top of page
Search
  • Writer's pictureJean-Rémi Chareyre

Olíukreppur framtíðar: óðaverðbólga og hungursneyðir? (3/3)

Þetta er þriðja greinin af þremur í greinaflokki tileinkuðum hugsanlegum olíukrísum framtíðarinnar og möguleg áhrif þeirra á helstu atvinnugreinar landsins. Samkvæmt Alþjóða Orkustofnun (IEA) náði hefðbundin olíuvinnsla hámarki árið 2008 og mun rýrna eftir það af jarðfræðilegum ástæðum. Jafnvægi í framboði og eftirspurn hangir þannig á bláþræði, verðsveiflur á olíumarkaði eru meiri en nokkru sinni fyrr og líkur á meiriháttar olíukrísum eru verulegar. Um þetta má lesa nánar hér og hér.

Í fyrstu grein var farið yfir framtíðarhorfur í olíuvinnslu og hugsanleg áhrif á ferðaþjónustuna skoðuð, í annarri grein var fjallað um áhrif á sjávarútveg og áliðnað, en hér verður fjallað um áhrif olíukrísu á efnahag og fæðuöryggi.



Olían: eldsneyti á verðbólgubálið


Hækkun orkuverðs í Evrópu hefur leikið stóran þátt í að kveikja í verðbólgubálið sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði, en sú verðbólga hefur smitast alla leið til Íslands þótt raforkuverð hér hafi ekki hækkað eins og í Evrópu.

Sögulega séð hefur olíuverð alltaf haft mikil áhrif á verðbólgu á heimsvísu, þar sem olían er blóðrásin í hagkerfunum okkar. Myndritið hér að neðan sýnir fylgni milli hráolíuverðs og verðbólgu í Bandaríkjunum.


Heimild: economicshelp.org

Volcker seðlabankastjóri BNA á forsíðu Time eftir að stýrivextir voru hækkaðir upp í 20%.

Mestu verðbólguskot í hinum vestræna heimi komu einmitt í kjölfar olíukrísa á áttunda áratugnum: verðbólga náði allt að 14% í Bandaríkjunum eftir seinni olíukrísu (1979-1981) en þá hækkaði seðlabankastjóri Bandaríkjanna Paul Volcker stýrivexti alla leið upp í 20%. Mikil efnahagskreppa fylgdi í kjölfarið með allt að 10% atvinnuleysi.


Olíuverð hefur nú um það bil tvöfaldast eftir að Covid-heimsfaraldrinum lauk. Við þetta bættist hækkun gasverðs og raforkuverðs í Evrópu. En hversu stór hluti af verðbólgunni skýrist af hækkun orkuverðs að mati hagfræðinga? Gylfi Magnússon prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands var fenginn til að svara þeirri spurningu.

Gylfi Magnússon ræddi við blaðamann um áhrif olíukrísu á íslenskt hagkerfi.

„Það er erfitt að segja með nákvæmni. Hagstofan birtir sundurliðun á verðbólgu en þær tölur sýna bara beinu áhrifin af hækkun eldsneytisverðs. Það þarf hins vegar að kafa miklu dýpra til að átta sig á óbeinu áhrifunum. Nú hefur hækkun gasverðs til dæmis orsakað miklar hækkanir á áburðarverði þar sem áburður er framleiddur með jarðgasi, og þá hækkar verð á landbúnaðarvörum um leið, en sú hækkun er ekki skráð sem orkutengd verðbólga því áhrifin eru óbein. En við vitum að Covid-faraldurinn hefur líka ýtt undir verðbólgu, enda eru alls konar aðfangakeðjur sem eru ekki enn búnar að jafna sig eftir faraldrinum,‟ segir Gylfi.



Efnahagsspár taka ekki mið af olíuframboði


Ýmsir hagfræðingar hafa bent á að nær allar kreppur sem hafa átt sér stað í Bandaríkjunum eftir seinna stríð komu í kjölfar mikilla hækkana á olíuverði (þar með talin fjármálakreppan 2008). Sjálfur Seðlabanki Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu um þessi tengsl olíuverðs og efnahagskreppu. En taka efnahagsspár banka og ríkisstofnanna á Íslandi mið af framtíðarhorfum í olíuframboði?

