top of page
Search
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Afneitunarboðorðin 12

Updated: May 25, 2022




Mannsheilinn er svo vel hannaður. Eins og köttur sem lendir alltaf á loppunum þegar hann fellur. Hann býður upp á ótal leiðir til að láta okkur líða betur þegar við rekumst á vegginn sem sálfræðingar kalla "hugrænt misræmi". Hugrænt misræmi er bara fjandi óþægileg tilfinning sem við upplifum þegar við verðum vitni að einhverju sem samræmist ekki skoðunum okkar eða lífsvenjum. Í grunninn eru tvær leiðir til að komast út úr þessu ástandi yfir í andlegt jafnvægi: annað hvort að skipta um skoðanir og lífsvenjur svo að þær passi betur við vitneskjuna, eða að afbaka raunveruleikann svo að hann passi betur við skoðanir og lífsvenjur okkar. Það er allur gangur á því hvora leiðina við förum, en þegar raunveruleikinn kallar á það að við gerum róttækar breytingar á lífsvenjum okkar og skoðunum eru miklar líkur á því að við förum auðveldari leiðina: að hagræða veruleikann. Og það lítur svona út:




Þegar þangað er komið er ímyndunaraflið besti vinur okkar: hann hefur engan sinn líkan þegar kemur að því að kalla fram ýmis afbrigði af hliðarveruleika.


Mannkynið upplifir nú versta tilfelli hugræns misræmis sem það hefur nokkurn tíma þurft að glíma við: iðnaðarsamfélagið sem við höfum byggt upp á síðustu 200 árum og hvílir á vinnslu jarðefnaeldsneytis (kol, gas og olíu) er komið í hrópandi mótsögn við boðskap vísindamanna sem vara okkur við loftslagsbreytingar.


En tími óheflaðrar afneitunar er liðinn: gróf afneitun og tortryggni gagnvart vísindunum er fyrir neðan okkar virðingu, hún dugar kannski fyrir Trumpista og Pútínista, en við hin erum siðmenntuð, við þurfum eitthvað fágaðra, og ímyndunaraflið lætur sig ekki vanta. Í stuttu máli: já, loftslagsbreytingar er raunverulegt vandamál, en það er alltaf einhver góð ástæða til að gera ekkert í því. Háskólinn í Cambridge hefur tekið saman 12 afbrigði af þeirri orðræðu sem hefur þann megintilgang að réttlæta aðgerðarleysi gagnvart loftslagsvandanum, án þess þó að afneita honum ("Discourses of climate delay"):


"Discourses of climate delay", Cambridge University, þýð. Jean-Rémi Chareyre


Hljómar þetta eitthvað kunnuglega? Förum nú aðeins yfir þetta og reynum að svara þessu af sanngirni.




1- Einstaklingshyggja:


Rökfærsla: einstaklingar og neytendur bera einir ábyrgð á athöfnum sínum. Þeir verða að breyta hegðun sinni og ef ekki þá er ekkert hægt að gera.


Svar: "There is no such thing as society" sagði Margaret Thatcher eitt sinn. Takk en nei takk. Einstaklingshyggjan og nýfrjálshyggjan sem henni fylgdi höfum við reynt áður, og vonandi höfum við lært af þeirri mistök. Þessi málflutningur veltir alla ábyrgðina á einstaklinginn, en fyrirtæki, stofnanir og ríki eru stikkfrí. Samkvæmt honum er brennsla eldsneytis er á ábyrð neytandans sem kaupir eldsneytið, en olíufyrirtækið er saklaust, og aðgerðir eru á ábyrgð einstaklingsins en ekki yfirvalda. Auðvitað berum við öll ábyrð sem einstaklingar og verðum að gera það sem við getum, en margt getum við ekki áorkað nema sameiginlega. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þessi rökfærsla hefði dugað gegn Covid-faraldrinum: ef hver og einn hefði þurft að ákveða sjálfur hvort hann notaði grímu eða ekki, hvort hann fór í sóttkví eða ekki, hvort hann hitti aðra eða ekki og þá með hvaða takmörkunum?



2- Hvaðmeðismi ("svo skal böl bæta...")


Rökfærsla: losun á okkar vegum er pínulítil í samanburði við losun X. Þeir verða að aðhafast fyrst áður en við gerum eitthvað. "Losun Íslands er bara 0.01% af heildarlosun í heiminum, en veistu hvað Kínverjar losa mikið?"


