Ef marka má spá Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna árið 2030 mun losun frá flugiðnaðinum stóraukast á næstu árum. Aukningin verður svo mikil að hún mun núlla út allan ávinning af rafvæðingu bílaflotans, og gott betur. Þetta sýnir einfalt reiknisdæmi:
Samkvæmt talnaefni Orkustofnunar var olíusala til flugiðnaðarins um 415.000 tonn árið 2018. Spá ferðamálastofu gerir ráð fyrir um 50% fjölgun ferðamanna til 2030, en gera má ráð fyrir því að olíubrennsla flugiðnaðarins aukist að sama skapi um 50%. Þetta þýðir að olíubrennsla gæti aukist um rúmlega 200.000 tonn á ári.
Einn stærsti liður í aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum er rafvæðing bílaflotans. Sú áætlun gerir ráð fyrir að brennsla jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum muni dragast saman um 17.000 tonn fram til ársins 2030 þökk sé rafvæðingu bílaflotans. Aukin umferð á Keflavíkurflugvelli felur sem sagt í sér tólf sinnum meiri olíubrennsla en sem nemur sparnaðurinn vegna orkuskipta á landi.
En það er ekki allt. Hvert tonn af brenndu eldsneyti í háloftunum hefur um það bil tvöfalt meiri hlýnunaráhrif en brennsla sama eldsneytis niðri á jörðu. Þetta þýðir að fjölgun ferðamanna mun núlla út 25 sinnum samdrátt í losun vegna rafvæðingar bílaflotans. Samdrátturinn vegna rafvæðingar bílaflotans er um 51.000 tonn Co2-ígilda en aukin losun vegna aukinnar flugumferðar 1.246.000 tonn Co2-ígilda. Raunar er alls óvíst að jafnvel þessi samdráttur um 51.000 tonn náist þar sem mikil fjölgun bílaleigubíla sem eru flestir knúnir jarðefnaeldsneytis gæti að sumu leyti núllað út fjölgun rafbíla.
„Hvernig gat þetta gerst?‟ munu einhverjir spyrja. Fyrir þessari þversögn eru einkum tvær ástæður: í fyrsta lagi er kolefnisbókhald þjóðarinnar hannað þannig að losun frá flugi er ekki talin með, sem veldur því að stjórnvöld geta sópað þessar tölur undir teppið og sagst vera á góðri leið við að draga úr losun. Í öðru lagi er yfirlýst stefna stjórnvalda að róa öllum árum að því að auka hagvöxt hvað sem það kostar, og þar sem helsti drifkraftur hagvaxtar á síðustu árum hefur verið aukin umsvif ferðaþjónustunnar, er ekki mikill áhugi hjá téðum stjórnvöldum á að gera athugasemdir við þá losun sem henni fylgir. Þvert á móti hafa stjórnvöld verið að ýta undir aukna umferð á Keflavíkurflugvelli með því að ráðast nýlega í stækkun flugvallarins. Í stjórnarsáttmálanum segir:
„Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna.‟
Það er hins vegar mikil skammsýni í þessari stefnu, því óháð loftslagsbreytingum mun olíuframleiðsla í heiminum dragast saman á næstu áratugum af jarðfræðilegum ástæðum, og flugiðnaðurinn verður fyrsta fórnarlamb þessarar þróunar, þar sem hann er orkufrekasti samgöngumátinn og engar raunhæfar lausnir til staðar í orkuskiptum í þeim geira.
Hagkerfi sem byggir tilveru sína á flugsamgöngum á eftir að rekast á harðan vegg ef ekki er breytt um stefnu sem fyrst: einhvers konar síldarævintýri í öðru veldi. Um 15.000 Íslendinga starfa nú þegar í ferðaþjónustunni, og við þetta bætast öll afleiddu störfin. Þessi tala á eftir að hækka enn frekar ef fjöldi ferðamanna eykst. Hversu mörg af þessum störfum munu hins vegar tapast á endanum, og hver mun borga brúsann?
Commenti