„Nei,‟ segir Gylfi. „Spálíkönin sem menn nota eru hönnuð til að spá stutt fram í tímann, til dæmis þrjú til fimm ár fram, og gera bara ráð fyrir að framboð af olíu verði óbreytt út spátímabilið.‟


En hvaða áhrif gæti olíukrísa haft á íslenskan efnahag? „Það yrði vissulega eitthvað bakslag í ferðaþjónustu, bæði vegna þess að ferðir yrðu dýrari og vegna samdráttar í kaupmætti hjá nágrannaþjóðum. Ferðir til Íslands eru frekar dýrar nú þegar og mega ekki verða mikið dýrari. Í sjávarútvegi væri kannski hægt að velta hluta af kostnaðinum yfir á kaupendur.‟

En er hægt að treysta á áframhaldandi hagvöxt ef olíuskortur er handan við hornið? „Það er alveg ljóst að endalaus aukning á auðlindanotkun er ekki möguleg. En við getum kannski viðhaldið hagvextinum ef við lærum að gera meira úr minnu. Svo má velta fyrir sér hvort það sé endilega þörf á hagvexti hjá þjóðum sem eru nú þegar með þeim ríkustu í heimi, hvort það sé ekki frekar spurning um að dreifa afrakstri framleiðslunnar með réttlátari hætti, og hvort við þurfum ekki að reikna út hagvöxt öðruvísi, skipta um mælikvarða sem sagt,‟ segir Gylfi.



Svíar telja olíukrísu geta leitt til hungursneyðar


Í fyrra vann Landbúnaðarháskólinn skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í þeirri skýrslu var tekið fram að íslenskur landbúnaður væri mjög háður innfluttum aðföngum svo sem olíu, fóðri og áburði en að öðru leyti voru niðurstöður mjög almennar og því ekki svarað með nákvæmum hætti hversu alvarlegar afleiðingarnar af olíuskorti gætu orðið.


Í skýrslu sem unnin var fyrir sænsk stjórnvöld fyrir nokkrum árum var hins vegar farið nákvæmlega í saumana á hvaða áhrif skyndilegur olíuskortur gæti haft á matvælaframleiðslu og dreifingu í Svíþjóð, til dæmis ef til stríðsátaka kæmi eða eftir náttúruhamfarir. Höfundar skýrslunnar drógu upp þrjár sviðsmyndir: vægur skortur (25% samdráttur í olíuframboði), miðlungsskortur (50% samdráttur) og meiriháttar skortur (75% samdráttur) og reyndu eftir fremsta megni að spá fyrir um afleiðingar þessara þriggja mismunandi sviðsmynda.

Ein af niðurstöðum skýrslunnar var sú að við verstu sviðsmynd gæti eldsneytisverð hækkað upp í 160 sænskar krónur (2200 ISK / lítrinn miðað við núverandi gengi). Önnur niðurstaða var að kjöt- og mjólkurframleiðsla voru í sérstaklega veikri stöðu þar sem þær greinar reiddu sig að miklu leyti á innflutt fóður, og að jafnvel innlend fóðurframleiðsla reiddi sig á innfluttan áburð og skordýraeitur og væri þannig mjög berskjölduð fyrir olíukrísu.

Íbúar stórborga voru líklegir til að verða fyrir mestum áhrifum af matvöruskorti þar sem borgir reiða sig á langar flutningskeðjur til að fullnægja næringarþörf íbúa sinna. Helsta niðurstaða skýrslunnar var þó þessi: ef til 50% samdráttar í olíuframboði kæmi eða meiri, væri þjóðin ekki lengur fær um að fullnægja næringarþörf íbúa sinna og hungursneyð óumflýanleg:


Myndrit tekið úr sænskri skýrslu um olíukrísu og fæðuöryggi. Efri punktalínan sýnir næringaþörf fullorðins karlmans í hvíldarstöðu. Súlurnar sýna fæðuframboð miðað við 3 mismunandi sviðsmyndir (fysta súlan = núverandi framboð).