Svar: þetta er líklega algengasta rökfærslan. Frábær afsökun til að gera ekki neitt. Gallinn er að hún horfir bara á heildarlosun í staðinn fyrir að horfa á losun per íbúa. Og þegar losun per íbúa er skoðuð sést að Ísland er með hærri losun en Kína, og reyndar með hærri losun en flestallar þjóðir heims. Ef við ætluðum að deila losunarkvóta jafnt á milli þjóða án tillits til íbúafjölda þá mundi hver Íslendingur fá 4000 sinnum hærri kvóta en hver Kínverji. Sanngjarnt? Svari hver fyrir sig... Þar fyrir utan gleymist oft að stór hluti framleiðslunnar sem fer fram í Kína er ætlaður til útflutnings, og hluti hennar fer til Íslands, þannig að losun Kínverja er ekki eingöngu á ábyrgð Kínverja. Það er á okkar valdi að draga úr innflutningi frá Kína og þar með mundi losun Kínverja dragast saman. Þessi rökfærsla er stundum líka notuð í tengslum við flugiðnaðinn: "en losun frá fluginu er aðeins 3-4% af heildarlosun, það er ekki neitt neitt!" Þetta er svipað og að mæta í vinnuna á þyrlu og réttlæta það með því að losun frá þyrluflugi sé bara lítill hluti af heildinni. Nú eða henda ruslinu sínu út í sjóinn og segja að það sé hvor sem er bara lítill hluti af öllu ruslinu sem finnst í sjónum. En stundum snýst þessi rökfærsla ekkert um réttlæti, heldur um stærðfræði: hún reiknar með að hinir muni hvor sem er ekki gera neitt, og því muni okkar athafnir ekki breyta neinu um heildarútkomuna. En sú hugsun vanmetur stórlega fordæmisgildi aðgerða: það sem ein manneskja gerir getur haft áhrif á hegðun milljóna manna. Þegar Gréta Thunberg neitaði að fara í flugvél hafði það áhrif á ferðavenjur milljóna Evrópubúa sem kusu að ferðast með lest frekar en með flugvél. Sömuleiðis, það sem ein þjóð gerir getur haft áhrif á aðgerðir annara þjóða.

Mismunandi atvinnugreinar og fyrirtæki nota gjarnan þessa rökfærslu til að velta ábyrgðina yfir á aðra. Þetta er hin eilífða leit að blórabögglinum. Í þessari grein á mbl.is gerir forstjóri Olís lítið úr útblæstri frá einkabílum því hann sé "aðeins 3-5%" af losuninni á Íslandi og bendir í staðinn á aðra samgöngukosti sem "mun meiri mengun stafar frá". Og svo framvegis og svo framvegis...



3- Sníkjudýrið


Rökfærsla: aðgerðir munu veikja stöðu okkar. Aðrir hafa engan áhuga á að aðhafast og munu notfæra sér veikleika okkar.


Svar: í fullu sanngirni sagt er sannleikskorn í þessu þegar kemur að samkeppnishæfni fyrirtækja: ef fyrirtæki í einu landi búa við miklu strangari kröfur en fyrirtæki í öðrum löndum getur það skaðað samkeppnishæfni þeirra. Þetta hafa t.d. forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja bent á í tengslum við orkuskipti á sjó. Þetta vandamál er hins vegar hægt að leysa: Evrópusambandið hefur haft hugmyndir um að innleiða kolefnistolla til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki utan sambandsins sem búa ekki við sömu kröfur geti notfært sér samkeppnisforskoti sínu gagnvart evrópskum fyrirtækjum (Carbon Border Adjustment Mechanism). Því miður hafa forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi ekki haft áhuga á nánara samstarf Íslands og Evrópusambandsins og því sitja íslenskir ráðamenn ekki við borðið þegar slíkar hugmyndir eru ræddar og útfærðar innan sambandsins. Þar að auki er hér einu sinni enn gert ráð fyrir því að enginn annar hafi áhuga á breytingum, heldur séu allir að bíða í launsátri eftir að einhver fórni sér til að stela af honum lífibrauðið. Þó að það geti átt við í einhverjum tilvikum þá er það líklega óþarfa svartsýni: fæstir sætta sig við stöðuna eins og hún er í dag. Síðan er alltaf mikilvægt að vega og meta skammtíma- og langtímahagsmuni fyrirtækja: íþyngjandi kröfur geta skaðað samkeppnishæfni fyrirtækja til skamms tíma, um leið og þær efla hana til langs tíma. Tökum aftur dæmi sjávarútvegsins: yrði hann píndur í kostnaðarsöm orkuskipti á eigin kostnað gæti það veikt samkeppnisstöðu hans fyrst í stað, en eftir því sem líður á munu fyrirtæki sem reiða sig enn á jarðefnaeldsneyti lenda í vandræði vegna samdráttar í framboði á olíu, og þá geta þau fyrirtæki sem þegar hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir náð forskoti aftur.


