir nokkra klukkutíma. Í dag er frekar sjaldgæft að votur hiti fari svo hátt, jafnvel í heitustu borgum heims, og þá varir það yfirleitt stutt, en með hlýnun loftslags er því spáð að slíkur hiti verði mun algengari, sérstaklega í löndum suður-Asíu og í miðausturlöndum. Stjórnvöld í Qatar hafa nú þegar gripið til þess ráðs að banna alla vinnu utandyra milli 10:00 og 15:30 á heitustu mánuðum ársins.
Samkvæmt rannsókn MIT frá 2017 glíma nú um 2% Indverja reglulega við votan hita yfir 32°c. Árið 2100 gæti þetta hlutfall farið upp í 70%, og votur hiti yfir 35°c orðið mun algengari viðburður. Um 30% af íbúum jarðarinnar, eða um 3 milljarðar manna, gætu búið við lífshættulegar votar hitabygljur í lok aldarinnar. Eina vörnin gegn slíkum hitabylgjum er loftkæling, en það er langt frá því að allir hafi aðgang að slíkum munaði, og svo má spyrja sig hvað gerist ef raforkukerfið sem knýr loftkælinguna liggur niðri, t.d. eftir náttúrhamförum eða vegna orkuskorts. Í Shangai, þriðju stærstu borg í heimi með 25 milljónir íbúa, gætu orðið fimm eða fleiri banvænar hitabylgjur með votum hita yfir 35°c á árunum 2070-2100 samkvæmt rannsókn á vegum Nature Communications.


Við mennirnir erum dýrategund, og eins og hjá hverri annari dýrategund eru svæði í heiminum sem henta okkur vel til búsetu, og önnur þar sem aðstæður eru það fjandsamlegar að við getum í besta fallið þraukað, og þá í litlum hópum, eins og Inúítar hafa gert á norðurslóðum og Bedúínar í Sahara-eyðimörkinni. Svæðin sem henta ákveðinni tegund best eru kölluð kjörsvæði hennar. Samkvæmt nýlegri rannsókn alþjóðlegra vísindamanna, Future of the human climate niche, hefur meirihluti jarðarbúa síðustu 6000 árin búið á svæðum þar sem árlegur meðalhiti var frá 11°c (svipað og í London) til 15°c (svipað og í Rómarborg). Vísindamennirnir telja að kjöraðstæður til þess að byggja upp fjölmennt nútímasamfélag séu á bilinu 11°c til 25°c. Yfir 29°c er landið orðið nánast óbyggilegt (til samanburðar er meðalhiti í Sahara-eyðimörkinni 30°c). Á heimskorti (sjá að neðan) sem vísindamennirnir hafa útbúað sést að þau landsvæði þar sem meðalhiti er í dag 29°c eða meira þekja um 0.8% af landssvæði jarðarinnar (svörtu svæðin), en eftir 2070 gæti hlutfallið hækkað upp í 19% (brúnu svæðin). Um 30% af íbúum jarðarinnar munu þá búa á slíkum svæðum, ef þeir eru þá ekki löngu búnir annað hvort að flýja eða geispa golunni.
4. Uppskerubrestur
Það segir sig sjálft að hækkandi hitastig hefur ekki bara áhrif á mannskepnuna, heldur á allt lífriki jarðar, og þar á meðal nytjaplöntur. Saga iðnvæðingar er saga stöðugra framfara í framleiðni landbúnaðarins, með tilkomu öflugra landbúnaðarvéla og kemískra áburða, en nú lítur allt út fyrir að sú þróun sé að snúast við. Framleiðni landbúnaðarins er nú um 21% minni en hún ætti að vera ef hlýnun hefði ekki orðið, samkvæmt niðurstöðum úr nýlegri rannsókn á áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað. Hiti, vatnsskortur, flóðir og pestir geta leitt til uppskerubrests. Lélegri afköst landbúnaðarins geta svo leitt til matvöruskorts og hungursneyða á stórum skala.5. Hungursneyðir, flóttamannakrísur og stríð?Vísindamenn geta sagt okkur ýmislegt um beinar, eðlisfræðilegar afleiðingar loftslagsbreytinga. En þegar kemur að hinum mannlegum, félagslegum afleiðingum eru þeir þöglir eins og gröfin. Það er ekki við þá að sakast: félagsvísindi eru ekki þeirra svið, auk þess sem félagslegar afleiðingar eru þáttur sem erfitt er að spá fyrir, þar sem mannskepnan er afskaplega óútreiknanleg. En þetta getur orðið til þess að við vanmetum stórlega afleiðingarnar, sérstaklega við sem búum á köldum klaka og værum alveg til í nokkrar gráður í viðbót, þar sem við einblínum á það sem við getum mælt en gleymum því sem við getum ekki mælt og gæti reynst margfalt hættulegra.