Getum við heimfært þessa skýrslu yfir á Ísland? Kannski ekki að öllu leyti. Að einhverju leyti stendur Ísland betur að vígi vegna þess að þjóðin er mikill nettó-útflytjandi matvæla þökk sé sjávarútveginum, sem þýðir að sjávarútvegurinn gæti skaffað þjóðinni nóg af fiski jafnvel þótt hann þyrfti að draga úr veiðum um 50% eða meira (með því skilyrði að innlendi markaðurinn fengi forgang yfir útflutning). En að sumu leyti gæti Ísland verið í jafnvel verri stöðu en Svíþjóð vegna legu sinnar: fjarlægðin frá Evrópu þýðir að allur innflutningur þaðan er dýrari og lestarsamgöngur geta ekki vegið upp á móti olíuskorti.

Til að fá betri mynd af stöðunni þyrfti að rannsaka málið eins og Svíar gerðu.



Orkuskipti í orði, en ekki á borði


Fræðimenn og forsvarsmenn ríkisstofnanna eru að einhverju leyti meðvitaðir um hættuna sem stafar of olíukrísum í framtíðinni, en margir þeirra virðast gera ráð fyrir að orkuskiptin muni leysa vandann að mestu leyti.

Nýlega kynnti Orkustofnun nýjan vef undir heitið orkuskiptaspa.is. Myndritin á síðunni eru til marks um að orkuskiptin séu fyrst og fremst í orði, en ekki á borði. Samkvæmt þeim verður olíuþörf árið 2040 nánast jafn mikil og hún var árið 2012:



Heimild: orkuskiptaspa.is

Halla Hrund orkumálastjóri hefur hvatt stjórnvöld til þess að huga betur að orkuskiptum. Þegar talið berst að hugsanlegri olíukrísu vill Halla líta á björtu hliðarnar og vonar að slík krísa gæti orðið okkur hvati til að hraða orkuskiptunum:

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri ræddi við blaðamann um olíukrísu og orkuskipti.

„Hitaveituvæðingin sem við fórum í á sínum tíma var hluti af okkar viðbrögðum við olíukreppunni. En þessi umskipti gerðust ekki af sjálfum sér. Ríkið setti á fót sjóð sem sveitarfélög gátu fengið úthlutað úr til þess að bora eftir heitu vatni. Það voru veitt 350 lán á 20 ára tímabili og á þessum grunni voru byggð 20 hitaveitukerfi. Ef til orkukreppu kemur aftur þurfum við að nýta kreppuna til að byggja upp réttu innviðina,‟ segir Halla. „En það þarf alltaf að hugsa langt fram í tímann. Skammtímasjónarmið eiga ekki að ráða í stórum ákvörðunum um framtíð þjóða.‟


Halla Hrund telur ferðaþjónustuna vera ein stærsta áskorunin, en Sigurður Ingi Friðleifsson sviðsstjóri hjá Orkustofnun hefur kallað greinina „hið villta hross‟ sem þarf að temja ef draga á úr olíunotkun. Halla telur endalausan vöxt greinarinnar ekki vera æskilegan og segir stýringu vera óhjákvæmilega.

Hvað fæðuöryggi varðar segir Halla nauðsynlegt að rafvæða vinnuvélar í landbúnaði, leggja áherslu á þá framleiðslu sem hefur minnstu þörfina fyrir olíu og hafa flutningsleiðir sem stystar. En eru neyðaráætlanir og langtímaáætlanir til staðar ef til olíukreppu kemur? „Nei, ekki svo ég viti til,‟ segir Halla.



Orkuskiptin ein og sér munu ekki duga til


Orkuskiptin sem farið var í eftir fyrstu olíukreppurnar snerust fyrst og fremst um að skipta olíuna út fyrir aðra orkugjafa í raforkuframleiðslu og húshitun: hver og ein þjóð í Evrópu sótti þær lausnir sem nærtækastar voru. Gasið og kolin urðu fyrir valinu þar sem þau voru í boði, sumar af stærri þjóðunum reistu kjarnorkuver (eins og Frakkland sem átti hvorki kol né gas), þær sem áttu nóg af fjöllum nýttu sér vatnsaflið til raforkuframleiðslu. Íslendingar fengu jarðvarmann og vatnsaflið í vöggugjöf og nýttu sér það.