4- Tæknihyggjan


Rökfærsla: við ættum að einbeita okkur að grænum framtíðarlausnum. Tækninýjungar geta leyst loftslagsvandann og því er nóg að fjárfesta í tæknirannsóknir.


Svar: þetta er líklega algengasta rökfærslan á eftir hvaðmeðismanum. "Tæknin mun bjarga okkur. Vetnisflugvélar eru rétt handan við hornið, sjálfkeyrandi bílar líka, og svo mun kjarnasamruni gefa okkur aðgang að endalausri hreinni orku." Þar af leiðandi þurfum við engu að breyta, bara að bíða eftir að tæknimennirnir "græji þetta". Þetta er afskaplega bjartsýnt og áhættusamt veðmál. Fyrsta vetnisflugvélin er áætluð 2035 en óvíst hvort framleiðendum takist að koma henni í loftið, og svo er hæpið að hægt verði að framleiða nóg af vetni á viðráðanlegu verði ef allur flugfloti heimsins á að ganga fyrir vetni. Aðrar tæknilausnir sem verið er að vísa í eru aðeins á frumstigi og mjög óvísst um framtíð þeirra. Þar að auki hafa tækninýjungar hingað til aldrei orðið til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þvert á móti. Saga síðustu 200 ára er saga endalausra tækninýjunga, og á sama tímabili hefur losun ekkert gert annað en að aukast. Það er vegna þess að meiri tækni kallar á fleiri tæki, og fleiri tæki kalla á meiri orka, og þar sem um 80% af orku heimsins er framleidd með jarðefnaeldsneyti, þá þýðir meiri tækni oftast meiri losun GHL. En þessi ofurtrú á tæknilausnum er alltumlykjandi. Jafnvel hámenntaðir sérfræðingar eru ekki lausir við hana, eins og þessi tilvitnun úr grein á Vísindavefnum sýnir: "Tækni, hugviti og þekkingu eru engin takmörk sett. Það eru því engin náttúrugefin takmörk fyrir því hvað tækniþróun getur gengið langt. " Vei! Súpermann er á leiðinni og ekkert getur stöðvað hann!



5 - Falleg loforð, fáar efndir


Rökfærsla: Við erum leiðandi í loftslagsmálum og ætlum að sýna gott fordæmi. Við höfum sett okkur mjög metnaðargjörn markmið. Svar: þetta er uppáhaldsorðræða stjórnmálamanna. Við ætlum að vera græn, við ætlum að vera kolefnishlutlaus, við ætlum að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Hingað til aðeins loforð á meðan losunin heldur áfram að aukast. Á sama tíma ráðstafa þessir sömu stjórnmálamenn 20 milljarðar króna í stækkun Keflavíkurflugvallar, þrátt fyrir að losun frá flugiðnaðinum hafi aukist gríðarlega á síðustu árum og greinin orðin mest losandi af öllum atvinnugreinum íslenska hagkerfisins.


Heimild: Hagstofa Íslands

Hér er mynd af efnahagsráðherra að taka fyrstu skóflustungu af 20.000 fermetra stækkun Keflavíkurflugvallar, sem verður örugglega til þess að losun frá flugi muni dragast saman á næstu árum (er það ekki annars?). Pólítískur geðklofi í sinni tærustu mynd:





6- Hin íslenka sérstaða


Rökfærsla: Við búum á afskekktu veðravíti langt norður í hafi. Það er auðveldara fyrir aðra að finna lausnir. Þar að auki erum við svo fá, við hljótum að fá undanþágu.


Svar: Já, við búum á eyju. Við erum sannarlega ekki ein um það: hvað með Íra? Hvað með Breta? Hvað með Ástrala og hvað með Nýja-Sjálendinga? Þeir eru margir sem búa langt frá einhverjum eftirsóttum stöðum, og alls ekki allir sem hafa aðgang að greiðum lestarsamgöngum. Það er engin afsökun til að fljúga eins og óðir menn, enda eru ýmsar leiðir til að draga úr losun frá ferðaiðnaði, svo sem farþegarsiglingar, fleiri ferðalög innanlands og sjaldgæfari en lengri utanlandsferðir. Það að vera fá er engin afsökun til að gera ekki neitt.



7- Engin boð og bönn


Rökfærsla: samfélagið mun eingöngu samþykkja hvetjandi og valkvæðar aðgerðir. Boð og bönn virka ekki.