Eina leiðin til að reyna að spá fyrir um mögulegar félagslegar afleiðingar er að rifja upp mannkynssöguna, með þeim fyrirvara að það sem hefur gerst áður er ekki víst til að gerast aftur þótt aðstæðurnar séu svipaðar. En þetta getum við að minnsta kosti rifjað upp: uppskerubrestir og hungursneyðir hafa oft leitt til uppreisna og átaka. Á árunum fyrir frönsku byltinguna eyddi meðal-verkamaðurinn um helminginn af tekjum sínum í brauð. Eftir tvöfalt uppskerubrest á árunum 1788 og 1789 rauk verðið upp og verkamaðurinn þurfti nú að punga út 88% af tekjum sínum til að kaupa sér brauð. Brauð var grunnfæða litla mannsins á þeim tíma, en eins og máltækið segir: "ekki líður hungur langa predikun". Þessar miklu verðhækkanir á brauði áttu stóran þátt í uppreisninni sem varð árið 1789. Við þekkjum hvað varð síðan um Lúðvík XVI og höfuðið hans. Hefði franski verkamaðurinn verið miskunnsamari ef hann hefði líka þurft að þola lífshættulegar hitabylgjur ofan á rándýrt brauð? Ég er ekki svo viss.

Við á Vesturlöndum megum spyrja okkur hvort við séum ekki svolítið í sömu stöðu og Lúðvík XVI forðum, þar sem við erum með margfalt hærra kolefnisspor en flestar þjóðir í suðri (hinn meðal Íslendingur er t.d. með kolefnisspor upp á 22 tonn Co2-ígilda, á meðan meðal Indverjinn er með 1,5 tonn) og erum þannig að valda þeim gríðarlegt tjón.


Á árunum 2006 til 2009 upplifðu Sýrlendingar gríðarlegar þurrkur. Uppskerubresturinn sem fylgdi varð til þess að 1,5 milljón Sýrlendinga, flestir þeirra atvinnulausir bændur, þurftu að yfirgefa sveitina og reyna fyrir sér í borginni. Uppskerubresturinn varð líka til þess að Sýrland var ekki lengur sjálfbjarga um korn og þurfti að tífalda innflutning sinn á korni. En það vildi svo til að kornverð á heimsmörkuðum nánast tvöfaldaðist frá 2005 til 2008, þannig að vöruverð á hveiti og brauði í Sýrlandi tók stóran kipp. Fólk fékk nóg og safnaðist á götunni. Þetta var upphaf þess sem síðar var kallað "Arabíska vorið". Þegar mótmæli brutust út svöruðu yfirvöld af fullri hörku, sem leiddi svo til borgarstríðsins sem við þekkjum. Glæpasamtökin Isis notfærðu sér síðan ringulreiðina til að sölsa undir sig auðlindir og völd, og í heimi Internetsins og hnattvæðingar er enginn hultur fyrir slíkum samtökum, eins og Vesturlöndin hafa kynnst.


Saga mannkynsins er saga átaka og ofbeldis. Sá sæmilegi friður sem Vesturlönd hafa upplifað síðustu sjötíu árin er nánast kraftaverk miðað við þá sögu. En þessi friður er alls ekki sjálfsagður. Efnahagskreppur sem fylgja náttúruhamförum geta valdið pólítískan óstöðugleika og gremju sem ofstækismenn reyna að nýta sér; hungursneyðir og miklar fólksflutningar geta skapað félagslega spennu sem brýst síðan út í uppreisnir, átök og stríð. Hvar stríðin verða og hvernig þau munu dreifast um heiminn er ómögulegt að segja. Það eina sem er víst er að enginn er óhultur.

Comentarios


Post: Blog2_Post
bottom of page