Lítið breyttist hins vegar í samgöngukerfunum: þar var olían sem fyrr allsráðandi, af eðlisfræðilegri ástæðu: hún hefur engan sinn líkan þegar kemur að orkuþéttleika. Samgöngutæki þurfa léttan og þéttan orkugjafa sem geymist vel: kolin eru of þung, gasið er of plássfrekt og raforkan geymist illa. Þess vegna eru orkuskipti í samgöngum miklu stærri áskorun en orkuskipti í húshitun og raforkuframleiðslu.

Í þeim löndum þar sem framfarir áttu sér stað í átt að minni olíunotkun í samgöngum var ekki um orkuskipti að ræða, heldur fyrst og fremst um betri skipulagningu og nægjusemi: reiðhjólamenning Hollendinga og Dana eru besta dæmið um slíkt (yfir 60% íbúa í Kaupmannahöfn hjóla í vinnuna eða í skóla).


Yfir 60% íbúa Kaupmannahafnar hjóla í vinnuna eða í skóla.

Framleiðsla óhefðbundins eldsneytis á borð við rafeldsneyti er háð mikilli óvissu hvað varðar kostnað, tímasetningu og framleiðslugetu. Til að framleiða nægilegt magn af vetni til að skipta út öllum olíuinnflutningi Íslands þyrfti þjóðin að setja upp rúmlega 2000 vindmyllur svo dæmi sé tekið. Yrði þessum vindmyllum dreift jafnt yfir landið væri þá aðeins um 6 km millibil á milli þeirra. Jafnvel þótt sátt næðist til þess í samfélaginu mundi slík uppbygging taka marga áratugi og nokkuð óvíst hvort framleiðslan yrði tilbúin á réttum tíma og á réttu verði.

Það er því alls óvíst hvort ný olíukrísa myndi leysast jafn farsællega og þær síðustu ef undirbúningurinn er enginn, sérstaklega ef sú krísa verður að viðvarandi ástandi eins og búast má við þegar olíuframleiðsla byrjar að rýrna til langs tíma, en í síðustu olíukrísum fór framleiðslan að aukast aftur eftir aðeins nokkurra ára samdrátt.



Reddast þetta bara?


Alþýðuviskan kennir okkur að vona það besta en búa sig undir það versta. Seinni helmingur spakmælisins virðist hins vegar hafa gleymst þegar kemur að orkumálum. Sagan sýnir að þróun olíuframleiðslu í heiminum hefur gríðarleg áhrif á verðbólgu, efnahagslegan stöðugleika og fæðuöryggi þjóða. Hagkerfi Íslands er engan veginn tilbúið fyrir lífið eftir olíuna, þrátt fyrir fallegar ræður um orkuskipti. Þvert á móti hefur vaxtarstefna síðustu ára í ferðaþjónustu veikt áfallaþol hagkerfisins enn frekar þar sem sú grein eins og hún er rekin í dag er afar viðkvæm fyrir sveiflum í olíuframboði.

Þegar kemur að náttúruhamförum á borð við eldgos og jarðskjálftar höfum við haft vit á því að hafa bæði vöktunarkerfi og vel hugsaðar neyðaráætlanir, en þegar kemur að olíuþurrð er ekki hugað að vöktun, og greiningar og neyðaráætlanir eru engar. „Við eigum engan lager af olíu, við látum eins og þetta reddist bara,” eins og einn viðmælandi blaðamanns komst að orði.


Það er enginn ódýr og fullkominn staðgengill fyrir olíuna sem orkugjafa í samgöngum og hugmyndin um að umskiptin muni gerast af sjálfum sér um leið og neyðin bankar við dyrnar byggist á óskhyggju. Sú óskhyggja getur ekki komið í staðinn fyrir raunhæfa áætlun um samdrátt í olíunotkun.

Eftir olíukreppur áttunda áratugarins fóru Evrópuþjóðir í auðveldustu aðgerðirnar til að draga úr olíunotkun, en nú er áskorunin allt annars eðlis, og langtímahorfur í olíuframboði dekkri en nokkru sinni fyrr. Getum við treyst á að „þetta reddist‟ enn einu sinni, bara vegna þess að „það reddaðist ágætlega síðast‟?


41 views0 comments
Post: Blog2_Post
bottom of page