Svar: þessi rökfærsla á sér tvær hliðar: annað hvort er fullyrt að boð og bönn virki ekki, eða þeim er hafnað af hugmyndafræðilegum ástæðum ("ég er á móti boðum og bönnum því ég er frelsissinni"). Hugmyndafræðilega séð er lítið um þetta að segja: ef einhver er sannfærður um að frelsi snúist um regluleysi þá er það bara hans trú og hér ríkir trúfrelsi. Það er hins vegar staðreynd að samfélagið okkar hefur alltaf byggt á boðum og bönnum og yfirleitt snýst umræðan frekar um hvaða boð og bönn eigi við hverju sinni. Það er erfitt að ímynda sér að við hefðum getað náð stjórn á Covid-faraldrinum ef stjórnvöld hefðu bara mátt beita hvetjandi og valkvæðum aðgerðum.

Hin hliðin á þessari rökfærslu er staðhæfingin að boð og bönn virki ekki. Það er hins vegar alhæfing sem hefur enga stoð í raunveruleikanum: vissulega eru einhver dæmi um lög og reglur sem hafa ekki virkað, en flestar reglur virka ágætlega svo lengi sem þær eru vel ígrundaðar og að þeim er fylgt eftir. Það að hafa reglurnar "valkvæðar" er hins vegar besta leiðin til þess að tryggja að það sé farið fram hjá þeim.



8 - Pólitísk fullkomnunarárátta


Rökfærsla: við ættum aðeins að notast við fullkomnar lausnir sem allir hlutaðeigangi aðilar geta sætt sig við, annars munu þær ekki virka.


Svar: allar breytingar eru umdeildar. Það eru alltaf aðilar sem tapa (eða telja sig tapa) á ákveðnum breytingum og munu leggjast gegn þeim. Það er sjálfsagt að ræða hvort og hvernig sé best að bæta þeim tapið en það er ómögulegt að ná fullkomna samstöðu um eitt eða neitt. Það er gjarnan bent á neikvæðar aukaverkanir aðgerða gegn loftslagsbreytingum og það er sjálfsagt að vera á varðbergi gagnvart þeim líka en hér þarf að muna að allar breytingar á leikreglum hafa einhverjar aukaverkanir í för með sér. Fullkomnar og sársaukalausar breytingar eru ekki til. Hér er líka mikilvægt að muna að þeir sem tapa á beytingunum til skamms tíma munu tapa enn meira á aðgerðarleysinu til langs tíma. Öll starfsemi sem byggir á notkun jarðefnaeldsneytis er dæmd til dauða ef hún breytist ekki, þar sem sú orka er dæmd til að klárast.



9- Hugsum um börnin


Rökfærsla: jarðefnaeldsneyti eru nauðsynleg fyrir velmegun þróunarríkja. Ef við hverfum frá þeim erum við að dæma fátækari íbúa heimsins til harðinda og neita þeim um rétt þeirra til nútímalegra lífskjara.


Svar: í fyrsta lagi en enginn að tala um að hætta alla notkun jarðefnaeldsneytis á einni nóttu, það er einfaldlega ekki raunhæft. Það þarf að gerast í skrefum þangað til notkunin er hætt um 2050. Það er hins vegar sjálfsblekking að halda að þróunarlönd geti náð sama "þróunarstig" og við. Þetta "þróunarstig" okkar er einmitt byggt á jarðefnaeldsneyti sem verður aldrei til í nógu miklu magni til að allir jarðarbúar geti lifað lífinu eins og meðal-vesturlandabúi. Við þetta bætast loftslagsbreytingar sem munu koma hvað verst niður einmitt á þessi "þróunarlönd". Einn þriðji af íbúum jarðarinnar (um það bil 3,5 milljarðar manna) gæti þurft að flýja heimalandi sínu ef ekki tekst að lágmarka skaðann af loftslagsbreytingum. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður verður ekki mikið um "þróun" hjá þróunarríkjunum, og ekki hjá hinum heldur.



10- Ákall til félagslegs réttlætis


Rökfærsla: loftslagsaðgerðir eru kostnaðarsamar. Þeir sem minnst mega sín munu þjást undir þunga þeirra. Loftslagsmál eru bara gæluverkefni þeirra ríku.


Svar: þetta er hin týpiska rökvilla í allri pólítískri umræðu: að benda á kostnað þess að breyta einhverju og gefa sér fyrirfram að það kosti hins vegar ekkert að breyta engu. Spurningin er hins vegar alltaf þessi: hvort er dýrara að breyta eða breyta ekki? Þótt aðgerðarleysið geti vissulega sparað manni einhverja aura til skamms tíma þá eru mögulegar afleiðingar lofslagsbreytinga það alvarlegar að á þeim er ekki einu sinni raunhæft að ætla að setja verðmiða. Umfang þeirra breytinga sem þörf er á er slíkt, að jafnvel þeir sem "minnst mega sín", eins og það er orðað, munu þurfa að leggja sitt af mörkum. Það er hins vegar ljóst að þeir sem standa best munu þurfa að breyta mest í sínum lífsvenjum, enda eru þeir yfirleitt með hæsta kolefnissporið.



11- Forlagatrú


Rökfærsla: Hvaða aðgerðir sem við grípum til verða alltaf of lítið, of seint. Loftslagshamfarir eru óhjákvæmilegar. Við þurfum annað hvort að aðlagast eða mæta örlögum okkar.


Svar: hér er aftur frekar um trú að ræða frekar en "rökfærslu" og lítið um það að segja. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér: sumir eru bjartsýnir, aðrir svartsýnir, hver hefur sinn smekk. Ef við lítum á mannkynssöguna þá segir hún okkur að menn geta sannarlega gripið til róttækra aðgerða ef þeir eru sannfærðir um nauðsyn þeirra. Enn einu sinni má minna á reynsluna af Covid-faraldrinum þar sem yfirvöld gripu til mjög íþyngjandi aðgerða til að lágmarka skaðann af völdum faraldursins. Kostnaðurinn af þeim aðgerðum var hár, en menn töldu það nauðsynlega fórn til að koma í veg fyrir enn hærri kostnað (ekki síst mannlegan) ef ekkert yrði gert.

Það sem gerðist í Covid-faraldrinum er hins vegar ekki að gerast í loftslagsmálum vegna þess að við erum ekki enn búin að meðtaka alvarleika málsins. Við erum ekki nógu hrædd. Fyrr eða seinna munum við verða hrædd og bregðast við, en fyrr væri betra en seinna...



12- Pólitískur ómöguleiki


Rökfærsla: aðgerðir til að draga úr losun eru í andstöðu við lífsvenjur nútímans og manneðli og eru þar af leiðandi pólískur ómöguleiki í lýðræðislegu samfélagi.


Svar: Allt í lagi, hér eru efasemdarmenn að skora stig. Þetta er líklega stærsta áskorun þeirra sem berjast fyrir aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Tæknilausnir og vægar aðgerðir munu aldrei duga ein og sér: lífsvenjur þurfa að breytast og nægjusemi er óhjákvæmilegur hluti af jöfnunni. Manneðlið vinnur líka gegn okkur: við viljum helst alltaf meira, það er manninum ekki eðlislægt að setja sér mörk, en nú þurfum við að gera einmitt það. Í 200 ár höfum við vanist því að fá alltaf meira, að eiga alltaf meira, þökk sé ofgnótt af ódýrri orku og alls konar tækjum sem við höfum látið vinna fyrir okkur: traktorar, vinnuvélar, skip og flutningabílar svo fátt eitt sé nefnt. Slagorð stjórnmálamanna voru hagvöxtur, meiri framleiðsla, meiri neyðsla, og þessi stefna verður ekki hægt að snúa við nema með algerri hugarfarsbreytingu hjá almenningi.

Lýðræði er valdakerfi þar sem valdið kemur frá botninum: stjórnmálamenn munu aldrei grípa til nauðsynlegra aðgerða nema sæmilegur meirihluti borgaranna sé sannfærður um gagnsemi þeirra. Þess vegna ættu umbótasinnar að einbeita sér að því að vekja almenning til vitundar um alvarleika málsins frekar en að reyna að þrýsta á stjórnmálamenn. Um leið og kjósendur eru farnir að taka málið alvarlega munu stjórnmálamenn fylgja.

Þetta verður ekki auðveld leið. Blóð, sviti og tár. En eina leiðin til að halda í bjartsýnina er að láta hendur standa fram úr ermum og framkvæma. Með iðjuseminni vaknar vonin...



Í lokin


Þessar 12 misgóðar ástæður til að gera ekki neitt heyrast daglega, og þær munu heyrast áfram. Þær eru jafn hættulegar og bein afneitun loftslagsvísinda því þær leiða til sömu niðurstöðu: aðgerðarleysis. Sumir nota þessan málflutning í góðri trú, aðrir gegn betri vitund, enn aðrir vegna þess að umfang vandans og flækjustig gera aðgerðarleysið að þægilegri valkosti. Það er að mörgu leyti skiljanlegt: það er sársaukafull og kvíðvænleg upplifun að komast út úr afneituninni. En um leið er það forsenda þess að finna vonina á ný...

495 views0 comments
Post: Blog2_Post
bottom of page